Skemmtileg safn, en lýst eftir elstu hlunkunum og einföldustu símunum.

Hugsanlegt farsímasafn Íslands gæti orðið skemmtilegt og fjölbreytt ef marka má það sem Gylfi Gylfason hefur sýnt. 

Þó sjást ekki á þeirri mynd fyrstu tvær kynslóðirnar, hlunkarnir stóru fyrir NMT kerfið sem voru hér fyrstu tíu árin. 

Þeir allra fyrstu voru fokdýrir og svo þungir og stórir að maður gat orðið slæmur í bakinu við að láta þá hanga á öxlinni. 

Ég hef alla tíð verið með tvo farsíma til öryggis, og sá minni hefur verið sá ódýrasti og einfaldasti á hverjum tíma. 

Sá síðasti af einföldustu gerð var keyptur á ca 5000 kall og var svo einfaldur, að rafhlaðan entist og entist, og það eitt var dásamlegur eiginleiki.

Og einstaklega einfaldur og auðskilinn í notkun. 

Svo andaðist hann nýlega en þá kom upp óvænt vandamál: Það var ekki hægt að finna jafn einfaldan í staðinn. 

´Sá einfaldasti sem fannst, er bæði með skjá og myndavél þannig að ending rafhlöðunnar er langt frá því sem var á þeim gamla. Og verðið tvöfalt hærra. 

Ástæðan, sem gefin var upp, var sú að það þýddi ekkert að bjóða fólki myndavélarlausan og einfaldan síma. Tíu þúsund krónu væri auk þess gjafverð. 

Vonin um að eiga eins einfaldan síma í notkun og sá gamli, fauk út í veður og vind. Nákvæmlega ekkert var eins og á þeim gamla. 

Það virðist vera einhver sýki í gangi í tölvuheiminum um að standa í stanslausum uppfærslum og breytingum, - oft að því er virðist bara breytinganna vegna og til þess að ergja mann. 

 


mbl.is Farsímasaga Íslands til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaður flugvélakirkjugarður í Mojave eyðimörkinni.

Á ferð síðuhafa og konu hans um Kaliforníu 2002 lá leiðin um tvö af þurrustu svæðum Ameríku, Mojave eyðimörkina og Death Valley. 

Ýmis mögnuð og hrollvekjandi náttúrufyrirbæri mátti sjá á þessum eyðimerkurslóðum, en einna áhrifamest var að koma skyndilega eftir auðninni að risastórum flugvelli, þar sem flugvallarsvæðið, flugplön og akbrautir voru þakin flugvélum í hundraða tali. 

Eins og orðið bilakirkjugarður er notaður um geymslustaði aflóga bíla, má nota svipað orð um þennan einstæða flugvöll, þar sem flugvélarnar eru í mismunandi ástandi en eiga það sameiginlegt að vera á áfangastað í átt til enda flugferilsins. 

Sumar eru jafnvel fleygar, en er komið þarna fyrir til bráðabirgða vegna þess hve dýr stæði fyrir flugvélar eru á venjulegum flugvöllum. 

Nú er svo að skilja á tengdri frétt á mbl.is að farþegalaus MAX-vél á leið til bráðabirgða geymslu hafi þurft að nauðlenda þarna í eyðimörkinni. 

Hefði illa farið, hefði heitið "flugvélakirkjugarður" fengið óhugnanlega viðeigandi merkingu. 


mbl.is MAX-þota Southwest þurfti að nauðlenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkunýtni - koma svo!

Í ágúst 2016 fór síðuhafi í rúmlega sólarhrings ferð hringinn í kringum landið á "vespu"hjólinu "Létti", Honda PCX 125 cc til þess að vekja athygli á því að á meðan orkuskipti eru að komast á, er hægt að flýta fyrir þeim og ná talsverðum árangri án þess að kaupa rafbíl fyrir allt frá fjórum milljónum króna. Sörli í Olís, Borgarnesi, tölva o.fl.

Í ágúst 2015 hafði verið farið á rafafli eingöngu á rafreiðhjólinu Sörla frá Akureyri til Reykjavíkur um Hvalfjörð á alls tæpum tveimur sólarhringum fyrir aðeins 115 krónur í orkukostnað. 

Þetta var gert undir kjörorðinu "Orkuskipti - koma svo!" og voru sett rafhjólamet, sem enn standa, svo sem að fara 189 km á einni hleðslu.

Á myndinni er Sörli í hleðslu á bensínstöð í Borgarnesi, en í baksýn má sjá tölvu og annan búnað sem var með í ferðinni. 

Hjólið Léttir er tiu sinnum ódýrari og tíu sinnum léttari farkostur en hreinn rafbíll og eyðir samt aðeins 2,2 lítrum á hundraðið af bensíni innanbæjar, en 2,5 utanbæjar. 

 Orkukostnaður frá Reykjavik til Akureyrar var 1900 krónur.Léttir við Möðrudal Ág 2017

Kolefnisfótspor við það að vinna fyrir kostnaði vegna fjármögnunar og reksturs vespuhjólsins og vegna framleiðslu þess og förgunar er augljóslega margfalt minni er vegna tíu sinnum dýrari og þyngri rafbils eða tengiltvinnbíls. 

Líklega fer svona hjól nálægt því að vera álíka vistmilt og rafbíll. 

Á myndinni er Léttir við Möðrudal með Herðubreið í baksýn í tveggja hringja 2000 kílómetra trúbador-ferð 2017, með hljómflutningskerfi í farangurshólfi aftan á. 

Ef tengiltvinnbíll er hlaðinn reglulega er raundrægni innanbæjar í kringum 30 kílómetra, en meðalvegalengd í borgarakstri er einmitt um 30 kílómetrar á dag. 

Hybrid-bilar, sem ganga raun eingöngu fyrir bensínafli, (það er ekki hægt að tengja þá við rafafl utan bílsins)  þótt það sé að hluta til fært yfir í rafmótor í akstri, eyða að vísu um 20-25% minna bensíni en samsvarandi hreinir bensíonbílar samkvæmt upplýsingum framleiðenda, en eru líka talslvert dýrari í innkaupi. 

Reynsla síðuhafa af akstri Priusbíls var sú, að sparneytnin sé að hluta til ofmetin. 

Og tal um að hybrid bílar gangi 50 prósent fyrir rafafli er miðað við tímalengd, en í raunakstri hybrid bíla nýtist rafvélin að mestu leyti í lulli eða niður brekku, eins og eyðslutölur sýna glögglega. 

Tengiltvinnbíll er dæmi um að hægt sé að laga sig að kjörorðinu "Orkunýtni - koma svo!" á meðan rafvæðing bílaflotans er að ganga yfir. 


mbl.is Nýr Kia Optima Plug-in Hybrid frumsýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerfi í 737 Max lagað með því að bæta við nýju kerfi. En hvað, ef það bilar?

Með því að bæta nýju viðvörunarkerfi við annað nýtt í Boeing 737 Max vélum er ekki ráðist að rótum vandans, sem liggur í því, að til þess að geta troðið stærri og aflmeiri hreyflum á vélarnar en þær voru hannaðar fyrir í upphafi og hafa hreyflana framar en áður, röskuðust þyngdar- og lyftihlutföll vélanna og sköpuðu hættu á ofrisi og óviðráðanlegum eiginleikum, sem ekki voru í fyrri gerðum 737 véla.

MCAS kerfið gat bilað og orðið hættulegt í samræmi við alræmt lögmál Murphys og það kostaði tvö mannskæð flugslys með stuttu millibili. 

Spurningin er hvort það að bæta nýju kerfi við það sem gat bilað eða valdið vandræðum geti ekki líka orðið lögmáli Murphys að bráð og bilað eða valdið vandræðum. 

Með því að endurhanna þessa stærð þotna allt að því frá grunni myndi verða ráðist beint að rót vandans og þá þyrfti ekki nein flókin viðbótar sjálfstýringar- og viðvörunarkerfi. 

En notkun 737 Max þotnanna strax núna er framleiðendunum lífsnauðsyn ef þeir ætla að vera fyllilega samkeppnishæfir við Airbus 320 Neo, sem ekki þarf kerfi á borð við MCAS, af því að hún var hönnuð aldarfjórðungi síðar en Boeing mjóþoturnar og höfð nægilega stærri en þær til þess að stærri og aflmeiri hreyflar yllu ekki tilkomu hinna tölvustýrðu kerfa, sem verður að setja í Max vélarnar. 

Vonandi leysir það málin í Boeing Max vélunum. Síðuhafi flaug með einni slíkri vél í síðustu ferð hennar áður en hún var kyrrsett, setti traust sitt á vel þjálfaða flugmenn og var ánægður með það hve hljóðlát hún var og þægilega innréttuð, þrátt fyrir mjóan skrokk.


mbl.is Kynna uppfærslu á MAX-8 vélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband