"Þrjátíu ár á sjó og ertu hræddur?"

Aldalöng reynsla af siglingum og flugi hefur orðið til þess, að festa í sessi algert einveldi skipstjórans eða flugstjórans.

Ástæðan er sú að eðli starfans vegna hefur verið talið nauðsynlegt að einhver ein persóna um borð beri endanlega ábyrgð á öllum ákvörðunum, sem teknar eru.  

Hjá sumum austrænum þjóðum hefur auk þess fest í sessi algild virðingarröð frá aldaöðli, sem liggur í þjóðfélagsgerðinni og stéttaskiptingunni, sem á tímabili á síðustu öld olli mannskæðum flugslysum. Einkum fóru Suður-Kóresk flugfélög illa út úr þessu. 

Í þessum flugslysum tók flugstjórinn kolrangar ákvarðanir sem aðrir í stjórnklefanum þorðu ekki að véfengja eða andæfa og jafnvel ekki að spyrja um. 

Ókostur þessa alræðis hefur verið alþjóðlegur eins og sést til dæmis á því að mannskæðasta flugslys allra tíma varð að vegna stjórnunar hollenskrar þotu. 

Og í hernaði hefur röð valda frá hershöfðingja og niður úr verið rauður þráður til þess að halda uppi nauðsynlegum aga. 

Þegar Sovétmenn biðu afhroð fyrir Þjóðverjum á fyrstu mánuðum innrásar Hitlers hafði ekki aðeins farið fram einstæð "hreinsun" Stalíns, sem bitnaði mest á liðsforingjum á mismunandi stigum, heldur hafði líka dregið stórlega úr veitingu verðlauna og embætta og borðarnir, "strípurnar" lagðar af að mestu. 

Stalín neyddist til að breyta þessu í hefðbundið kerfi viðurkenninga og "rank" til þess að örva menn til dáða og efla nauðsynlegan aga. 

Í kjölfar fyrrnefndra flugslysa seint á síðustu öld var þróuð ný hegðun í stjórnklefum flugvéla sem að vísu hnekkti ekki valdaskipuninni, en gerði þó öllum skylt að taka meiri þátt í ákvarðantöku og aðgerðum á sameiginlegum grunni en áður var.

Fyrirbærið var nefnt CRM, onboard "Crew Resource management". Stjórn / skipulag mannauðsins í áhöfninni. 

Stórt atriði í því var að þora að spyrja spurninga um ákvarðanir, stjórnun og aðgerðir  yfirmannsins. 

Þetta bar árangur og hefur verið notað alls staðar síðan. Það tók til dæmis Suður-Kóreumenn ótrúlega stuttan tíma að útrýma þessum flugslysum. 

Eftir sem áður blífur tilvist goggunarraðarinnar áfram og skipstjórinn er einvaldur. 

Íslenskt dæmi:  Áður en kvótakerfið kepptu íslenskir vertíðarsjómenn um það að vera á aflahæsta skipinu á vertíð.   

Í eitt skipti var það gamall vélbátur og lúinn sem hreppti þennan titil fyrir harðfylgi skipstjóra og áhafnar. 

Á þeirri vertíð skall á mikið páskahret svo að bátar hrökkluðust í land og voru í landlegu í marga daga. 

Nema einn bátur, þessi gamli. Skipstjóranum komst að koma honum í var undir Látrabjargi í nokkra daga og voru þar meðal annars dregin net, sem aðrir höfðu flúið frá þegar veðrið skall á.  

Vélstjórinn á bátnum hafði verið til sjós í þrjátíu ár og sopið marga fjöruna, meðal annars í stórviðrum á Nýfundnalandsmiðum, en sagði mér að þessir óveðursdagar undir bjarginu hefðu verið það svakalegasta sem hann lenti í. 

Þá hefði hann farið að gæta að öryggisráðstöfunum um borð og komist að því að gúmmíbjörgunarbáturinn lá skorðaður niðri við botn bátsins undir heilmiklu af drasli. 

Fór hann upp í brú og sagði skipstjóranum og öðrum sem þar voru frá þessu. 

Skipstjórinn leit á hann og spurði: "Hvað ert þú búinn að vera lengi til sjós?"

"Þrjátíu ár," svaraði vélstjórinn. 

"Þrjátíu ár", sagði skipstjórinn, "og ertu hræddur?"

Sérkennilegri þögn sló á mannskapinn og enginn sagði orð.  

Málið var dautt og ekki minnst á þetta meir. 

Hvað snertir COVID-19 málið á Júlíusi Geirmundssyni vaknar spurningin af hverju enginn spurði skipstjórann í túrunum nánar út í fyrirmæli sóttvarnarlæknis eða samskipti hans við skipstjórann. 

 


mbl.is Erfitt að horfa á upp á veika skipverja við vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband