Sagan endalausa?

Fyrir nokkrum áratugum gerði síðuhafi sjónvarpsþátt sem bar heitið "Til umhugsunar í óbyggðum" og var ferðast með Guðmundi Jónassyni um Fjallabaksleið nyrðri og nágrenni hans auk ferðar í Þórsmörk. 

Óheyrilegur sóðaskapur blasti alls staðar við auk landsskemmda vegna utanvegaaksturs, en einnig var fjallað um akstur yfir ár. 

Fyrir nokkrum árum var síðan gerður nýr þáttur undir heitinu "Akstur í óbyggðum" þar sem viðfangsefnið var tekið út frá mun víðara sjónarhorni og farið um allt land, allt frá Snæfellsnesi austur á Brúaröræfi og veginn til Laka, en nokkur myndskeið rifjuð upp úr myndinni með Guðmundi. 

Slæm umgengni varðandi rusl og óþverra var ekki eins áberandi nú og fyrir um 40 árum. 

Það breytir því ekki hins vegar sífellt koma upp ný og ný mál, þar sem er "skítalykt af málinu." 

Meðal þeirra mála, sem urðu tilefni vettvangsferða fyrir sjónvarpsfréttir, voru tvö, annað við Strútslaug við Syðri-Fjallabaksleið og hitt við sunnanverða Lakagíga, þar sem riðið var á hundrað hestum og viðkvæm svæði, meira að segja merkt með bannmerkjum við Lakagíga, og reiðleiðin útspörkuð af hestunum. 

Við Strútslaug var allur pakkinn, matarleifar, rusl, spark, mannaskítur og meira að segja klósettpappír við laugina. 

Þátttakandi í þessari ferð, sem náð var símasambandi við, reif kjaft og sagði löglegt frá landnámi að ríða hestum hvar sem væri um landið, og að í næsta Kötlugosi myndi askan þaðan hvort eð er þekja spjöllin.  

Stjórnandi hestasparksins og spjallanna við Lakagíga virtist alveg sleppa við það að taka ábyrgð á sínu verki, kannski vegna þess að vera hagvanur og með sambönd í næstu byggð. 

Hvað snertir fyrirbærið að spara sér sporin má nefna umfjallanir hér á síðunni þar sem sýnt var á myndum hvernig bílum var lagt ólöglega svo að það hamlaði umferð, bara til að spara sér örfá spor, allt niður í tvo metra. 

Og einum bílstjóranum virtist vera svo mikið í mun að stytta gönguleið sína um fimm metra, að hann lagði bílnum á akbrautinni, þótt það væri nokkrum metra styttra fyrir hann að labba frá auðu bílastæði, sem hann gat notað!

 

 


mbl.is Mannaskítur og matarleifar í fjallaskála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en 3 milljónir gesta árlega á vegum fyrir 0,2 milljónir.

Stór hluti íslenska vegakerfisins var lagður þegar þjóðin var 200 þúsund manns og ferðamenn víðast fáir. 

Á síðustu árum hafa fimmtán sinnum fleiri erlendir ferðamenn en nemur stærð þjóðarinnar þeyst um vegina á stórum rútum sem draga á eftir sér vindhviður við mætingar. 

Athygli vekur að farþegar skuli kastast út úr rútu sem veltur og af hljótast alvarleg meiðsl við að verða undir rútunni. 

 

 


mbl.is Mætti tveimur stórum bílum fyrir slysið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða lag "situr eftir" og maður "fær á heilann?"

Mannsheilinn er furðulegt fyrirbæri og hegðun hans getur oft komið sér illa, til dæmis þegar hann hagar sér eins og harður tölvudiskur, sem hendir hinu og þessu út alveg upp úr þurru, án þess að neitt verði við ráðið, og eftir situr að maður man ekki eitthvað sem kemur sér afar illa að gleyma.  

Svipað er að segja þegar hið gagnstæða gerist að heilinn tekur einhver atriði út úr upp á sitt eindæmi og setur það í umferð í tíma og ótíma, en um þetta fyrirbrigði er til dæmis oft notað það orðalag, að maður fái eitthvert lag "á heilann", án þess að við neitt verði ráðið, svo að það jafnvel dúkkar upp á ólíklegustu augnablikum dögum saman. 

Í kvöld var það danska lagið, sem tók upp á þessu þegar verið var að grauta í minnisbókum og sýsla við 124 cc vespuvélhjólið Létti (Honda PCX). 

Ef danska lagið gerir þetta í stórum stíl við evrópska heila, gæti það kannski breytt einhverju. 

En síðan gætu það verið einhver önnur lög. Auðvitað. Mannsheilarnir eru furðulega ólík fyrirbæri oft á tíðum. 


mbl.is Lögin sem skipta máli í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband