Hafið er aðal hindrun fyrir rafflug Íslendinga.

Noregur er á meginlandi Evrópu og um allt meginlandið gildir það lögmál að rafknúnar flugvélar hafa takmarkaða möguleika til að fljúga langar vegalengdir í einu vegna hins mikla þunga rafhlaðnanna. 

En rafflugvélar geta hins vegar komist langar vegalengdir í heild með því að millilenda nógu oft og fljúga þannig í millilandaflugi. 

Eins og sakir standa er millilandaflug tæknilega ómögulegt á rafflugvélum milli Íslands og annarra landa. 

En ákveðnir möguleikar kunna að birtast í innanlandsflugi ef tækninni fleygir fram. 

Rafhreyflar ættu vegna einfaldleika síns að vera jafnvel öruggari en bulluhreyflar, sem hafa haft samfelld 130 ár til samfelldar þróunar, en eiga það til að bila samt. 


mbl.is Eina raf-flugvél Noregs nauðlenti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillir loksins undir Austfjarðahringinn?

Í marga áratugi hefur verið rætt og ritað um hringtengingu Austfjarða með jarðgöngum en hugmyndin virðist allan tímann hafa verið jafn langt frá þvi að komast í framkvæmd. 

Því veldur kostnaðurinn fyrst og fremst, sem enn virðist einn helsta hindrunin, því að gagnstætt því sem gilti um Hvalfjarðargöng, er ekki búist við því að hægt verði að greiða kostnaðinn við gangagerðina sjálfa upp með veggjöldum eystra. 

Og það er líka togast á um gangagerð almennt, samanber hugmyndir um löng göng í gegnum Tröllaskaga til þess að losna við Öxnadalsheiðina. 

Margir mikla fyrir sér það að standa í tvennum risaframkvæmdum í einu á sama tíma á tveimur stöðum á landinu. 

Engin leið er að komast af með styttri göng eystra, en hugsanlega mætti bæta leiðina um Öxnadalsheiðina með um 3,5 kílometra löngum göngum undir háheiðina, sem tæki í burtu þá aðalhindrun sem hún og Bakkaselsbrekkan hefur verið. 

Það verður spennandi að fylgjast með því hvað kemur út úr fundinum, sem ætlunin er að halda eystra um málið. 


mbl.is Mælir með göngum undir Fjarðarheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsfréttir ógna lýðræðinu.

Undirstaða nútíma lýðræðis eru upplýsingar, sem kjósendur geti treyst.

Með sífjölgandi falsfréttum sem smám saman verða æ "djúpfalsaðri" svo notað sé nýyrði um tæknibrögðin, sem beitt er, er hins vegar hægt að ná þeim árangri að kjósendur fari smám saman að vantreysta öllu því sem borið er á borð fyrir þá og ráðstafi atkvæðum sínum meira í samræmi við óskhyggju og kæruleysi en niðurstöðu réttra og nauðsynlegra upplýsinga. 

Og í ofanálag til að negla ruglið, eru það oft þeir, sem mest beita falsfréttum, sem hafa hæst um að réttar fréttir séu falsfréttir.  


mbl.is Djúpfalsað myndskeið flýgur víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir sjómenn losna aldrei við sjóveikina.

"Hafið lokkar og laðar" var sungið hér um árið um sjómenn, sem heillast svo af hafinu og siglingum, auk eltingarleiksins við fiskinn, að þeir sækja í það að starfa sem sjómenn eða farmenn. 

Sjómenn hafa sagt síðuhöfundi frá því, að þeir hafi aldrei, jafnvel á margra áratuga ferli á sjónum losnað alveg við sjóveikina. 

Hún gerði ævinlega vart við sig fyrstu dagana eftir að látið var úr hðfn, en rénaði síðan. 

Allt frá tímum veiða á Nýfundnalandsmiðum og í Barentshafi voru menn lengi í einu á sjó, svo að sjóveiki fyrstu dagana aftraði þeim ekki frá því að stunda þetta erfiða starf um áratuga skeið. 

Engin leið er að vita fyrirfram hverjir eru líklegri en aðrir til að verða sjóveikir. 

Svo að Gréta Thunberg rennur blint í sjóinn hvað það snertir.  


mbl.is Mun ekki láta sjóveikina á sig fá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband