Nýjar og þó gamlar upplýsingar: Frá byrjun minnst tveir sæstrengir.

Nú kemur það upp úr dúrnum, að það yrði ekki aðeins vegna "afhendingaröryggis" sem leggja þyrfti tvo sæstrengi til Íslands, heldur kom það strax fram fyrir aldarfjórðungi að sæstrengirnir yrðu að vera tveir af öðrum orsökum. 

Það var nefnilega í tíð Sighvats Björgvinssonar sem iðnaðarráðherra í stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1994 undir forsæti Davíðs Oddssonar sem sæstrengsmálið kom fyrst upp.

Sighvatur átti ásamt þáverandi orkumálastjóra Þorkatli Helgasyni viðræður við Breta um málið, og kom þá í ljós, að af tæknilegum og öryggislegum ástæðum yrðu strengirnir að vera tveir og samliggjandi. 

Það yrði nauðsynlegt vegna segulsviðsins, sem svona strengur skapar, og getur meðal annars valdið truflunum i öðrum lögnum í sjó. 

Tveir samliggjandi strengir myndu upphefja segulsviðið hjá hvor öðrum og slíkt fyrirkomulag væri skilyrði fyrir raforkuflutninga í því mikla mæli, sem fyrirhugaðir væru.

Þetta snertir tæknisviðið, en það er síðan hluti af afhendingarörygginu að rafmagnsflutningarnir fari fram nógu langt frá hvor öðrum, eru strengirnir orðnir fjórir alls.  

Þegar þetta lá fyrir, töldu talsmenn Íslendinga á þessum tíma sjálfhætt af hálfu Íslendinga í sæstrengsmálum og var málið þar með úr sögunni þá. 

Koma nú í huga síðuhafa ummæli úr Gísla sögu Súrssonar, þegar þessu atriði er bætt við tveggja sæstrengja rökin, sem nefnd eru í næsta bloggpistli á undan þessum. 

Orðin í Gísla sögu voru sögð úti í Hergilsey, þar sem Gísli hafði platað eftirleitarmenn sína með því að fara í klæði svonefnds Ingjaldsfífls. 

Þannig slapp hann í bát í fylgd ambáttarinnar Bóthildar frá eftirleitarmönnunum, en það var skammgóður vermir, því að þegar fjandmenn Gísla komu í land í eynni, gengu þeir fram á Ingjaldsfíflið, sem var í lautu að bíta "gras. Þá hrutu þessi orð af vörum leitarforingjans ef rétt er munað hjá mér:

"Bæði er nú að mikið er sagt frá fíflinu Ingjalds og deilist það nú víðar en við hugðum."

Já, bæði er nú að mikið er talað um sæstrenginn ráðamanna og deilist hann nú víðar en við hugðum. 

 

 

 

 

 

     


mbl.is Engin ólga í flokknum vegna orkupakkans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur verður lagður."

Í upphafi skyldi endinn skoða, segir máltækið.  Orðin í fyrirsögn bloggpistilsins mælti forstjóri Landsvirkjunar á ársfundi hennar fyrir nokkrum árum, án þess að svo virtist sem fjölmiðlar tækju eftir því. 

Var þó búið að nefna þetta áður, en ekki alveg svona skýrt og skorinort. 

Hann nefndi sæstreng í eintölu, en hefði einnig getað nefnt það að engin þjóð í norðanverðri Evrópu setur öll eggin í sömu körfuna í þeim efnum, heldur eru strengir yfir til annarra þjóða að minnsta kosti tveir ef hafa á svonefnt "afhendingaröryggi" í heiðri. 

Eðli málsins samkvæmt er það misjafnt hvort strengirnir eru jarðstrengir, sæstrengir eða blanda af hvoru tveggja; afhendingaröryggið verður að hafa forgang. 

Það lítur hins vegar skár út að nefna aðeins einn streng, vegna þess hve dýr hann yrði hátt í þúsund milljarða, en það kallar á stórfelldar virkjanaframkvæmdir ef framtakið í heild á að borga sig. 

Túrbínutrixið, að fjárfesta svo mikið í upphafi, að ekki verði aftur snúið, heldur verði að leggja út í miklu meira, blasir við í þessu efni. 

Þeir, sem kunna að malda í móinn þegar strengur númer tvö verður settur á dagskrá, verða sakaðir um að vilja öryggisleysi í þessum efnum og eyðileggja möguleikana á tryggu raforkukerfi landsins. 

Svona til upprifjunar, var túrbínutrixið fyrst notað 1970, þegar stjórn Laxárvirkjunar lét strax panta túrbínur í margfalda stækkun virkjunarinnar án þess að hafa samið við landeigendur eða gengið til fulls frá smíði virkjunarinarinnar og drekkingu Laxárdals, og fyrir hendi lá stórkarlaleg áætlun um að veita hinu auruga Skjálfandafljóti yfir í Kráká og þaðan niður í Laxá og neðsta hluta Mývatns. 

Þegar Mývetningar andmæltu þessum áformum voru þeir sakaðir um að valda Laxárvirkjun tjóni vegna þess kostnaðar sem þegar væri búið að leggja í vegna virkjunarinnar og gerðar Gljúfurversvirkjunar. 

Trixið var aftur notað þegar búið var að eyða milljörðum í undirbúnin Fljótsdalsvirkjunar í lok síðustu aldar, en síðan var látið koma í ljós að álver í Reyðarfirði myndi ekki bera sig nema það yrði þrefalt stærra og fengi orku frá margfalt stærri Kárahnjúkavirkjun með margfalt verri og neikvaðari umhverfisspjöllum. 

Og síðan notað þegar hafnar voru álversframkvæmdir í Helguvík og stefnt að álveri á Bakka við Húsavík. 

Sturla Böðvarsson, sem nú vill að endirinn sé í upphafi skoðaður, var Alþingismaður á þessum árum og kannast vafalaust vel við þetta allt. 

Hann nefnir, að Landsvirkjun sé enn við sama heygarðshornið og vitað er um handsal forsætisráðherra Íslands og Bretlands um sæstreng fyrir nokkrum árum og um undirbúningsráðstafanir öflugra fjárfesta um hann. 


mbl.is Óforsvaranlegt að samþykkja orkupakkann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðjað á gleymsku kjósenda og tvöföldun orkuframleiðslunnar.

Í skoðanakönnun um orkupakka þrjú eru þeir þrefalt fleiri aem eru mjög andvígir innleiðingu orkupakkans heldur þeir sem eru mjög fylgjandi. 

Þeir, sem ætla að keyra orkupakkann í gegn á Alþingi, ætla að láta ágjöf í bili ekki koma í veg fyrir það, því að þeir muni, eins og svo oft hefur gerst áður, beita svipuðum aðferðum og hafa oft verið notaðar áður með árangiri, að handvelja hentuga meðmælendur, á borð við þá, sem nú dúkka upp;  standa af sé óróa innan flokka og treysta á hefðbundna gleymsku kjósenda þegar kemur að því að það verði kosið og búið er að finna nógu mikið að smjörklípum til að taka athyglina. 

Þeir, sem ætla sér að hagnast á komandi virkjanaæði og tveimur sæstrengjum, vita vel, í hverju þeir eiga að fjárfesta.  Það sýna hundraða milljarða fjárfestingar þeirra í landareignum og virkjanaáformum um allt land. 

Þeir vita vel af þeirri stefnumörkun ráðamanna að tvöfalda orkuframleiðsluna á áratug.  

Nú þegar er jafnvel búið að kaupa upp jarðir, sem liggja á virkjanasvæðum vatnsfalla, sem eru í verndarflokki, því að það var létt verk á sínum tíma að aflétta friðun á Kringilsárrana eftir þörfum þegar Kárahnjúkavirkjun var gerð, og ekki þarf nema að náttúruverndarfólk þrýsti á að setja Skrokköldu í verndarflokk til þess að því er hótað að með því verði opnað Pandórubox. 

Og tveir ráðherrar á lýstu því yfir hér um árið, að friðanir yrðu að víkja fyrir virkjunum ef ráðamenn teldu þeirra þörf. 

 


mbl.is Helmingur andvígur orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband