Hvernig getur ESB valdið dauða þúsunda covidsjúklinga?

Síðan í sumar hefur af og til skotið upp kollinum furðuleg umræða á netmiðlum þess efnis að ESB sé að valda dauða þúsunda covidsjúklinga með því að tefja fyrir því að bóluefni komist í notkun. 

Í upphafi sló aðeins á þetta þegar í ljós kom að Trump hafði pantað stóran skammt frá þýsku lyfjafyrirtæki í hjarta ESB!  

En aftur var byrjað á því að krefjast þess að segja sig frá samstarfi við Evrópu í þessum efnum og leita til lang öflugasta ríkis heims, Bandaríkjanna. Eða að troða okkur fremst í biðröð þjóðanna, - ekkert mál.  

Um daginn sagði reyndar Bandaríkjaforseti að þar í landi kæmi bóluefnið í notkun núna um áramótin. 

En síðustu daga hefur tónninn harðnað í skrifum um vonsku ESB sem tefji fyrir og standi í vegi fyrir útdeilingu bóluefnis og meira að segja ýjað að því að ESB beinlínis valdi dauða þúsunda og jafnvel tugþúsunda sjúklinga með stirfni sinni og andófi. 

Þegar svona sést haldið fram getur verið ágætt að spyrja spurningarinnar um það hverjir hagnist á þessu meinta háttalagi ESB. 

Líka að skoða hver sé orsök þess að helmingi minna bóluefni komi frá Pfizer lyfjarisanum en lofað var. 

Þá verður málið dálitið snúið, því að í fyrsta lagi er Pfizer bandarískur lyfjarisi og í öðru lagi segja þeir hjá Pfizer að um sé að kenna skorti á hráefni. 

Og spurningin er: Hvernig gat ESB valdið töfum hjá Pfizer og skorti á hráefni þar? 

Samkvæmt tengdri frétt á mbl.is ætti að vera hægt að bólusetja hér fyrir áramót, eða um svipað leyti og Trump hafði spáð að hægt yrði að bólusetja þar í landi! 

Og síðan er þess að geta, að þótt ESB sé fyrirferðarmikið og oft umdeilt bandalag, eru það samtök lækna frá tólf löndum í Evrópsku lyfjastofnuninni (EMI) sem tengjast lyfjamálum álfunnar og eru alls ekki sama fyrirbærið og ESB.  

Fjölmargar evrópsk samtök og stofnanir eru ýmist stofnuð á undan ESB eða með miklu fleiri aðildarþjóðir innan vébanda sinna en eru í ESB. 


mbl.is Svona standa samningar Íslands um bóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíþjóð: Samsvarar 270 látnum hér.

Svíar hafa löngum verið fyrirmynd okkar hvað varðar velferðarkerfið sem þar var byggt upp á síðustu öld. 

Þess vegna voru fyrstu fréttir af ástandinu þar í upphafi covid-faraldursins óvænt áfall fyrir marga. 

Lýsingarnar, sem fengust frá fyrstu hendi af því hvernig fólk stráféll í upphafi og hvernig ástandið var víða á ólíklegustu stöðum, svo sem á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, virtust í hrópandi ósamræmi við það mikla álit sem Svíar nutu sem þjóð í fararbroddi í heilbrigðismálum. 

Þegar fyrsta bylgjan hafði riðið yfir og aðrar þjóðir glímdu við fyrstu bylgjuna virtist í bili, sem eins konar "sænsk leið" sem sögð var miða að því að fá fljótt fram hjarðónæmi í gegnum hinar háu fyrstu tölur, gæti jafnvel orðið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir. 

Annað átti því miður eftir að koma fljótt í ljós. Svíar eru enn langt frá hjarðónæmi, sennilega vegna þess, að ef hjarðónæmið átti að byggjast á ástandi, sem hafði mikinn fjölda dauðsfalla í för með sér og ofgnótt af fólki á spítala og í öndunarvélum, myndi hið rómaða heilbrigðiskerfi hrynja með skelfilegum afleiðingum. 

Nú er covidárið að líða og fjöldi dauðsfalla nálgat 8000 í Svíþjóð, mörg á hörmulegan hátt þar sem velja varð þá úr sem þyrftu að deyja og hina, sem ætti að hjálpa, samsvarar því að hér á landi væru 270 látnir, níu sinnum fleiri en raunin er. 

Hugtakið "sænska leiðin" sem árangursrík aðferð til að kljást við drepsóttina hvarf enn fljótar en hún birtist.   


mbl.is Konungurinn telur að Svíum hafi mistekist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málvillurnar eru lúmskar.

Málvillan sem felst í því að hvetja einhvern til heimsóknarferðar með því að segja "heimsóttu" í stað "heimsæktu" á sér margar hliðstæður. 

Þannig hefur nafnorðið ryksuga fætt af sér sögnina að "ryksuga" og jafnvel nafnorðið ryksugun".

Þetta er ruglkennt þegar sögnin að sjúga og nafnorðið sog eru skoðuð. Eða til dæmis sögnin að mergsjúga og nafnorðið blóðsuga, sem kallar á sögnina að blóðsjúga. 

Blóðsugan sýgur blóð en sugar ekki blóð og hún stundar blóðsog en ekki blóðsugun, og auðvitað er aldrei sagt að þetta skordýr sé að blóðsuga fólk. 

Og daglega sækir nafnháttarsýkin á af ofurþunga. 

Í íþróttalýsingu var því lýst þegar markvörður gat ekki varið skot; skotið var óverjandi. 

Í stað þess að segja einfaldlega: "Hann gat ekki varið þetta skot" eða enn einfaldar, "skotið var óverjandi"  var sagt: 

"Hann var ekki að fara að verja þetta skot".

13 orð í stað þriggja. 

Í ofanálag eru tískuorðin "við erum að sjá" eða "við vorum að sjá" alveg einstaklega þreytandi í þeirri síbylju sem þessi óþörfu orð eru notuð. 

Þegar þessum tískuorðum er bætt við fyrir framan "hann var ekki að fara að verja þennan bolta", lengist setningin enn meira og verður svona: 

"Við erum ekki að sjá að hann hafi verið að fara að verja þennan bolta."

15 orð í staðinn fyrir 3. 

Lengst komst sennilega kynnir um daginn sem greindi á því að von væri á 16 þátttakendum í keppni og í staðinn fyrir að segja einfaldlega:

"Það er von á sextán þátttakendum"...

..var þetta sagt:   

"Við erum að fara að sjá að það eru að fara að verða 16 þátttakendur sem eru að fara að gera sig líklega til að fara að gefa sig fram."   

30 orð í staðinn fyrir 6. 

Nú er fólk hætt að kaupa hluti heldur verslar það hluti. 

Og fólk fer sennilega bráðum að hætta að gera góð kaup eða að tala um það hvernig kaupin séu á eyrinni, heldur er talað um kaup í eintölu þegar kaupin eru gerð. 

Hætt er að beygja orð í ofanálag. "Komdu í Hagkaup og finndu það sem þig vantar í Hagkaup."

"Renndu við í Útilíf, þú finnur það, sem þig vantar í Útilíf."

 


mbl.is Málvilla á bol Begga Ólafs vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband