Eyðingarmáttur nautgriparæktarinnar og margfalt bruðl með næringuna.

Þegar borin eru saman næringarafköst maísræktar til matarframleiðslu annars vegar og hins vegar sú leið að fóðra nautgripi á maís og éta kjötið af þeim, er munurinn tífaldur, beinni nýtingu maísins í hag. 

En skammsýnir ráðamenn skoða bara hagvöxtinn af umsvifunum vegna nautgriparæktarinnar, vinnslu og sölu nautakjötsins og ruðningi lands fyrir þetta tífalda bruðl. 

Þar að auki er ráðist á skóglendi heimsins með því að eyða skógi og rækta beitarland fyrir nautgripi í staðinn. 

En á þessa skógareyðingarstefnu trúa Bolsoneri forseta Brasilíu og skoðanabræður þeirra og valdamenn í Norður-Ameríku.  


mbl.is Brasilía „útrýmandi framtíðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrefalt hættulegra að vera undir áhrifum á vélhjóli en bíl.

Ölvaður maður á hjóli, einkum vélhjóli, er í þrefalt meiri hættu að verða sér að aldurtila en ef hann væri undir stýri á bil. 

Ástæðan blasir við og maðurinn á reiðhjólinu í frétt á mbl.is, blóðugur eftir árekstur við ljósastaur, strax í upphafi ferðar, er ágætt dæmi. 

Ef hann hefði sest upp í bíl og ekið á næsta ljósastaur, hefði belgur blásist upp fyrir framan hann og verndað hann. 

Auk þess er margfalt erfiðara að halda jafnvægi og stjórn á hjóli en bíl. 

Hjálmleysi og akstur undir áhrifum á vélhjóli eru orsakir meiri hluta banaslysa á þeim, þannig að ef þetta tvennt er í lagi, hjálmur og að vera edrú, er hættan á banaslysi orðin svipuð á þessum tveimur tegundum ökutækja. 


mbl.is Ofurölvi á reiðhjóli auk fleiri brota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þurfti allt i einu "belti og axlabönd" sem síðan halda ekki?

Þegar ljóst varð að innan stjórnarflokkanna væri meirihluti þeirra sem sögðust vera fylgjendur þeirra í skoðanakönnunum andvígur 3ja orkupakkanum, og mikill kurr heyrðist hjá almennum flokksfólki, brast Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við því með því að lýsa yfir því að sett yrðu "belti og axlabönd" á lögleiðingu 3. orkupakkans í formi fyrirvara. 

Þetta sýndi ljóslega að því fór fjarri að málið væri "fullskoðað og fullrætt", og síðan axlaböndin og beltið komu til sögunnar hefur komið æ betur í ljós hve haldlausir þessir fyrirvarar geta orðið, ef til kemur. 

Innihald þess sem komið hefur fram í því sem Bjarni Benediktsson kallar "fullskoðað og fullrætt" er einfaldlega svo tvíbent að við blasir að minnsta kosti stórkostlegur vafi og áhætta um afleiðingar þess að lögleiða orkupakkann. 

Það var þessi áhætta og vafi sem var ástæða þess að tjasla saman axlaböndum og belti, sem ættu að halda, - en gera það ekki, af því að þau standast ekki þær formlegu kröfur sem þarf til þess að vera tekin til greina, ef á reynir. 


mbl.is Málið „fullskoðað og fullrætt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband