Sérkennileg bandarísk óvissa og ófriður.

Að uppruna til og að miklu leyti til dagsins í dag eru Bandaríkin víðfemt land með miklu meira dreifbýli en hinar stóru borgir í landinu benda til. 

Líkast til eru það þessar aðstæður sem hafa gert það að verkum að ákvæðin um utankjörstaðaatkvæði og póstlögð atkvæði eru býsna nýstárleg í augum annarra þjóða. 

Það hljómar ótrúlega að í einum forsetakosningunum vestra hefði ekki verið hægt að úrskurða endanlega um úrslit kosninganna fyrr en í mars. 

Þannig verður þá trúlega aldrei aftur, en minna má á, að eftir forsetakosningarnar árið 2000 leið ótrúlega langur tími frá kjördegi, þar til seinleg endurtalning og þref um framkvæmd kosninganna virtist stefna í átt að pattstöðu, sem Hæstiréttur batt síðan enda á. 

Eftir það finnast enn þeir, sem telja að Al Gore hafi í raun sigrað, enda fékk hann fleiri atkvæði en George W. Bush.  

Trump hefur í góðum tíma fyrir kosningarnar nú spáð mesta kosningahneyksli allra tíma og með því gefið í skyn, að líki honum ekki úrslitin, muni hann fara í slag út af úrslitunum. 

Í ljósi þessa er hægt að leggja sérstakan skilning í þau ummæli Trumps að það að klára skipan nýs hægrisinnaðs hæstaréttardómara fyrir kosningarnar hafi verið mikilvægasta mál þessara síðustu daga fyrir kosningarnar. 

Í tengdri frétt á mbl.is sést nánar, hvernig hlutföllin í réttinum gætu breytt miklu í einstökum málum. 

Og vald Hæstaréttar í svona málum er algert ef þau koma inn á borð til hans. 

Hann hefur meðal annars lýst persónulegri stefnu sinni að hún snúist um það að hopa aldrei heldur berjast, berjast og berjast.  

Það er líklegt að slíkt muni gilda á öllum sviðum valdsins, löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu og að framundan kunni að verða alveg einstakur tími ósættis, ófriðar og óvissu í Bandaríkjunum. 


mbl.is Átök í aðsigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er líklegt að Kínverjar hafi vísvitandi valdið sjálfum sér mestu tjóni?

Nú bendir flest til þess að heimsfaraldur COVID-19 muni valda Asíuþjóðum og þar með Kínverjum meira tjóni en þjóðum í öðrum heimshlutum. Og til viðbótar séu líkur á því að kreppan standi í minnst tvö ár og jafnvel fleiri.

Sé svo, hefur Kínverjum mistekist hrapallega við að búa þessa veiru til í tilraunastofu ef það var gert í þeim eina tilgangi að spilla fyrir endurkjöri Bandaríkjaforseta. 

En því hefur forsetinn haldið staðfastlega fram frá því í mars og sagst hafa fyrir því traustar heimildir. Enda sé eftir miklu að slægjast fyrir Kínverja ef þeir geti lamað mesta yfirburða forseta Bandaríkjanna í 155 ár. 

Ævinlega hefur hann þó neitað að upplýsa neitt um þessar heimildir en ítrekað, að hann væri sannfærður um gildi þeirra og haldið áfram að neita að segja frá þeim nánar, þótt hann hafi verið margspurður. 

Nýjustu upplýsigar doktors Fauci, sem var fjallað um hér á síðunni í gær, gætu þó kannski útskýrt þessa tregðu forsetans, því að samkvæmt þeim var alþjóðleg samvinna með þáttöku Kínverja í þessu rannsóknar máli þvert á móti ætlað að efla sem best viðbrögð jarðarbúa við líklegum faraldri.  

Fjölmiðlamenn hafa látið forsetann komast upp með svipað í garð þeirra, sem honum er illa við, í ótal fleiri málum allan forsetaferil sinn, eða þar til að Lesley Stohl hjá Sextíu mínútum sagði honum í viðtali við hann, að það væri regla hjá þeim sjónvarpsþætti að fjalla ekki um óstaðfestar fullyrðingar. 

Þetta reitti forsetann til reiði, svo að hann stóð upp og strunsaði út úr viðtalinu. 

Nú má sjá í fréttum að Joe Biden hafi ruglast á nöfnum í viðtölum og þar með staðfest þá fullyrðingu forsetans og fylgjenda hans, að Biden sé orðinn gersamlega elliær og viti hvorki í þennan heim né annan. 

Biden mun þó hafa leiðrétt sig ef rétt er með farið og þessi tvö dæmi eru enn það eina í öllum kosningavaðlinum, sem hefur birst varðandi mismæli hans.   

Mismunurinn á honum og Trump er hins vegar sá, að það er viðburður ef Trump leiðréttir villurnar í sínum stórfenglega sýndarveruleika, sem hefur verið hans ær og kýr allan hans feril með uppruna í svonefndu "raunveruleikasjónvarpi", - hinu mikla Trump-sjói.

Sumir hafa á orði að það sé slæmt hvernig komið sé bandarískum stjórnmálum, ef þessir tveir séu það allra besta, sem bandaríska þjóðin vilji láta bjóða sér að velja um í þessum forsetakosningum. Ef svo er, er það ekki uppörvandi.   

 


mbl.is Ferðaþjónustan muni ekki jafna sig 2021
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðmyndin "eld" er ekki út í loftið. Eldsneytið í brunahólfi sprengihreyfilsins.

Varla er hægt að hugsa sér hversdaglegri og meinleysislegri orð en eldhús, eldavél, eldhúsborð, eldhúskrókur og eldamennska. Þetta er jú miðja heimilishaldsins hjá friðelskandi fólki.  

En samkvæmt orðsins merkingu er það nú samt fyrirbrigðið eldur sem liggur til grundvallar þessum heitum og þar af leiðandi full ástæða til þess að bera virðingu fyrir því sem eldur, af hvaða tagi sem er, getur leitt af sér. 

Og líka að því hver er merking sagnarinnar að slökkva og tækja eins og slökkvari og slökkvitæki, og sagnarinnar að kveikja. 

Menn kveikja eld á eldavél og slökkva líka eldinn á eldavélinni, er það ekki? 

Stundum getur það útskýrt álitamál að nefna þessi orð. 

Þannig blossar af og til upp umræða um mikla eldhættu af rafknúnum bílum, sem sé margfalt meiri en af bensín- og olíuknúnum bílum. 

Þá er ágætt að benda á nöfnin sem eru notuð.

Orkugjafi bensínbílanna og dísilbílanna heitir nefnilega eldsneyti og orkugeymarnir eru eldsneytisgeymar, orkan er leidd þaðan í  eldsneytisleiðslum inn í brunahólf vélanna, öðru nafni sprengihólf, enda er hið alþjóðlega heiti hreyflanna sprengihreyfill, combustion engine. 

Og einn hluti af því sem gert er í upphafi bílferðar er meira að segja fólgið í því að kveikja á miðstöðinni. 

Sem er ekki svo galið, þrátt fyrir allt, því að hitaorkan, sem hitar upp loftið sem kemur út úr miðstöðinni á uppruna sinn í brunahólfi sprengihreyfilsins.


mbl.is Eldamennska talin vera orsökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamt að vanmeta COVID-19.

Strax í upphafi heimsfaraldursins COVID-19 kom hastarlega í ljós hve lúmskur þessi sjúkdómur er iðulega. Á sama tíma sem jafnvel fólk með svonefnda undirliggjandi veikleika slapp billega, lést fjölmargt hraust fólk á besta aldri. 

Í stað þess að þetta væri bara ósköp meinlaus flensa og jafnvel "ekki neitt neitt" eins og Bandaríkjaforseti sagði í nokkrar vikur, virtust lítil takmörk fyrir því hve illskeytt hún gat orðið. 

Þegar tíminn hefur liðið hafa auk þess komið fram margvísleg og langvinn eftirköst, jafnvel þótt læknum hafi tekist að betrumbæta stórlega meðferð á sjúklingunum.   


mbl.is Getur haft alvarleg áhrif á heila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband