Hver væri samanlagður árafjöldi kvala fólksins? Ekki kveljast bílarnir.

Liðskiptaaðgerðir eru tæknilega orðnar líkar viðgerðum á tækjum og bílum. Munurinn er þó aðallega sá hve lengi þarf að bíða eftir viðgerðum á fólki, gagnstætt því sem er um bílana. 

Munurinn er ekki eins mikill hvað snertir kostnað þegar vel er að gætt. Eða hvað kostar ekki að gera víð dýra bíla til dæmis eftir árekstra og óhöpp sem tryggingafélög bílanna borga?

Það er því sérkennilegt hvað biðlistarnir eru lengri hjá fólkinu, sem kvelst, því ekki kveljast bílarnir ef þeir verða að bíða. 

Önnur útskýring er hve erfitt er að fá færa lækna til þess að annast viðgerðirnar á fólkinu. 

En hún er ekki einhlít. 

Vitað er um tilfelli þar sem dýrir rafbílar skemmdust mikið, og viðgerð kostaði hátt í tvær milljónir á bíl. 

Þetta er alveg ný og vandasöm tækni, en málin voru leyst. 

Margir kveljast á biðlistunum í meira en ár og yrði fróðlegt að leggja saman hve mörg þau ár eru orðin hjá öllum þessum fjölda. Vafalaust einhverjar þúsundir ára. 

Fólk, sem er illa haldið, á margt hvert heima í blokkum þar sem svona bæklunarástand jafngildir því að vera meira og minna í stofufangelsi.

Síðuhafi fékk þann úrskurð fyrir 14 árum, að hann ætti að fara fram á liðskiptaaðgerð á uppslitnum hnjám. 

Á meðan hnén væru svona léleg væri bannað að hlaupa, sagði læknirinn. 

Síðuhafi ákvað að harka af sér og virða hlaupabannið. 

En hann nýtti sér það að læknirinn bannaði ekki að læðast hratt og hélt því áfram hlaupa upp stiga í háum húsum í kapphlaupi við skeiðklukku eins og hann hafði gert sér til heilsubótar síðan hann var átján ára og gerir enn. 

Í slíku hlaupi verða hnjáliðirnir ekki fyrir neinum höggum eins og þeir gera þegar hlaupið er á jafnsléttu, að ekki sé talað um að fara niður brekku. Þetta er klifur, ekki hlaup. 

Fyrir fjórum árum voru hnén ansi léleg, en þá skolaði rafreiðhjólinu Náttfara til mín, þar sem hægt var að hjóla með fótaafli að vild, ekki of mikið, en alltaf eitthvað. 

Brá þá svo við að hnén fóru að skána. 

Læknirinn sem bannaði hlaupin 2005 skoðaði hnén aftur í fyrra og sagði útskýringuna vera þá, að allar styrkingarhreyfingar sem hæfileg og rétt áreynsla byggðust á, styrktu hnén og héldu þannig í horfinu. 

Sjálfur bjó ég í hálfkæringi til ráðleggingu handa þeim, sem finnst verkur í hnjám vera allt að því óbærilegur með því að nota nýyrði um verki í hnjám: 

"Segðu bara upphátt við sjálfan þig: Ég er sárhnjáður - og þá ferður að brosa og gleymir verknum."  

 

 


mbl.is Gamli verkurinn loks farinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanlega gleymist arðbærasta nýframkvæmdin.

Þegar reiknað er út hvaða vegaframkvæmdir séu arðbærastar hér á landi, er ekki víst að það sé nóg að setja níu á lista. 

Það skyldi þó ekki vera að hina tíundu vanti, styttingu þjóðvegar númer eitt um 14 kílómetra í Austur-Húnavatnssýslu í gegnum land Blönduósbæjar, svonefnda Húnavallaleið. 

Hún myndi þýða lækkun á meðalkostnaði vegna aksturs um Hringveginn á þessum stað um 2800 krónur á hvern bíl, sem fer þar fram og til baka. (Samkvæmt taxta um akstur opinberra starfsmanna á eigin bíl og útreikningum FÍB).  

Hin nýja leið myndi eftir sem áður liggja þannig um land Blönduósbæjar, að hægt yrði að setja upp þjónustufyrirtæki fyrir vegfarendur við ný vegamót hjá Fagranesi í Langadal innan vébanda þessa sveitarfélags. 

Eftir sem áður myndi stysta leiðin til Sauðárkróks liggja um ystu Blöndubrú og Þverárfjall og Blönduósbær yrði áfram meginmiðstöð þjónustu og samgangna í Austur-Húnavatnssýslu. 

Rétt eins og að með gerð nýrrar brúar og vegstyttingar yfir Ytri-Rangá á Hellu á sínum tíma færðist þjónustan einfaldlega að nýju brúnni. 

Með nýrri brú á Hellu styttist leiðin og það þurfti ekki lengur að krækja krókaleið í gegnum þávernandi þorp heldur varð leiðin öruggari, greiðari og styttri við ný þjónustufyrirtæki.

Á nýrri leið gegnum land Blönduósbæjar þyrfti ekki lengur að fara Hringveginn gömlu leiðina um alþekkt illviðrasvæði í utanverðum Langadal. 


mbl.is Arðbærast að flýta Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umfang verkefna fer ekki beint eftir mannfjölda.

Eðli máls samkvæmt fer verkefnafjöldi kjörinna fulltrúa kjósenda ekki beint eftir fjölda kjósendanna. 

Það er því ekki hægt að fullyrða að fjöldi þingmanna eða sveitarstjórnarfulltrúa eigi að fara eftir stærð landa eða kjördæma.

Þannig berast jafnmargar reglugerðir og tilskipanir ESB til þjóðþinganna í aðildarlöndunum og til EES landanna, og því engan veginn sanngjarnt að krefjast þess að Íslendingar komist af með 230 sinnum færri þingmenn en Þjóðverjar, af því að íbúar Íslands eru 230 sinnum færri en íbúar Þýskalands. 

Væri þess krafist að fjöldi þingmanna væri í samræmi við fjölda kjósenda ættu þrír þingmenn að nægja Íslendingum! 

Víða um land kvarta fulltrúar í sveitarstjórnum yfir miklum málafjölda og verkefnum og það hefur víða gert erfitt um vik að fá fólk til þessara starfa.  

Tveir þingmenn flokks á Alþingi á augljóslega erfiðara með að fylgjast með öllum þingmálum en átta sinnum stærri þingflokkkur. 


mbl.is Tveir þingmenn – þrír aðstoðarmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband