Vistvæn breyting, tímanna tákn.

Í 60 ár hefur hin árlega bílasýning í Frankfurt verið ein helsta bílasýning heims. Minnkun sýningarinnar er tímanna tákn og undir áhrifum frá netbyltingunni. 

Nú er hægt að fara inn á netið og sjá, án ferðakostnaðar og umstangs, flest það sem bílasýning býður upp á en bara á miklu þægilegri og markvissari hátt. Hægt er horfa á bílaprófanir og hvaðeina á netinu. 

Ekki er hægt að fá að prófa bílana nýju og fínu á stórum bílasýningum, og því ekki hægt að upplifa það, sem aðeins verður upplifað beint; að aka bílnum sjálfur. 

Stundum gefur jafnvel stuttur reynsluakstur meira af sér en langur tími við að kynna sér bílinn á annan hátt. 

Minnast má þess þegar valið stóð 1970 á milli hins góða, trausta SAAB 96 og hins nýja Fiat 128, sem var valinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom fram. 

Örstuttur reynsluakstur beggja bíla leiddi í ljós mun á aksturseiginleikum sem var eins og á milli traktors og bíls. Fiatinn var einfaldlega byltingarkenndur hvað það snerti. 

Reynsluakstur ýmissa bíla síðan hefur skilið eftir mikil áhrif, svo sem BMW 5 1996 og Tesla S 2011. 

En slíkt er ekki í boði eftir langt og mikið ferðalag á stóra bílasýningu, heldur með því að fara í bílaumboðið heima og skoða og prófa. 


mbl.is Flótti frá Frankfurt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski að nálgast eðlilegri og viðráðanlegri stærð?

Samdráttur í ferðaþjónustu telst út af fyrir sig ekki til góðra tíðinda, en endalaus stórfjölgun ferðamanna hér á landi gat varla staðist, og var að mörgu leyti vandamál, af því að smæð okkar hagkerfis og ófullnægjandi innviðir réðu ekki við hana. 

Gjaldþrot WOW air sýndi að grundvöllurinn undir rekstrinum eins og honum var hagað, stóðst ekki. 

Slík tíðindi varðandi fleiri fyrirtæki eru dapurleg en á móti kemur að þeir, sem eftir standa, eru þá vonandi betur settir til þess að takast á við nýja stöðu, ca 20 prósent samdrátt niður í stærð sem er kannski eðlilegust og viðráðanlegust. 


mbl.is Veikustu félögin gætu farið í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gætum við lært eitthvað af Bretum?

Svo virðist sem Bretar fáist við svipaðan vanda og við varðandi holur í vegakerfinu og séu komnir á undan okkur í að greina vandann, sem þær valda, og finna út leiðir til að bregðast við honum og leysa hann. 

Kannski gætum við nýtt okkur þá forvinnu, sem hefur verið í gangi í Bretlandi varðandi þetta dýra og hvimleiða vandamál, finna út hvort það er verra viðfangs hér á landi eða öðruvisi að einhverju leyti og nýta okkur nýja og betri vitneskju til úrbóta. 


mbl.is Myndu glaðir borga holuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalifornía hafði forystu í umhverfismálum frá 1970.

Á síðari hluta sjöunda áratugarins var svo komið í bandarískum borgum á borð við Los Angeles, að sótsvört þoka byrgði sýn dögum saman, og það súrnaði í augum á fólki.

Fyrirbærið var kallað "smog", sem er afbrigði af orðinu "fog." 

Þetta var á þeim tímum, þegar Ameríka var mikil og Trump saknar mjög. Um götur og hraðbrautir flykktust bensínhákar, drekar upp á hálfan sjötta metra á lengd, þúsundum saman og spúðu blýi og hvers kyns óþverra út í loftið til þess að hægt væri að ná á fimmta hundrað hestöflum úr átta gata rokkunum í hverjum bíl. 

Þá tóku Kaliforníumenn við sér og settu sín eigin lög og reglur um hreinsun útblásturs.

Á þessum árum voru bílaframleiðendur í Evrópu byrjaðir á að setja beinar innspýtingar og elektróniskan búnað í bíla sína til þess að minnka útblástur og halda samt aflinu, og í kjölfarið fylgdu í Evrópu yfirliggjandi kambásar til að auka nýtni, snúningshraða og afl. 

En Kaninn hélt fast við orðtakið "það kemur ekkert í staðinn fyrir kúbikin" með marghólfa blöndungum og lágsnúninga 300-425 sleggjum ásamt lélegum mengunarbúnaði, sem felldi til dæmis aflið á 302 cubic vélinni úr rúmlega 200 hestöflum brúttó niður í 120 hestöfl nettó. 

Hámarkssnúningur um 3000 snún / mínútu. 

Frumkvæði Kaliforníu fór að smita út frá sér og önnur ríki og loks alríkisumhverfisstofnunin gengu í málið. 

Og enn í dag gefur Kalifornía fordæmi um ábyrgðarfulla tilhögun í útblástursmálum. Það munar um minna, því að í þessu ríki einu er sjöunda stærsta hagkerfi heims.   

 


mbl.is Kalifornía semur við bílaframleiðendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband