Í Kröflueldum voru 14 umbrotahrinur í níu ár með 9 eldgos.

Þrír sentimetrar sýnist ekki há tala, en er það samt þegar tillit er tekið til þess að þetta ris hefur orðið á aðeins fáum dögum.  

Til samanburðar sýnir talan 18 sentimetrar varðandi sig af völdum uppdælingu fyrir virkjanirnar á þessu svæði nokkurra ára þróun. 

Kröflueldar 1975-1984 voru líklega lærdómsríkasta eldgosahrina, sem íslenskir og þar með erlendir jarðvísindamenn hafa fengið að rannsaka og fylgjast með. 

Þar hófust flest hinna níu gosa á því að jörðin rifnaði, skammt frá Leirhnjúki, sem var ekki ósvipuð miðja umbrotanna og Þorbjörn er nú. 

Í gosinu 1984 náðist loftmynd, eina kvikmyndin, sem til er af því tagi, af því þegar í myrkrinu var líkt og eldrauður hnífsoddur kæmi upp í gegnum jörðina og hækkaði hratt, jafnframt því sem eldoddurinn breyttist í eldvegg sem líktist eldrauðu og ógnarlöngu sagarblaði. 

Síðar dróst eldvirknin í afmarkaða gíga á gossprungunni. 

Svipað gerðist í upphafi Heimaeyjargossins 1973, nema að í því færðist eldurinn afar fljótt í afmarkaðar eldsúlur og eldstólpa á stuttri gossprungunni sem mynduðu litla gíga og loks eitt eldfjall, Eldfell, utan í austurhlið Helgafells. 

Á tímabili í upphafi gossins í Holuhrauni var svipuð þróun í gangi og fyrir gosið mátti sjá stutta gígaröð frá mun minna gosi fyrr á tíð. 

Gígaröðin Eldvörp er á meira en tíu kílómetra langri þráðbeinni gossprungu, er örfáa kílómetra frá þeim stað, þar sem skjálfti upp á um þrjú stig varð í morgun fyrir vestan Þorbjörn. 

Hvergi á þurrlendi jarðar nema á Íslandi er að finna gígaraðir á borð við Eldvörp, Lakagíga og fleiri svipaðar.  

Í Kröflueldum reis land og seig á víxl í umbrotahrinum alls fjórtán sinnum. 

Í fimm skipti komst jarðeldur ekki upp á yfirborðið, þótt afar litlu munaði þegar hraunmylsna kom upp í gegnum borholurör í Bjarnarflagi og sáði glóandi hreunmynslu í kringum sig. 

Fyrsta gosið 1975, var afar lítið, en síðan reis land hærra og hærra með hverri umbrotahrinu og gosin urðu stærri og stærri á árunum 1980, 1981 og 1984.   

Engin leið er að vita hvort slíkt getur verið í uppsiglingu við Þorbjörn, né heldur, hvort og þá hve oft umbrotahrinur enda án eldgoss. 

Í hinu ógnarstóra gosi í Lakagígum urðu til um 130 gígar, og gengu þeir inn í hlíðar fjallsins Laka, sem var á miðju sprungunnar. 

Að norðanverðu var þetta smágigafyrirbæri utan í Laka ekki ólíkt því sem sjá mátti utan í Helgafelli í Eyjagosinu.  

En megin umbrotahrinurnar í Skáftáreldum urðu tvær og enduðu báðar með stórgosi, hinu fyrra á suðvesturhluta sprungunnar, suður af Laka, og hinu síðara fyrir norðaustan Laka. 

 

 


Öllu má nú nafn gefa.

Það er einkenni tíma upphrópana að ofnota lýsingarorð svo mikið, að þau gjaldfalla. 

Eitt af þessum lýsingarorðum er orðið "frábær." 

Upphaflega þýddi orðið það, sem ber af, er langbest. 
Þegar hins vegar er búið að kynna hvern einasta þátttakanda í blönduðum spjallþætti í sjónvarpi sem frábæran, þátt eftir þátt, endar það með því, að vegna þess að enginn kemur lengur orðið fram í þættinum nema að smellt sé á hann þessum stimpli, er orðið frábær komið í þá stöðu að tákna það, sem er svo venjulegt, að ekkert finnst lakara. 

Ef allt er frábært, táknar heildarmyndin flatneskjuna og meðalmennskuna í einni sæng. 

Fannkyngi og það, að snjó kyngi niður, hefur löngum aðeins verið notað um mjög mikla snjókomu. 

Snjókoma, sem aðeins mælist vera um 8 sentimetrar alls, er ekkert sérlega umtalsverð á þorranum á landi, sem ber heitið Ísland. 

Áður hefur verið minnst á orðið "jeppi", sem bifreiðainnflytjendur keppast svo við að klína á sem allra flesta bíla, að það er búið að stúta merkingu þessa orðs.

Orðmyndin er hiklaust notuð, þótt jafnvel sé að ræða um eindrifsbíla með svipaða hæð og veghæð og lángt og lágt framstandandi nef og flestir fólksbílar hafa löngum verið. 

Sem dæmi má nefna hinn rafknúna Hyundai Kona, sem auglýstur er sem fyrsti rafjeppinn á Íslandi, þótt alveg vanti fjórhjóladrif, veghæðin sé aðeins 17 sm og nefið lágt og framstandandi. Sambærilegur eindrifs rafbíll af annarri gerð, sem er aðeins einum sm lægri frá vegi er að sjálfsögðu ekki auglýstur sem rafjeppi, þótt heildarhæð hans sé meiri. 

Svo gersamlega er búið að rugla alla í ríminu í báðar áttir, að um daginn var bíl einum í frétt lýst sem "litlum jepplingi" þegar um var að ræða Suzuki Jimny, sem er annar tveggja óumdeilanlegra jeppa í alla staði, sem nú eru eftir á markaðnum.  Hinn er Jeep Wrangler. 

Hin upprunalegu einkenni þessara ekta jeppa eru eftirfarandi:

Fjórhjóladrif á tveimur heilum hásingum. Millikassi með háu og lágu drifi. Sérstök grind. Föst og mikil hæð frá vegi. Stuttir og háir endar jeppanna að framan og aftan. 


mbl.is Snjó kyngir niður á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband