60 kílóvattstunda rafbílum fjölgar. Sumar auglýsingar rugla fólk

Opel Ampera-e sem einnig er framleiddur undir heitinu Chevrolet Bolt er með 60 kílóvattstunda rafhlöðu, en til samanburðar má nefna að rafhlaða fyrstu gerðarinnar af Nissan Leaf var með aðeins 24 kílóvattstunda rafhlöðu. 

Sá bíll var með uppgefið drægi hátt á annað hundrað kílómetra, en við íslenskar aðstæður og kulda gat stundum þurft að skipuleggja aksturinn vel til að komast rúmlega 100 kílómetra á öruggan hátt. 

Miðað við það ætti 60 kílóvattstunda rafbílum á borð við Opel Ampera, Nissan Leaf og þeim gerðum Kia og Hyundai, sem eru með allt að 64 kílóvattstunda rafhlöður  að vera hægt að aka allt að 300 kílómetra á hleðslunni, sem þýðir, að það þurfi ekki að stansa nema einu sinni á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. 

Síðuhafi hefur orðið var við að misskilningur myndist hjá fólki varðandi hybrid-bíla, sem eru auglýstir þannig, að þeir séu "sjálfhlaðandi" og þurfi því aldrei og sé raunar ekki mögulegt að kaupa á þá rafhleðslu. 

Margir álykta sem svo að hybrid bílarnir, tvinnbílarnir, hafi augljósa yfirburði yfir hreina rafbíla úr því að aldrei þurfi að kaupa á hybrid bílana raforku. 

Aldrei þurfi að borga fyrir raforku til að knýja hybrid bíl, eða tengja bílinn við rafhleðslubúnað úr því að raforkan verði sjálkrafa til í honum. 

Verða sumir væntanlegir kaupendur hissa þegar þeim er sagt, að eina utanaðkomandi orkan, sem þeir eigi eftir að þurfa að kaupa til að knýja nýja bílinn áfram, sé gamla góða bensínið.

Í framhalds umræðunni kemur það fram að helming tímans sem hybrid bílnum sé ekið, gangi hann fyrir sjálhleðslurafmagninu, en hinn helming tímans sé bensínvélin að störfum. 

Þarna væri nær að athuga hve miklu magni bílarnir eyði af bensíni miðað við ekna vegalengd, eina orkugjafanum, sem bíleigandinn verður að kaupa og getur keypt.

Því að enginn bíleigandi borgar beint fyrir orkugjafa eftir tímalengd. 

Þegar hybrid bíl er til dæmis ekið niður brekku, er auðvelt að láta rafmótorinn malla og jafnvel endurvinna orku, sem bensínvélin hafði orðið að búa til á leiðinni upp í þá hæð, sem brekkan hófst í.  

En ef skoðaðar eru eyðslutölur kemur í ljós, þegar flett er upplýsingum um bensíneyðslu, að með því að kaupa ákveðinn bíl af hybrid gerð í stað venjulegs bíls með sömu bensínvél, er eyðslusparnaðurinn í besta falli fjórðungur hjá hybrid bílnum en ekki helmingur. 

Og þegar ekið er á miklum hraða eftir hraðbraut neyðist ökumaður hybrid bíls til þess að láta bensínvélina hafa að mestu leyti eina fyrir öllu erfiðinu sem mikil loftmótstaða og núningsmótstaða veldur. 

Upplýsingar um bensíneyðslu tengiltvinnbíla eru miðaðar við formúlu, þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum hlutföllum á milli langaksturs og stutts aksturs. 

Fræðilega séð er nefnilega hægt að aka tengiltvinnbílum þannig að eingöngu sé notað rafmagn, svo framarlega sem bílnum sé ekki ekið nema 20-30 kílómetra á milli hleðslna. 

En í formúlunni er gert ráð fyrir ákveðinni blöndu af langakstri og borgarsnatti og verður útkoman þá í kringum 2 lítra á hundraðið af bensíni, sem er langtum minna en nokkur "sjálfhlaðandi" tvinnbíll getur náð í sparneytni. 

 

 


Minnir á fyrri bardaga Lennox Lewis og Hasim Rachman.

Síðuhafi hefur nú fengið tækifæri til að sjá allan bardaga Anthony Joshua og Andy Ruiz, en ef reyna á að meta bardaga, er ekki nóg að sjá bara "bestu sýnishornin" ("highligts"). 

Með því að skoða til dæmis andardrátt keppenda í einnar mínútna hvíldartímanum á milli lotanna, má reyna að ráða í hvort þeir séu komnir í gírinn, ef svo má segja, það er, búnir að komast í góðan bardagaham. 

Sumir þekktir hnefaleikarar eins og til dæmis Joe Frazier eru oft seinir af stað og fara ekki að njóta sín fyrr en eftir nokkrar lotur. 

Sumir, eins og George Foreman á fyrri hluta ferils sína, kunna ekki þá list að stýra álaginu þannig að þeir komist hjá því að missa þrekið, en það gerist oft vegna þess að þeir eru of æstir og ekki í góðu jafnvægi. 

Þekkt fyrirbæri er það að bardagamaður komist út úr andnauð eða þreytu með því að fá fyrirbærið "second wind", að geta sótt í sig veðrið eftir að hafa verið að örmagnast. 

Allt þetta sést í bardaganum milli Joshua og Ruiz jr. Joshua er móður og með opinn munn í horninu, strax eftir fyrstu lotu. 

Ruiz virðist hins vegar ekki blása úr nös, enda hefur hann á listilegan hátt "skorið hringinn" eins og það er kallað, passað sig að standa í miðjunni og pressa á Joshua, sem neyðist til að vera að mestu leyti á flótta og vera þar með með tvöfalt til þrefalt meiri yfirferð en Ruiz. 

Það kostar orku hjá tveggja metra háu vöðvafjalli, sem greinilega á í vandræðum með orku og úthald strax frá byrjun. 

Þannig var það hjá Lennox Lewis í fyrri bardaga hans við Hasim Rachman. Bæði Lewis og Joshua virka hægari en þeim er eðlilegt í góðu formi, þeir slá færri högg og stungurnar eru ekki nógu skarpar og beittar. 

Lewi hafði stolist lítillega úr æfingaferlinu til þess að taka smá þátt í Hollywood kvikmyndm, og það hefndi sín heldur betur. 

Tyson gerði svipað á móti Buster Douglas og ljúfa lífið slævði líka bæði Jack Dempsey og Jack Johnson. 

Ruiz er reyndar ekkert "lítill" feitur strákur, heldur 1,88 m á hæð og með 1,88 m faðmbreidd. 

Hann virðist hins vegar lítill miðað við hinn ríflega tveggja metra háa Joshua og með sín tvö "Michelin fitu-varadekk" um skrokkinn virkar hann næstum eins afkáralegur og "fríkið" Eric Butterbean á sínum tíma, en Butterbean hafði tvennt, sem reyndist furðu drjúgt; hann var þunghöggur og fituskvapið gerði andstæðingunum erfitt að nýta skrokkhögg. 

Joshua gerir þau mistök að hleypa Ruiz hvað eftir annað of nálægt sér og komast með því í návígi, sem er hans sterkasta hlið. 

Þegar eitt návígið gefur Joshua færi á að slá Ruiz niður í þriðju lotu, halda bæði hann og áhorfendur að nú sé eftirleikurinn auðveldur fyrir hann að ganga frá hinum vinalega og barnslega brosandi skvapkarli. 

En hér er ekki allt sem sýnist, því að með því að fylgja sókninni eftir er greinilegt að Joshua ætlar sér um of, eyðir of mikilli orku sem dregur úr höggkraftinum og sprengir sig. 

Afdrifaríkt vanmat á Ruiz sem býr yfir nægri orku, bæði til að verjast slá gagnhögg. 

Bardaginn snýst við; það er Ruiz sem nú getur slegið Joshua niður. 

Í sjöundu lotu kemur þrekleysi Joshua berlega í ljós, og fætur og hendur hans hlýða honum ekki lengur þótt hann reyni að blekkja dómarinn, sem gefur sér góðan tíma til að afhjúpa hið óhjákvæmilega: Heimsmeistarinn á engan möguleika á að sækja í sig veðrið með "second wind" gegn sprellfjörgum Ruiz. 

Þarna kemur fram munur á þessum bardaga og bardaganum þar sem Joshua vann Vladimir Klitscko eftir að hafa staðið tæpt í nokkrum lotum í miðjum bardaganum vegna skorts á úthaldi. 

Í þeim bardaga kom þrekið til baka og hinn 37 ára gamli Klitscko hafði ekkert svar. 

Fyrstu viðbrögð síðuhafa við úrslitunum í Madison Square Garden voru sjokk og gríðarleg vonbrigði yfir bardaga, sem hefði verið skandall fyrir hnefaleikana, svo afspyrnu góður sem Joshua væri. 

En eftir að hafa skoðað bardagann allan kemur í ljós gamalkunnug dramatík þar sem annar keppandinn nýtir sér til fulls veikleika hins "ósigrandi" heimsmeistara með 22 unna bardaga, ekkert tap, og 21 rothögg. 

Nefna má fyrsta bardaga Joe Frazier og Muhammad Ali sem dæmi um vanmat af svipuðu tagi og Joshua sýndi varðandi Ruiz. Frazier var á tindi getu sinnar, en eftir góðar upphafslotur skorti Ali úthald og vörn gegn hinum óstöðvandi "smoking" Joe. 

Í næstu tveimur bardögum Alis og Fraziers fundu Ali og Angelo Dundee ráð sem dugðu gegn Frazier, sem þar að auki náði aldrei aftur hinum ofurmannlega styrk sem hann hafði í "bardaga aldarinnar." 


mbl.is „Litli feiti strákurinn“ rotaði heimsmeistarann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband