Amerískt Guðmundar- og Geirfinnsmál.

Þótt hinir myrtu, sem við sögu komu í morðunum í Atlanta hér um árið væru margfalt fleiri en í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hér á landi, voru íslensku málin þó hlutfallslega fyrirferðarmeiri ef miðað er við smæð hins íslenska samfélags.

Það er ólíkt með málunum, að í Atlantamálunum voru lík og vettvangur morðanna oftast fyrir hendi, en hvorugu var fyrir að fara á Íslandi. 

Þótt Hæstiréttur hafi nú snúið sektardómunum 1980 við með sýknuúrskurði, er það þó sameiginlegt með þessum tveimur sakamálum, sitt hvorum megin Atlantsála, að þeim er ekki lokið. 

Nú á að setja Atlantamorðin aftur í rannsókn, og hið sama ætti að gilda í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á meðan Erla Bolladóttir fær ekki leiðréttingu sinna mála með afléttingu sektardómsins; afléttingu sem hún, ein sakborninga fær ekki. 

Það þarf að svipta hulunni til hlítar af framferði þeirra sem knúðu fram ákærur á hendur hinna sakfelldu með því að búa til þær óbærilegu aðstæður hjá þeim að það ætti að hreinsa þau öll af öll því sem þau voru sökuð um; já, þeirra á meðal Erla Bolladóttir. 

Stór og mjög mikilvægur hluti þessa máls hefur alls ekki verið rannsakaður sem skyldi. 

Í blaðaviðtali við Erlu Bolladóttur minnist hún á Suður-Afríku og hér á síðunni hefur áður verið minnt á þá aðferð sem beitt var í Suður-Afríku þar sem aðeins var hugsað um að hreinsa málin upp með því að upplýsa þau til hlítar, en hins vegar ekki með refsingar í huga. 

Sem sagt: Að við tökum Suður-Afríku á þetta. 


mbl.is Hver drap börnin í Atlanta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitarstjórnarkosningar hafa oft fellt flokka og forsætisráðherra.

Bæði íslensk og erlend stjórnmálasaga geymir mörg dæmi um það, að enda þótt sveitarstjórnarkosningar eigi að mestu að snúast um val á heppilegum stjórnendum einstakra sveitarstjórnarkjördæma, getur sterkur meginstraumur skilað afdrifaríkum áhrifum inn í landspólitíkina. 

Sem dæmi um þetta hér á landi má nefna kosningarnar 1958 og 2006. 

Í kosningunum 1958 galt Alþýðuflokkurinn þvílíkt afhroð í Reykjavík að líkja mátti við alger hrun. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hins vegar bestu útkomu sögu sinnar, 57 prósent atkvæða og 10 borgarfulltrúa. 

Sjallar voru í stjórnarandstöðu og ráku mjög harða og óvægna gagnrýni á Vinstri stjórnina, sem sat að völdum með Alþýðuflokkinn í samstarfi við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag. 

Stjórnendur Alþýðuflokksins urðu felmtri slegnir og það gerði auðveldara fyrir að leita að leið út úr klemmunni. 

Kosið hafði verið í janúar, en í desember sprakk stjórnin og ekki var frekar hægt að kenna krötum um það en hinum stjórnarflokkunum, því að bæði á sviði launþegasamtakanna og í stjórnarsamstarfinu var hver höndin upp á móti annarri. 

Sambönd Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands inn i sína gömlu flokka, Alþýðuflokk og Framsókn, auk tengsla hans við Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tengdason hans, Gunnar Thoroddsen borgarstjóra og Alþíngismann, gerðu honum kleift að standa á bak við tjöldin að myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins á grunni tvenns konar samkomulags; annars vegar um róttæka breytingu á kjördæmaskipaninni í samvinnu þriggja flokka gegn Framsókn, og hins vegar samvinnu Krata og Sjalla um bráðabirgða efnahagsaðgerðir, sem urðu undanfari farsælasta stjórnarsamstarfs í sögu fullveldisins fram að því í Viðreisnarstjórninni. 

Sveitarstjórnarkosningarnar 1958 mörkuðu þvi djúp spor í stjórnmálasögu landsins. 

Hitt dæmið um afleiðingar af sveitarstjórnarkosningum birtust í miklum ósigri Framsóknarflokksins í byggðakosningunum 2006, en það hratt af stað atburðarás, sem endaði með því að flokkurinn hrökklaðist úr stjórn 2007.  

Þá hafði flokkurinn verið samfellt í stjórn með Sjálfstæðisflokknum frá 1995 og fengið, í ljósi góðrar útkomu í Alþingiskosningunum 2003, að setjast í forsæti stjórnarinnar síðla árs 2004, þegar þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrimsson höfðu sætaskipti; Davíð varð utanríkisráðherra og Halldór forsætisráðherra. 

En í tíð Halldórs Ásgrímssonar sem forsætisráðherra, fór að fjara undan velgengni flokksins, og fylgistapið 2006 í sveitarstjórnarkosningunum virtist valda því, að hann fór að missa stjórn á atburðarás stjórnmálanna, en það er atriði, sem er afar nauðsynlegt að hafa í lagi hjá hverjum stjórnmálamanni. 

Ýmislegt bendir til þess að hann hafi farið á taugum og síðan misst móðinn þegar tímabundinn heilsubrestur bættist við annað, sem var mótdrægt. 

Halldór ákvað að taka sinn hluta ábyrgðar á ósigrinum með því að láta af formennsku Framsóknarflokksins, en missti gersamlega stjórn á atburðarásinni í kringum afsögnina, þannig að í flokknum ríkti ákveðin ringulreið fram að Alþingiskosningunum 2007, þegar flokkurinn tapaði svo miklu fylgi, að Sjálfstæðismenn ákváðu að leita á önnur mið um stjórnarsamstarf. 

Ofangreint er rakið hér sem dæmi hjá okkur Íslendingum, af því að þau hafa gerst á vettvangi sem við þekkjum vel, en eiga sér hliðstæður í stjórnmálasögu annarra landa. 

Það reyndist afdrifaríkt fyrir íslenska forsætisráðherra 1958 og 2006 að verða fyrir áföllum, missa tök á atburðarásinni í kjölfar sveitarstjórnarkosninga og hrökklast út úr pólitík fyrir bragðið. 

Nú er spurningin hvort eitthvað svipað vofi yfir breska forsætisráðherranum og flokki hennar.  


mbl.is Íhaldsmenn guldu afhroð í kosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stigaklifur", góð íþrótt, sem hægt er að stunda í þúsundum húsa.

Í ár eru liðin 60 ár síðan síðuhafi hóf að stunda íþrótt, sem hefur reynst ákaflega gefandi og skemmtilegt sport. Það þarf nefnilega ekki heilt fjall eins og Esjuna til þess að stunda hana, heldur einungis stiga í húsi upp á minnsta kosti þrjár hæðir. 

Þetta sport má nefna stigahlaup, og kallast þá að vísu hlaup, en er það ekki nema að hálfu leyti, því að þegar læknir bannaði síðuhafa að stunda hlaup fyrir 14 árum vegna uppslitinna hnjáa, átti hann við venjuleg hlaup á jafnsléttu þar sem líkaminn lendir í hverju skrefi af miklum þunga niður á fæturna í gegnum hnén og þessar þúsundir og allt upp í milljónir lendinga slíta hnjáliðunum upp. 

Auk þess fékk síðuhafi á tímabili svokallað "tábergssig" sem hefur líka fengið viðurnefnið "hlauparaveikin." 

Fætur frummannsins voru einfaldlega ekki skapaðir fyrir langvarandi hlaup á hörðu undirlagi.

"Tábergssigið" felst í því að vegna hinna milljóna lendinga í hverju hlauparaskrefi lendir allur líkaminn harkalega á iljunum, þannig að smám saman éta neðstu beinin sig í gegnum vefina í iljunum og þær verða svo helaumar, að maður haltrar. 

Verður að fara til sérfræðinga og láta mæla þetta svæði og fá sérsniðið innlegg til þess að lagfæra þetta. 

En lækninum, sem lagði upphaflega til að setja gerviliði í hnén hjá mér, sást yfir það, að í stigahlaupi þar sem teknar eru tvær tröppur eða fleiri í hverju skrefi, hverfa lendingarhöggin nær alveg, því að lóðrétti kompónentinn í skrefinu gerir ferilinn upp stigana að klifri frekar en hlaupi. 

Ég hafði lofað lækninum að hætta að hlaupa, en ég lofaði honum ekki að hætta að "læðast hratt", eins og ég hef stundum kallað stigaklifrið. 

Þegar ég var að taka þátt í að byggja og síðan að eiga heima í blokkinni á Austurbrún 2, fólst stigaklifrið í því að hlaupa við mælingu skeiðklukku frá neðstu hæð upp á 12. hæð, en í því felst færsla upp um 11 hæðir nettó. (12-1= 11 hæðir). 

Hraða lyftan og sú minni fór þetta á 30 sekúndum, en stóra lyftan á einni mínútu. 

Íþróttin byggðist á því að vera jafn fljótur upp og hraða lyftan og þetta reyndist afar góð æfing, því að hún reyndi á allt, flýti, snerpu, hraða og úthald. 

Á sextugsaldrinum var þetta stundað í 14. hæða blokkinni að Sólheimum 23, og nettó var hlaupið upp 13 hæðir. 

Nú hafði hraðinn minnkað með aldri og aukinni líkamsþyngd, þannig að tíminn upp 13 hæðir var 50 sekúndur. 

Útvarpshúsið var notað um árabil á sjötugsaldrinum og hlaupið frá 1. upp á 5. hæð (4 hæðir nettó) á innan við 30 sekúndum. 

Síðustu fimm ár áttræðisaldursins hefur stigaklifrið verið framkvæmt í nokkurra metra fjarlægð frá heimilinu í blokkaríbúð, og tíminn frá kjallara upp á fjórðu hæð, fjórar hæðir nettó, verið innan við 30 sekúndur öll þessi ár. 

Það er aðeins lakara en upp jafn margar hæðir í Útvarpshúsinu, því að þar er hærra undir loft á hverri hæð. 

Þetta klifur og hæfilegar hjólreiðar á rafreiðhjóli hefur styrkt hnén svo mjög, að það eru liðin 14 ár síðan sérfræðilæknir vildi að skipt yrði um báða hnjáliðina, en tekist hefur að seinka því í þessi 14 ár. 

Vegna umferðarslyss fyrir þremur árum voru teknar myndir, sem sýndu svo mikið slit á hnjánum, að mér var sagt, að eðlilegt væri að skipta um hnjáliðina og mér ráðlagt að láta sérfræðing líta á hnén. 

Þegar ég fór til sérfræðilæknisins að nýju eftir öll þessi ár í tékk, varð hann undrandi yfir því að ég skyldi enn hólkast um á þessum hnjám, en féllst á þá kenningu að stigaklifrið og hjólreiðarnar hefðu skapað furðu mikinn árangur. 

Hluti af því að hafa haldið klifurtímanum fyrir neðan 30 sekúndur síðustu árin felst í að fínslípa klifurtæknina og nota svipaða aðferð og í kappakstri, að draga úr hraðaminnkuninni í 180 gráðu beygjunum með því að hafa þær nógu víðar til þess að halda hraðanum. 

Þetta atriðið er nefnt "racing lines" á erlendu tæknimáli. 

Auk þess hefur nokkurra kílóa létting vafalaust hjálpað til. 

En það er rétt að ítreka að stigaklifur er sérlega góð æfing til að viðhalda breiðu þreki, flýti, snerpu, hraða og úthaldi og hægt er að stunda klifrið á þúsundum staða. 

Kannski mætti stofna samtök um þessa íþrótt, "Stigaklifurssamtök Íslands"?

 


mbl.is Crossfit-fólk tætti upp Esjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband