Hvílík dýrð! Hvílík dásemd!

Það var rykmistur austan við borgina í dag.

Sólarlag l4.6.19Bændur kvarta undan þurrkum. Sólarlag 14.6.19 (2)

Jörð skrælnar. 

Hætta á skógareldum í Skorradal. 

 

En það var undravert að vera á ferð á léttu vélhjóli í dag og að vera að stikna úr hita á 80 km hraða. 

Og sólarlagið sveik ekki né rómantíkin sem því fylgir á kvöldum fjólublárra drauma. 

22ja stiga hiti! Óskaplega mikið erlendis eins og hann Bo, frændi hennar Helgu myndi orða það. 


mbl.is Hiti náði 22 stigum í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beltið og axlaböndin enn og aftur.

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra, sem fyrstur byrjaði á því að tala um fyrirvara við 3. orkupakkan með því að líkja þeim við belti og axlabönd, og fékk sérfræðingana Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst til þess að lýsa lagaumhverfinu betur, lenti fljótlega í vandræðum með allt málið, sem enn sér ekki fyrir endann á. 

Þegar þáttarstjórnandi í Kastljósþætti nefndi mat matsmannanna á meðferð málsins í sameiginlegu EES nefndinni, snupraði ráðherrann þáttarstjórnandinn og sakaði hann um að hafa ekki lesið álitsgerðina. 

Þátturinn var á enda og enginn tími til að komast út úr þessari smjörklípuaðferð ráðherrans. 

En það var skammgóður vermir fyrir ráðherrann, því að fram að þessu hefur hann verið flæktur í beltið og axlaböndin og ummæli manna eins og Baudenbacher og Friðriks Árna um þau, sem æ fleiri sjá hvers eðlis þau eru. 

Það er ekkert athugavert við það að Íslendingar bæti úr vanrækslunni frá 2017 og taki málið upp í sameiginlegu nefndinni; við höfum fullan rétt til þess og brjótum engin ákvæði EES samningsins með því þótt Norðmenn vilji beita okkur eins konar ofbeldi í málinu í krafti þess að þeir séu 15 sinnum stærri þjóð en við og með 150 sinnum fleiri íbúa en íbúar Lichtenstein eru. 

Að þjóðarrétti eru allar aðildarþjóðirnar jafn réttháar og eiga rétt á að láta ganga úr skugga um það að axlaböndin séu ekki svo löng, að buxurnar náist ekki upp fyrir hné og að beltið sé ekki svo trosnað eða með of fá göt til að hald sé að því. 


mbl.is Skapar lagalega óvissu og áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn anginn af íslenskri umferðar(ó)menningu.

Ævinlega þegar komið er heim til Íslands úr ferð til útlanda fylgir því ákveðið sjokk við að upplifa breytinguna, sem því fylgir í umferðinni. Maður fær móral yfir því að vera þátttakandi í íslenskri umferðarmenningu. 

Í Barcelona, þar sem dvalið var í nokkra daga, blasti við hvernig hin gróna umferðarmenning sá til þess að  flókin og mjög mikil umferð þar gengi sem áfallalausast fyrir sig. 

Allir virtust á tánum varðandi það að leggja sig fram um aksturinn með hagsmuni allra fyrir augum og vera meðvitaðir um stöðu og gerðir allra allar stundir. 

Á leið eftir aðal umferðaæðinni inn í borgina úr norðaustri rann þétt blanda af bílum, vélhjólum, sem eru vespulaga mestanpart, reiðhjólum, bílum og gangandi fólki snurðulaust og hratt á þann hátt, að það var hægt að ímynda sér að ef tómir Íslendingar yrðu settir á einu andartaki til að stýra þessum farartækjum öllum, yrði fljót úr því stærsti fjöldaárekstur álfunnar. 

Á tímabili var næstum helmingur ökutækjanna í þessari þéttu umferð litlu vélhjólin, sem þutu vandræðalaust í gegnum langa og margfalda röð af hægfara bílum. 

Þennan morgun var ausandi rigning í borginni, en það hafði ekki minnstu áhrif á samsetningu umferðarinnar. 

Á sama tíma er búinn að vera margra vikna samfelld blíðutíð heima þar sem menn tala samt hver upp í annan um það að allir verði að fara um á stórum einkabíl vegna þess að veðurlagið hamli alveg notkun neins annars farartækis. 

Fjögurra ára reynsla síðuhafa af hjólanotkun hefur leitt í ljós, að hann var smám saman í gegnum tíðina búinn að mikla veðurlagið fyrir sér langt umfram raunveruleikann. 

Og nú eru starfsmenn í óða önn að rífa niður teinagirðingar af miðeyjum vega í Reykjavík. 

Og hvers vegna voru þær settar upp? 

Jú, vegna þess að annars var straumur fólks að ganga á ólöglegan hátt yfir þessar breiðu umferðargötur þvers og kruss með tilheyrandi truflunum og slysahættu. 

En hvers vegna er þá verið að taka girðingarnar niður núna? 

Jú, vegna þess að fólk kastast út úr bílum og bíður bana í umferðaróhöppum, af því að það notar ekki bílbelti, og þá eru teinagirðingarnar orðnar að drápstækjum. 

Umferðin í Barcelona og ótal öðrum borgum erlendis litast af því að menn líta ekki á sig sem einráða og eina á ferð, upptekna við eitthvað annað en aksturinn, eins og hefur verið lenska hjá okkur, heldur á þá staðreynd, að umferðin er spurningin um heildarútkomuna fyrir alla, að allir fylgist vel með öllum og virði þá meginreglu skynsamlegrar umferðar að haga ferðum sínum og gjörðum þannig að það geri umferðina í heild sem greiðasta og hættuminnsta. 

Það er langbest fyrir mann sjálfan. 

Eitt frumskilyrðið er að vanda ákvarðanir um staðsetningu og hraða og gefa stefnuljós sem auðvelda öðrum að haga sínum akstri á sama hátt. 

En hér á landi virðist þorri ökumanna líta á það sem hluta af friðhelgi einkalífs að þeir láti engan vita um fyrirætlanir sínar heldur þjóni geðþótta sínum og duttlungum. 

Þetta er svo smitandi hegðun, að þegar komið er heim á Frón eftir dvöl erlendis, fylgir því mórall yfir því að reyna ekki að bæta sig og hætta að verða samdauna þessu ástandi. 

Á mörgum stöðum í borginni gefur minnihluti ökumanna stefnuljós, og stór hluti þeirra sem gefa stefnuljós, drattast ekki til þess fyrr en það er orðið allt of seint og gagnast ekki neinum. 


mbl.is Teinagirðingarnar fjarlægðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skúrar hafa stundum gert gagn, jafnvel umdeilt.

"Vaðlaheiðarvegamannaverkfærageymsluskúr" var eitt sinn talið vera lengsta orðið í íslensku máli. 

Síðan hvarf sá skúr af sjónarsviðinu og hefur einhverjum hugsanlega þótt sjónarsviptir af honum. 

Árum saman stóð skúr við Háaleitisbraut skammt frá kirkjunni og verslunarhúsinu, sem þar eru, og var hægt að aka í kringum þann vinalega skúr og kaupa sjoppuvörur í gegnum bílalúgu, en líka hægt að ganga inn til að versla, ef síðuhafi mann rétt. 

Margir nýttu sér þennan verslunarmöguleika, og urðu ein viðskiptin fræg, þegar nokkur hundruð króna viðskipti með kreditkorti rötuðu inn í bókhaldið, sem komst í hámæli vegna Baugsmálsins svonefnda. 

Margir söknuðu þessa skúrs þegar hann hvarf af sjónarsviðinu.

Gaman væri ef einhver safnaða saman sögum af skúrum héðan og þaðan af landinu og birtu þær jafnvel í bók, sem gæti fengið heitið "Skúraleiðingar." 

Og það mætti hugsa sér að hluti af svona bók yrði í ljóðaformi. 

 

Forðum var stundum ágætt að aka

með aurana´í stöflum

og skríða hjá lúgum; við skiptimynt taka

í skúrum með köflum.  

 


mbl.is Skarð fyrir skildi eftir að skúrinn fór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband