Er í örvæntingu verið að reyna hið ómögulega?

Loftflæðisfræði, flugeðlisfræði, hreyfiaflsfræði, - þetta eru allt íslensk heiti á því sem er hinn raunverulegi grunnur ófaranna á Boeing MAX þotunum. 

MCAS-tölvukerfið er aðeins afleiðing af þeim breyttu flugeiginleikum þotnanna sem fylgdu því þegar aflmeiri og mun stærri hreyflar voru settir á þær til þess að stórauka sparneytni, drægni, lengd, þyngd og afkastagetu þeirra. 

Flugsagan geymir margar sögur af því hvernig flugeiginleikar véla geta verið erfiðir viðfangs. 

Og það þarf ekki stórar eða flóknar vélar til. Áður hefur verið minnst á flugvélina Cessna 162, sem Cessna verksmiðjurnar, hoknar af 80 ára reynslu í framleiðslu flugvéla, hönnuðu til þess að yfirtaka markaðinn fyrir litlar og hagkvæmar kennsluflugvélar. 

Áður höfðu þeir Cessna-menn hannað langvinsælustu kennsluflugvél allra tíma, Cessna 152, sem áður hafði verið með minni hreyfli undir heitinu Cessna l50, en upphaflega verið stélhjólsflugvél með tegundarheitið Cessna 140. 

Cessna 152 er tiltölulega þung flugvél miðað við ýmsar aðrar, tæplega 1200 pund tóm, en 1670 pund fullhlaðin. 

Þegar nýr flugvélaflokkur, LSA, Light Sport Airplane, kom til sögunnar með 1320 punda hámarksþyngd og mun einfaldari reglum og rekstrarkostnaði, tóku þær frumkvæðið af Cessna. 

Því var ákveðið að hanna vél, sem væri aðeins um 900 pund að þyngd og 1320 pund fullhlaðin. 

Miðað við þann mikla fjölda af mismunandi LSA-flugvélum, sem hafa reynst fullnægjandi, hefði mátt ætla að Cessna léki sér að því að gera enn betri kennsluvél en nokkur annars. 

Niðurstaðan varð Cessna 162. En Cessna hikaði við að nota hina léttu Rotax vatnskældu 100 hestafla hreyfla, notaðir voru í LSA-flokknum, og valdi í staðinn Continental 0-200 loftkælda hreyfla, sem hafa reynst afar vel í 60 ár, til dæmis í Cessna 150 á sínum tíma. 

En með svona þungum hreyfli í jafn léttri vél og Cessna 162 var, misheppnaðist ætlunarverkið algerlega. 

Reynsluflugmenn misstu einn af öðrum stjórn á vélinni, algerlega á skjön við hina góðu reynslu af gömlu 150 vélinni, og draumurinn um forna frægð og veldi í flugkennslunni fórst í hrapi hinna nýju véla. 

Cessna er að vísu örsmátt peð miðað við Boeing, en sláandi líkindi eru með óförum beggja þesara flugvélaframleiðenda. 

Það er skiljanlegt að Boeing tregðíst við að samþykkja aukalega þjálfun flugmanna fyrir MAX-þoturnar og jafnframt að vélin verði að fara í gegnum kostnaðarsama og tafsama tegundarviðurkenningu. 

Þetta og fleiri kostnaðaratriði vógu þungt í undanfærslum og launhyggju sem hugsanlega á eftir að reynast verksmiðjunum dýrkeypt.  


mbl.is Þrýstu á breytingar síðasta haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstætt ívilnunarákvæði í samningi Alcoa á Íslandi við íslenska ríkið.

Fljótsdalsvirkjun hefur verið starfrækt á einstæðum sérkjörum allt frá byrjun fyrir rúmum áratug sem hefur tryggt Alcoa þau fríðindi að þurfa ekki að borga neinn tekjuskatt, þrátt fyrir að álverið í Reyðarfirði njóti fáránlega lágs orkuverðs. 

Yfir raforkuverðinu hefur ríkt niðurnjörvuð leynd með þeim rökum, að um mikilsvert viðskiptaleyndarmál sé að ræða fyrir Landsvirkjun. Ætli það sé ekki líklegra að leyndin sé viðhöfð til að breiða yfir hvernig í pottinn er búið hvað Alcoa varðar. 

Var þó í upphafi og einnig nú nokkuð auðvelt fyrir glögga menn að nota þríliðureikning til að finna einingarverðið út þegar þeir höfðu nokkurn veginn magn hins selda og sölutekjur Landsvirkjunar í höndunum. 

Á fundi um málefni álversins í upphafi upplýsti Sveinn Aðalsteinsson viðskiptafræðingur um útreikninga sína, og brást einn af helstu varðhundum stóriðjustefnunnar ókvæða við og réðist að Sveini á þann hátt að góðgjarnir menn gengu á milli og komu í veg fyrir frekari vandræði. 

Fyrrnefnt ákvæði í samningum um Fjarðarál skuldbindur íslenska ríkið til að setja ekki þak á þá skuldarupphæð, sem Alcoa má hafa í bókhaldsbrellum sínum varðandi skuld félagsins við móðurfélagið. 

Það er í raun hneyksli að með samingum Alcoa við íslenska ríkið skyldu hendur Alþingis vera bundnar 40 ár fram í tímann varðandi stjórnarskrárbundið lagasetningarvald Alþingis. 

En launungin mikla minnir á það þegar Landsnet upplýsti um það að lagt hefði verið í kostnað við að láta gera dýrt mat á mismun kostnaðar við að leggja rafstrengi í jörð og þess að leggja rafstrengi í línu á möstrum og væri jarðstrengur svo margfalt dýrari, að hann kæmi ekki til greina. 

Þegar andófsfólk gegn nýrri Blöndulínu krafðist þess í krafti upplýsingalaga að fá að sjá þetta kostnaðarmat kom það svar, að gögnin væru öll týnd! Og Landsnet fékk að komast upp með þetta.  

Skattfrjáls gróði Alcoa á Íslandi hefur numið að minnsta kosti á annan tug milljarða á hverju ári, og 143 milljarðarnir, sem nú er tilkynnt um að móðurfélagið muni auka eigið fé dótturfélagsins um, gefa til kynna að Alcoa hafi að minnsta kosti samtals grætt hátt á annað hundrað milljarða króna á starfseminni á Íslandi á þeim árum, sem liðin eru síðan álverið hóf starfsemi. 

Einnig má ætla, að Alcoa sé í raun búið að greiða byggingarkostnað álversins upp á sama tíma sem Landsvirkjun verður enn og áfram að borga af skuldum sínum vegna Kárahnjúkavirkjunar. 

Er það furða þótt því sé enn staðfastlega haldið fram að standa verði vörð um launung gagnvart raunverulegum eigendum Landsvirkjunar varðandi sölusamninga á auðæfum, sem eru eign þjóðarinnar?

 

 


mbl.is Skuldléttara Alcoa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raddir hrópenda í eyðimörk þingsalar.

"Það var enginn að fylgjast með þegar ég flutti ræðuna mína, sem ég var búin að undirbúa í dágóðan tíma," segir Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður.  

Fyrir nokkrum dögum kom einn ráðherranna af fjöllum þegar hann átti að svara fyrirspurn, sem þingmaður hafði beint til hans úr ræðustóli. Ráðherrann hafði þó verið í sæti sínu en hafði sökkt sér svo mjög niður í verkefni á snjallsímanum að það virtist vera ígildi þess að vera með eyrnatappa. 

Frétt af þessu á vefmiðli fylgdi, að iðulega virtust ráðherrar hegða sér svona. 

Venjulegt fólk, sem sér beina útsendingu frá Alþingi, á erfitt með að skilja hvers vegna raddir hrópenda hljóma iðulega í eyðimörk þingsalarins eða að viðstöddum þingmönnum, sem telja má á fingrum annarrar handar. 

Það hlýtur að vera eitthvað að. Eru þingfundir of margir og of langir? Væri betra að hafa þá færri og þá með fleiri viðstöddum? 

Í starfi stjórnlagaráðs voru haldnir fundir ráðsins og sýndir í beinni útsendingu, sem samsvöruðu fundum Alþingis, og var þess vandlega gætt að hafa skipulagið þannig, að allir fulltrúar væru á þeim fundum, þar sem ráðið allt væri í salnum. 

Starf ráðsins stóð í þrjá mánuði og það var viðburður ef ekki var nokkurn veginn full mæting. 

Síðuhafi fékk frí einn dag frá fundi vegna þess að ef hann flaug ekki lítilli vél á svæði kringum Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll með sérstök íslensk mælitæki og mælingamenn, sem mældu öskumagn í lófti, hefði báðum flugvöllunum verið lokað vegna útreikninga og spár stórrar tölvu í London varðandi flug yfir Evrópu og Norður-Atlantshafi! 

Ef ekki hefði gosið í Grímsvötnum, hefði síðuhafi aldrei þurft að fara fram á leyfi til að vera fjarverandi í öskumælingaflugi.   


mbl.is „Það var bömmer“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband