Búinn að gefa tóninn: "Ekkert að flýta mér"?

Það getur verið misjafnt, hvort það sé jákvætt eða neikvætt að breyta um stefnu eða hegðun í samræmi við nýjar upplýsingar eða aðstæður. 

Þegar herskáar og ógnvekjandi yfirlýsingar Bandaríkjaforseta fyrir tveimur árum í garð Norður-Kóreu eru bornar saman við kúvendingu, sem nú virðist orðin hjá honum í garð einræðisherrans í því ríki kúgunar og sults, er hægt að túlka það sem varasama eftirgjöf. 

Um alllangt skeið hafa Norður-Kórea og Venesúela verið nefnd í sömu andránni sem dæmi um skipbrot kommúnismans. 

En olíuauðurinn í Venesúela ræður áreiðanlega mestu um það, hve hart Bandaríkjamenn sækja í að "fjárfesta í" ( les: eignast) þessum auði og nýta sér hrun landsins. 

Á tímabili eftir að Kóreustyrjöldinni lauk ríkti mikil spilling í Suður-Kóreu og efnahagurinn var ekki beysinn. 

Sem dæmi má nefna að svo seint sem 1986 voru framleiddir 130 þúsund bílar í landinu, en aldarfjórðungi seinna voru þeir orðnir 30 sinnum fleiri, fjórar milljónir, fleiri en Frakkar, Bretar og Ítalir framleiða samanlagt!  

Landið hafði risið úr öskustó og er nú eitt af helstu iðnríkjum heimshlutans. 

Og þessi endurfæðing er líklega ástæða þess, hvernig Trump hefur kúvent gagnvart Norður-Kóreu. 

Það eru fyrst og fremst Suður-Kóreumenn sem neyðast til að friðmælast við þjóðbræður sína, vegna þess að hinn kosturinn; kjarnorkustríð, er ekki í boði. 

Suður-Kóreumenn og Japanir eru afar mikilvægir bandamenn Bandaríkjamanna í Asíu og því er vel, að Trump reynir frekar að leysa vandamálin á svæðinu á friðsamlegan hátt heldur en að láta sverfa til stáls. 

Ef honum tekst það, fær hann prik frá síðuhafa. 

 

 

 

 


mbl.is Trump tilfinningaríkur á Twitter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttir og listræn samkeppni fara ekki vel saman við stjórnmál.

Í heimildamynd um bandaríska blökkumanninn Jesse Owens og afrek hans kom fram, að litlu hefði munað að hann neitaði að keppa á Ólympíuleikunum 1936 til að mótmæla því að þeir væru haldnir þar í landi. 

Ef hann hefði gert það hefðu afrek hans þar aldrei verið unnin og haft margfalt meiri áhrif en það að hann hefði neitað. 

Margar vestrænar þjóðir sniðgengu Ólympíuleikana 1980 í Moskvu vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan og þess var síðan hefnt af kommúnistaríkjunum með því að sniðganga Ólympíleikana 1984 í Los Angeles. 

Tvennir Ólympíuleikar voru þannig stórskaðaðir af pólitískum orsökum sem eftir á reyndist vera meira en lítið hræsnisfull hjá þjóðum, sem sjálfar hernámu Afganistan 2001.  

Hvað útilokun Suður-Afríku snerti, var hún vegna þess að gróf brot á Ólympíuhugsjóninni viðgengust í aðskilnaðarstefnuna þar í landi, sem var látin bitna á svörtum íbúum landsins. 

Nasistar pössuðu sig á því að engin mismunun væri á Ólympíuleikunum sjálfum, og hið hlálega var að í Berlín upplifði Jesse Owens það í fyrsta sinn á ævinni að geta verið herbergisfélagi með hvítum og farið með hvítum og svörtum í búningsklefa og bað. 

 


mbl.is Úkraína hættir við þátttöku í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of seint fyrir Edduna núna, en borð fyrir Báru á næsta ári.

Í hálfkæringi sagði síðuhafi á Edduverðlaunahátíðinni fyrir fjórum dögum, að hann teldi að beint sjónvarp frá Alþingi ætti að flokkast undir barnaefni og vera tilnefnt til Edduverðlauna, því að þarna væri oft um háklassa sandkassaleik að ræða. 

Ekki óraði hann fyrir því að við fyrsta tækifæri væri engu líkara en að hluti þingmanna hefði tekið þetta bókstaflega í gær og í nótt, því að í meira en 14 klukkustundir samfleytt héldu nokkrir þingmenn Miðflokksins uppi svörum og andsvörum hvor við annan um sama málsefnið, án þess að séð yrði að aðrir þingmenn væru í tómum þingsalnum. 

Ef þeir fundu tilefni til þess að ræða fundarstjórn frú forseta, gerðu þeir það sem og klæðaburð einhverra þingmanna, sem aldrei sáust á meðan síðuhafi sat sem bergnuminn og horfði á þessa snilld. 

Þessi frammistaða hefði getað skilað þeim Eddu núna, ef þeir hefðu fattað gildi tækifærisins fyrr, en huggun er, að héðan af kemur þessi útsending vel til greina á næstu Edduhátíð. 

Alls konarl útskýringar mátti sjá á samfélagsmiðlum í gær, svo sem að Sigmundur Davíð hefði ekki mætt á nefndarfund þar sem meirihlutinn afgreiddi málið úr nefndinni. 

Uppákoman í gær hefði haft tvíþættan tilgang:  Að hefna fyrir þetta og að sýna fram á mátt, mannfjölda og atgerfi stærsta stjórnarandstöðuþingflokksins. 

Í leiðinni var hægt að ræða um snilld formannsins í tengslum við Icesavemálið stanslaust í í meira en 14 klukkustundir. 

Síðuhafi vill bæta við möguleikanum á að hafa borð fyrir Báru og hampa Eddunni að ári. 


mbl.is Fundi slitið 5:21
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband