Ekki seinna vænna að draga þá línu, sem verður að draga.

Í grein síðuhafa í Fréttablaðinu í gær voru nefndir tíu stefnumarkandi vegvísar á þeirri leið, sem áhrifamikil öfl í þjóðfélaginu hafa markað undanfarin ár til þess að þvinga þá endanlega niðurstöðu fram að helstu og ómetanlegustu náttúruverndarverðmætum landsins verði fórnað á altari óstöðvandi græðgi virkjanafíklanna. 

Hræðsluáróðurinn varðandi það að ekki megi anda á kröfurnar sem búa að baki orkupökkunum nema að það setji EES samninginn í uppnám er veginn og léttvægur fundinn af helsta talsmanni þessa samnings hér á landi frá upphafi, Jóni Baldvini Hannibalssyni og ætti að vera skyldulesning íslenskra kjósenda, sem hafa kosið Alþingsmenn til þess að vera í vinnu hjá sér, en ekki öfugt. 

Við hvert skref, sem tekið er við innleiðingu orkupakkanna er hjalað um það, að það verði að fresta því að draga endanlega línu þangað til síðar og segja þá: Hingað og ekki lengra. 

En með hverju undanhaldssskrefi verður slík ákvörðun erfiðari og jafnvel óframkvæmanleg þegar að henni kemur. 

Þetta minnir óþyrmilega á þekkt fyrirbæri hjá áfengisfíklum þegar þeir færast í raun sífellt undan aðgerðum í sínum málum með því að segja: Ég ætla að hætta að drekka á morgun. 

Augljóst er, þegar málið er skoðað, að skást hefði verið að nota tækifærið til þess að draga þessa línu sem tryggilegast á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar 2017. 

Það var að vísu því miður ekki gert, en nú er ekki seinna vænna en að koma þessu í verk og hafa í huga margar undanþágur svo sem um dönsk sumarhús, svo að eitthvað sé nefnt. 


mbl.is „Viljum við taka þessa áhættu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg og einstök spenna magnast.

Sérkennileg spenna  magnast fyrir Eurovisionkeppnina í Ísrael, og engin dæmi eru frá fyrri tíð um að litla Ísland geti verið miðjan í þessari spennu. 

Orðið suðupunktur, nokkurs konar miðpunktur meira en 70 ára gamals hernaðarástands í átökum tveggja mennigar- og trúarheima í Miðausturlöndum, kemur upp í hugann. 

Stór orð féllu í sjónvarpsþættinum "Alla leið" um framlag Hatara til keppninnar;  allir viðstaddir veifuðu 12 stigum og töldu lagið vera í sérflokki varðandi frábæra listræna framkvæmd á alla lund. 

Tónninn minnti kannski einhverja á hina ginnhelgu og afgerandi trú gestgjafaþjóðarinnar á yfirburði kynstofns, sem í helgustu bók Gyðinga og kristinna manna er lýst sem þjóð, útvalinni af Guði sjálfum, til þess að ráða skilyrðislaust yfir "Landinu helga". 

"Landnámið" er enn í fullum gangi í formi svonefndra landnemabyggða, sem eru þungt áherslumál þess þingmeirihluta og forsætisráðherra, sem hefur styrkt stöðu sína í ný afstöðnum þingkosningum og á tilveru sína undir stuðningi heittrúuðustu fylgjenda hins óstöðvandi landnáms, sem aftur á móti framkallar stanslaust heift og hefndarhug þeirra, sem fara halloka og sverja þess jafnvel dýran eið að útrýma Ísaelsríki. 

Inn í þessa sjóðheitu deiglu eru að stíga kornungir og sjóðheitir listamenn frá litlu norrænu eyjunni, sem fóstraði þann fulltrúa sinn hjá Sameinuðu þjóðunum, er flutti meðmælendaræðuna fyrir aðild Ísraaelsríkis að samtökunum fyrir rúmum 70 árum. 

Þetta unga íslenska hæfileikafólk er í einstaklega viðkvæmri og dæmalaust magnaðri stöðu, sem vandasamt getur orðið að vinna úr; margir pyttir, sem geta birst og hægt er að detta í á hverjum degi héðan af.


mbl.is Mörg þúsund miðar óseldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband