Hví hafa þýskir bílar "skaðað efnahagskerfi" BNA? Ekki með undirboðum.

Það mætti halda að innflutningur þýskra bíla "ógni þjóðaröryggi" Bandaríkjanna vegna þess að þeir seljist svo vel vegna undirbóða á markaðnum vestra. 

En það er ekki orsökin. Þýsku bílarnir seljast vel þrátt fyrir að þeir séu dýrir. 

Hvernig má það vera? Vegna þess að þeir eru betri en bandarísku keppinautarnir. 

Í stað þess að veita bandarískum bílaiðnaði hvatningu til að auka gæði amerísku bílanna, ætlar Trump að veita þeim aðstoð til að hjakka í sama farinu með því að stöðva innflutning á góðum bilum. 

Raunar eru fleiri þýskir bílar framleiddir í Bandaríkjunum sjálfum og flestir til útflutnings,  en þeir þýsku bílar, sem fluttir eru inn. 

Ef Þjóðverjar svara í sömu mynt verður niðurstaðan sú að Trump skjóti sig í fótinn með kolrangri aðferð til þess að gera "Bandaríkin mikilfengleg á ný." 

Hinir "stórfenglegu" amerísku bílar skulu í lýðinn með öllum tiltækum ráðum. 


mbl.is Trump hótar ESB tollum á evrópska bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau fatta þetta ekki, komin langt út úr veruleika .

Launahæstu stéttir þjóðfélagsins sem eru búnar að skammta sér launahækkanir á síðustu mánuðum og misserum, sem nema jafnvel margföldum heildarlaunum hinna verst settu er komin langt út úr veruleikanum, sem blasir við tugþúsunum Íslendinga dag frá degi. 

Þessir valdhafar, bæði á vettvangi atvinnulífs og stjórnmála, fjarlægjast æ meira venjulegt fólk og fatta ekki þá djúpu undiröldu, sem fáir hafa skrifað meira um en Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, bæði "innvígður og innmúraður" í stærsta ríkisstjórnarflokkinn. 

Bæði á hans síðu og þessari hefur verið vísað til atburðarásina, sem hófst í nóvember 1963 og skilaði árangri á næstu árum. 

Það lifir enginn á tölum um kaupmátt, sem hefur ekki peninga til að kaupa, og er látinn borga skatta af launum, sem eru meira en hundrað þúsund krónum undir fátæktarmörkum. 

Að þeim verst settu séu boðin í raun úr digrum sjóðum ríkisins ekki meira en 6000 krónur á mánuði í kjarabætur er ekkert annað en móðgun og blaut tuska framan í þetta fólk. 

Og af atvinnurekenda hálfu er boðin minni hækkun en nemur verðbólgu.

Yfirlýsingarnar núna eru í æpandi mótsögn sem forystufólk Vg sagði fyrir síðustu kosningar til að krækja í atkvæði fólksins, sem nú finnst það illa svikið.   


mbl.is „Til­lög­urn­ar af­skap­lega góðar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banaslys á einum af "svörtu blettunum": Snjallsímar eða ölvun.

Nokkrir vegarkaflar hér á landi hafa á sér augljóst óorð: Þar verða tíð banaslys. Þetta hafa stundum verið nefndir "svartir blettir". 

Á öllum þeirra er aðeins ekið eina akrein í hvora átt. Bílar mætast og geta skollið saman ef annar eða báðir sveigja inn á öfugan vegarhelming.

Síðuhafi pikkar þennan pistil í endurhæfingu eftir að hafa verið sviftur mætti í öðrum handlegg og axlarbrotnað við það að á hjólabraut mætti hann hjólreiðamanni, sem var upptekinn við lestur og sveigði skyndilega yfir á öfugan vegarhelming. 

Þegar rýnt er í orsakir þess að það verða svona mörg banaslys eða alvarleg slys af þessum völdum kemur óhugnanleg staðreynd í ljós: Orsakirnar eru tvær tegundir slysa, þar sem önnur tegundin er ný: Notkun snjallsíma. 

Hin orsökin er ölvun við akstur. 

Á einum kaflanum í vegakerfinu eru þeitta einu orsakirnar. 

Um alla kaflana gildir það, að ef hægt er að aðskilja aksturstefnur með vegriði, yrðu ekki þessi alvarlegu slys. 

Heyra má andmæli á þann veg að það nægi að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir ölvun eða notkun snjallsíma og að þá muni slysin hverfa án þess að fara þurfi í dýrar vegaframkvæmdir. 

En við blasir, að í fyrsta lagi verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir mistök bílstjóra og að í öðru lagi kemur aðskilnaður aksturstefna með vegriði nær algerlega í veg fyrir þessi alvarlegustu slys. 


mbl.is 75 brýr = 3.000 skilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband