Svipað og þegar reynt var að fella Sullenberger.

Þegar verið var að athuga nauðlendingu Sullenbergers flugstjóra á Hudson ánni og finna það út, að hann hefði gert gróf mistök með henni, því að auðvelt hefði verið fyrir hann að fljúga til lendingar á tveimur flugvöllum, var atvikið sett í flughermi þar sem flugstjórar sýndu fram á að lending á flugvöllunum hefði verið möguleg. 

Sullenberger hélt því fram að uppsetningin í flughermunum hefði verið óraunhæf, því að reiknað var með því að hinir þrautreyndu flugstjórar tækju þegar í stað rétta ákvörðun á jafnskömmum tíma og tölvustýrðir róbótar. 

Sullenberger fór því fram á raunhæfari prófun og færði að því rök, að við hinar raunverulegu aðstæður hefði þurft 38 sekúndur fyrir venjulegan flugmann til þess að rekja sig áfram til niðurstöðu. 

Í ljos kom, að miðað við raunhæfar aðstæður var ómögulegt að komast til flugvallanna og að meira að segja hefðu flugstjórarnir í flughermunum, þótt þeir tækju ákvörðun á augabragði, þurft allt að 19 tilraunir til þess að geta komist til vallanna, jafnvel þótt þeir hefðu stefnt þangað samstundis. 

Nú virðist svipað vera uppi varðandi viðbrögð flugmanna við aðstæðum sem ollu flugslysunum á Boeing 737 Max.  

Það verða ekki aðeins þrautreyndir og færustu flugstjórar, sem verða látnir bregðast við aðstæðum, heldur einnig lítt reyndir flugmenn með viðeigandi flugréttindi.  

Það er eina raunhæfa leiðin, því að það eru ekki eingöngu færustu og reyndustu flugmennirnir sem fljúga þessum þotum. 

Sullenberger benti á það í vörn sinni að það væru ekki róbótar sem flygju þotum, heldur venjulegir menn. 


mbl.is Óreyndari flugmenn prófi hugbúnaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband