Ótrúleg yfirsjón Íslendinga í flóðavörnum.

"Skriðuföll og snjóflóð" hét bók ein sem kom út fyrir rúmlega hálfri öld. Afar fróðleg bók og stundum gluggað í hana til þess að sjá hvar væri hætta á þessu fyrirbæri og hvar ekki.  

Einhvern tíma komst sá kvittur á kreik að bókin hefði af þessum sökum verið auglýst svona: "Skriðuföll og snjóflóð inn á hvert heimili!"  

Þá óraði engan fyrir því hve óviðeigandi þessi húmor var og áratugum saman var það viðkvæði þegar spurt var um skriðuhættu á hinum ýmsu svæðum að enga sögur færu af slíku. 

Á Patreksfirði féll aurskriða á hús í kringum 1950 og voru viðbrögðin  einföld og æðrulaus. 

Íbúar hússins og nánustu vinir og vandamenn mokuðu einfaldlaga aur og grjót út úr kjallaranum og af lóðinni.  

Þegar snjóflóðumm og skriðuföllum fór að fjölga eftir 1970 var einfaldast að fletta upp í bókinni um fyrirbærið og kannski einhverjum annálum, og yfirleitt kom í ljós að ekki væri hætta á ferðum, því að ekki væru heimildir um flóð á viðkomandi slóðum.  

Síðan komu stóru flóðin á Seljalandsdal 1994, Súðavík og Flateyri 1995 og flóð í Bolungarvík þar á eftir og loks tók þjóðin almennilega við sér. 

Og þá komu mistökin í mati á þessari hættu í ljós:  Á þessum stöðum, sem flóðin féllu, voru ekki dæmi um mannskaða fyrr á tíð einfaldlega vegna þess að á þeim var ekki komin byggð. 

Það hafði enginn farist á fyrri tíð, af þvi að það var yfirleitt enginn á þessum nýju hættusvæðum þá.  

Þegar lesin var lýsing í jarðabók Árna Magnússonar kom að vísu í ljós að hætta væri á því fé færist í flóðum á jðrðinni Súðavík. En sauðfé er ekki fólk og því hringdi þetta engum bjöllum. 

Þegar litið var um öxl í lok síðustu aldar blasti við sú ótrúlega yfirsjón okkar Íslendinga að hafa ekki áttað sig fyrr á þessum grundvallaratriðum. 

"Það er oft erfitt að verða vitur eftir á" segir máltækið.  

Sem dæmi mætti nefna, að ef Ingólfur Arnarson hefði einhvern tíman gengið á Úlfarsfell og síðar gengið á Esjuna í góðu veðri með afbragðs skyggni hefði hann séð það greinilega, að við sjávarmál sá hann aðeins efri hluta Snæfellsjökuls, á Úlfarsfelli jökulinn næstum allan og á Esju allan jökulinn, frá strönd upp á topp. 

Eina skýringin á þessu hlaut að vera sú að það væri bunga á Faxaflóanum. En í huga fólks þá var það svo óhugsandi að jörðin væri hnöttótt og því bunga á hefinu, að enginn leiddi að því hugann, sem þó blasti við. 

Eftir nýtt snjóflóð á Flateyri í fyrravetur hrukku menn við og í ljós kom að áætlun um varnir víða um land hafði verið stórlega vanrækt. 

Nú er enn dauðans alvara á ferð, í þetta sinn á Seyðisfirði. 

Þá er hollt að hafa í huga, að snjóflóðið mannskæða á Patreksfirði 1983 var hvorki hreint snjóflóð né aurflóð, heldur blanda af þessu tvennu,, krapaflóð.   

Síðuhafi man vel eftir skriðuföllunum miklu á Norðurlandi sumarið 1954. 

Þá stíflaðist á í gili fyrir ofan bæinn af skriðu, sem féll ofan í gilið og stíflaði farveg árinnar. 

Að lokum brast stíflan og mikið aurflóð ruddist yfir hluta af gróðurlendinu fyrir neðan og olli tjóni.  Sama hafði gerst í enn meiri mæli 1933 og eyðilagt stöðvarhús fyrir litla virkjun. 

Norskur snjóflóðafræðingur svaraði spurningu um snjóflóð svona árið 1994: 

"Þar sem getur snjóað og landi hallar, þar getur orðið snjóflóð." 

Árið eftir féll snjóflóð á Blönduósi. Ég endurtek: Blönduósi. 

Við þetta mætti bæta: Þar sem á fellur um hallandi land, þar getur myndast stífla og komið flóð þegar hún brestur.  


mbl.is Neyðarstig – Seyðisfjörður rýmdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Reykjavík getur veður verið jafn misjafnt og í heilum landsfjórðungi.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur lýst þeim áhrifum, sem byggingar geta haft á vind.  

Við byggingu húsa er hyllst til þess að láta stofur og svalir snúa til suðurs til þess að þar geti skinið sól. 

En það þýðir að oft er gengið inn í húsin eða blokkirnar að austanverðu eða norðanverðu, og þá gleymist hönnuðunum að yfirgnæfandi algengasta rok vindáttin er úr austri, þannig að annað hvort stendur veðrið beint upp á dyrnar, eða þá meðfram þeim, hvort tveggja afar hvimleitt. 

Það er þó ekki sama veðrið að meðaltali í öllum hlutum borgarinnar. 

Þannig er um tveimur stigum kaldara í Vesturbænum en í Elliðárdal á sumrin. 

Meira að segja var gamla veðurstöðin við Elliðaárstöð hlýjasti staður landsins í júlí að meðaltali, hlýrri en nokkur staður á Suðurlandi og hlýrri en sjálfur Hallormsstaðaskógur. 

Hvernig má það vera?

Það er vegna þess hve oft sá hluti borgarinnar nýtur skjóls frá Esjunni í norðanáttum, en hins vegar stendur í þeirri vindátt, þegar hún hefur einhvern kraft, strókurinn út Hvalfjörðinn og yfir gömlu höfnina og borgina vestan Rauðarárstígs. 

Á sama tíma getur verið logn í Elliðaárdal. 

Á góðviðrisdögum á sumrin byrjar oft svala hafgolu að leggja úr norðvestri yfir borgina vegna þess að land hitnar fyrir austan hana og þar stígur hlýtt loft upp, fyrst vestast en síðan austar. 

Í loftbelgsferð 1986 var gott veður, svo að belgurinn steig rólega upp við Hlíðarenda og barst síðan rólega með hafgolunni austur eftir Fossvogsdalnum norðanverðum svo lágt yfir húsin, að hægt var, þegar kynding belgsins var ekki í gangi, að tala við fólk sem var þar í sólbaði á svölum!

En þegar komið var austur í Elliðaárdal var komið inn í ókyrrð, sem gerði lendningu erfiða. 

Þarna var heitur lofthitapottur þar sem ósýnilegt loftið kraumaði!

Margir muna eftir hávaðanum, sem fólk í nágrenni háu blokkanna við Höfðatún kvartaði yfir þegar hvasst var. 

Komið hafa skilyrði sem hafa verið þannig í stífri norðanátt, að strekkings norðanátt hefur ríkt á norður-suður flugbrautinni og flugvélum verið beint þangað inn úr suðri til lendingar, en hafa síðan orðið að hætta við lendingu, af því að yfir Kópavogi var vindáttin úr suðri! 

Í blokkinni sem síðuhafi býr í, eru tröppur niður í geymslukjallara þannig staðsettar, að í helstu rok vindáttinni úr austri, stendur vindstrengurinn meðfram húsveggnum þannig að tröppurnar hafa orðið hálffullar af öllu því lausa drasli, sem fýkur meðfram langri húsaröð fyrir austan blokkina.   


mbl.is „Reynslumiklir“ og „þolinmóðir“ á Hafnartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband