Vegvísarnir greininni hefðu getað orðið tólf eða fleiri.

Þegar nefndir eru í grein síðuhafa í Fréttablaðinu í fyrradag tíu stefnumarkandi vegvísar íslenskra ráðamanna á síðustu fimm árum í átt til þess að öllum ósnortnum náttúruverðmætum Íslands verði fórnað á altari virkjanagræðginnar má geta þess að þessi vegvísar voru að minnsta kosti tveimur fleiri. 

Svona hefði listinn nefnilega geta orðið i greininni: 

1. Handsal forsætisráðherra Íslands og Stóra-Bretlands um viljayfirlýsingu vegna sæstrengs. 

2. Stofnun samtaka um lagningu strengsins. 

3. Forsætisráðherrann stillir sér upp í miðju hóps fjárfesta, sem ætla að reisa álverksmiðju norðan við Blönduós. 

4. Orð þáverandi umhverfisráðherra á fundi þess efnis að ef dirfst verði að flytja áformaða Skrokkölduvirkjun við Sprengisandsleið (ca 35 megavött) yfir í verndarflokk, myndi verða opnað Pandórubox í virkjanamálunum. Út úr því gætu þá komið virkjanir á jökulsánum á Norðurlandi sem eru í verndarflokki en yrðu fluttar í virkjanaflokk. ("Nýtingarflokkur" er gildishlaðið orð.) 

5. Stjórnvöld gefa út þá orkustefnu, að orkuframleiðsla verði tvöfölduð fyrir 2025 upp í það að framleiða tíu sinnum meiri orku en Íslendingar þurfa fyrir eigin fyrirtæki og heimili. 

6. Forstjóri Landsvirkjunar lýsir því yfir að það "verður ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur verið lagður til landsins. Sem þýðir í raun að tveir strengir verði lagðir vegna afhendingaröryggis, samanber það að allar aðrar þjóðir Evrópu eru með fleiri en einn streng til annarra landa. 

7. Landsnet gerir áætlanir um risaháspennulínur um allt land, meðal annars sem hluta af  "mannvirkjabeltum" yfir miðhálendið og sækir þetta fast. 

8. Í rammaáætlun eru á blaði um hundrað nýjar virkjanir í viðbót við þær 30 sem þegar eru komnar. 

9. Orkumálastjóri upplýsir hróðugur í sjónvarpsþætti að í viðbót við þetta sé búið að sækja um rannsóknarleyfi fyrir um 100 virkjunum, sem eru innan við 10 megavött.  10 x 100 = 1000 megavött, meira en Kárahnjúkavirkjun eða allar virkjanirnar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Alls er samlagningin 30 plús 100 plús 100 = um 230 virkjanir. Og sprenging framundan: 

10. Búið er að setja af stað vinnu við að reisa tvær 130 megavatta vindorkuvirkjanir, hvor um sig hátt í Blönduvirkjun að stærð. Engin heildaráætlun eða rannsóknir á landsvísu eru til; landið allt er undir frá hálendinu út til stranda. 

11. Vandamál vindorkugarða er að þegar vindur er of lítill eða of mikill, verður orkufall. Þess vegna yrðu sæstrengir afar mikilvægir fyrir þann möguleika að fá ævinlega hæsta markaðsverð í Evrópu fyrir vindorkuna með tilkomu öruggrar tengingar.  Hvor sæstrengur um sig er talinn kosta minnst 1000 milljarða, og það þýðir að virkjanirnar þurfa að vera miklu fleiri en vegna eins sæstrengs.  Fjárfestar í vindorkuverum veðja að sjálfsögðu á þriðja orkupakkann og sæstrengi og eiga eftir að þrýsta enn meira á þegar vindorkugarðaæðið verður komið á fulla ferð. 

12. Friðrik Árni Friðriksson Hirst segir í viðtali á mbl.is að "stjórnskipuleg óvissa" fylgir þeim fyrirvörum, sem gerðir eru í tillögunni á Alþingi um orkupakka þrjú. Ef hins vegar hefði verið kveðið á þetta í afgreiðslu sameiginlegu nefndar EES 2017, eða það gert núna, hefði þessi stjórnskipulega óvissa verið mun minni. 

 

Af ofangreindum vegvísum voru þeir númer 3 og 4 ekki í blaðagreininni. Skiptir kannski ekki höfðumáli, og ekki heldur þótt fleiri hefðu verið nefndir; þeir eru of margir, vísa of margir í sömu átt og þeir eru of eindregnir til þess að hægt sé að yppta öxlum og láta sem ekkert sé. 


mbl.is Gæti aukið álagið á náttúruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta líka múslimum að kenna?

Ástralskur þingmaður hélt því fram eftir hryðjuverkin í Christchurch á Nýja-Sjálandi, að fórnarmlömbin hefðu getað sjálfum sér um kennt, af því þau hefðu verið múslimar og að alls staðar þar sem múslimar væru að iðka sína hræðilegu trú, væri viðbúið og rökrétt að friðsamt kristið fólk gripi til sinna ráða. 

Hér heima mátti sjá þá greiningu, að almennt séð væri rökrétt að hryðjuverk færu í vöxt, því að Múslimatrú fylgdu alls staðar hryðjuverk. 

Væntanlega má þá skilgreina nýjustu árásina í Kaliforníu á hliðstæðan hátt, þótt ódæðismanninum misstækist ætlun sín að því leyti, að geta hvorki drepið neinn alveg, né heldur að neinn hinna seku væru múslimar. En hann útskýrði verknaðinn með því að hann hefði haldið að fólkið væri múslimar. 

Kenningin um allsherjar sekt allra múslima innifelur að sjálfsögðu hin hrikalegu hryðjuverk á Shri Lanka, þar sem múslimasamtök hafa lýst ódæðunum á hendur sér. 

Þau sögðust vera að hefna fyrir ódæðin á Nýja-Sjálandi, og þar með lokast pottþéttur hringurinn í kenningunni um að múslimar eigi sök á hryðjuverkaöldu nútímans. 

Síðuhafi leyfir sér samt að vera hugsi yfir þessari kenningu. 


mbl.is Taldi fórnarlömbin vera múslíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband