"Manstu gömlu jólin?" Bestu jóla- og nýárskveðjur.

Í textanum "Er liða fer að jólum..." er viljandi minnst á þær skuggahliðar jólanna sem felast í hrollköldu skammdeginu og orðinu jólakvíði.

Þetta eru línur eins og "drungi í desember..", - "mykrið er svo magnað..." - "Þótt margir  finni´ei frið / og fari við gæfuna´á mis..." sem teflt er gegn öðrum línum sem benda á það sem lá að baki jólunum að fornu, bæði í heiðnum og kristnum sið: 

Að vinna gegn myrkri og kulda hávetrarins með því að gera sér glaðan dag, njóta þeirrar staðreyndar að sólargangur fari að lengjast og sól að hækka á lofti og vinna á móti skammdeginu með því fylla loftið af ljósum eftir bestu getu og skapa "líflegan ys og þys...". 

Á facebook-síðu minni er að finna lagið "Manstu gömlu jólin" sem Ragnar Bjarnason söng inn á lítinn disk fyrir tólf árum í miðju Hruninu, sem gefinn var út í tilefni af þeim hremmingum, sem þá gengu yfir. 

Lagið hefur ekki verið flutt á ljósvakamiðlum svo vitað sé en er viðeigandi nú, ekki síst vegna þess að árið 2020 er dánarár þess mikla vinar míns í meira en 60 ár og hans er sárt saknað. 

Ljóðið við lagið "Manstu gömlu jólin" á að minna á þau gildi jólanna sem vísa til nægjusemi og æðruleysis, og SÁÁ álfarnir tveir því táknrænir í hinni einföldu leikmynd og upptöku myndar og hljóðs úr diskaspilaranum.   

Jóla- og nýárskveðjur þessarar bloggsíðu eru því fólgnar í textanum, sem hér birtist, og þess ber merki í síðustu setningunni, að haustið 2008 vissi enginn um að réttum 12 árum síðar yrði skæður heimsfaraldur helsta einkenni mannheima.  

MANSTU GÖMLU JÓLIN?

 

Manstu gömlu jólin; mjúkan, hvítan snjó?

Manstu, hvað við vorum glöð og áttum alltaf nóg. 

Það var margt svo einfalt, sem gladdi okkar geð

er gjafirnar við tókum upp við gamla jólatréð. 

 

Þá áttum við stundir, sem aldrei gleymi ég,

en ævinlega lýsa mér um lífs míns grýtta veg. 

Það er ekki´allt fengið keypt dýrum dómum hér

en dýrmætara er að kunna´að gefa´af sjálfum sér. 

 

Ég bið að gömlu jólin birtist mér á ný, 

og besta jólagjöfin verði´að falla faðm þinn í. 

 

 

 


mbl.is Jólavaktin hátíðleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fokið í flest skjól ef ekki er hægt að treysta flugmálayfirvöldum.

Fyrr í pistlum á þessari bloggsíðu hefur því verið lýst hvernig flugmálayfirvöldum og flugvélaframleiðendum hefur margsinnis í flugsögunni tekist með vönduðum rannsóknum og endurbótum í kjölfar stórslysa að komast að orsökum slysanna og kalla fram endurbætur sem hafa gert viðkomandi flugvélar eins öruggar og hægt var að ætlast til. 

Þessi aðferð, allt frá stórfelldum aðgerðum vegna De Havilland Comet til afmarkaðri orsaka og endurbóta seinni tíma þotna eins og DC-10 og fleiri, hefur verið grunnurinn að því mikla öryggi sem nútíma farþegaflug býr yfir. 

Bæði Boeing verksmiðjurnar og Flugmálastofnun Bandaríkjanna stóðu sig illa varðandi það hvernig ákveðin atriði í hönnun Boeing 737 MAX voru afgreidd voru í flýti á ámælisverðan hátt, sem olli til dæmis til afsagnar yfirmanns hjá Boeing. 

Þar með liggur það fyrir, að ef flugmálayfirvöld, framleiðendur og flugrekendur hafa ekki leyst viðfangsefnin á þann hátt sem skapað hefur flugöryggi okkar tíma í þetta sinn, verður fokið í flest skjól á þessu sviði.  

 


mbl.is Aðstandendur vilja MAX-vélar kyrrsettar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi slagur tekur við af hinum.

Nú eru að verða tíu mánuðir síðan algerlega ófyrirséður bardagi hófst við hina nýju kórónaveiru, sem reyndist verða fyrsta drepsóttin með gamla laginu í heila öld, sem dunið hefur á landsmönnum.  

Í fyrri hluta síðustu aldar var spánska veikin, með ígildi 2000 látinna hér á landi, ekki eini sjúkdómurinn sem lagði slíkan fjölda að að velli. 

Það gerðu berklarnir, sem flestir eru  búnir að gleyma, en réðist oft af fádæmu afli á ungt fólk og lagði það í gröfina eða veitti lífstíðar örkuml eða heilsubrest. 

Fyrsti bíllinn, sem síðuhafi var skráður einn af þremur eigendum að, var lítill Renault Juva2uatre "Hagamús", sem minnti daglega á berklavána meðan hann var á heimilinu, því að hann var einn af mörgum happdrættisbílum SÍBS árið 1948.  

Lög MA-kvartettsins, sem hljómuðu stundum daglega í útvarpinum minntu líka á þennan hræðilega sjúkdóm sem reif til dæmis frænda minn Jón frá Ljárskógum kornungan frá afkomanda sínum og þjóðinni. 

Nú eru að verða kaflaskipti í baráttunni við COVID-19 þegar bólusetningaslagurinnn bætist við sóttvarnarkaflann.  

Sjá má á blogginu þeirri skoðun haldið fram, að svo illa hafi ESB leikið okkur í bólefnismálum að það hafi komið í veg fyrir að hægt hefði verið leikandi að bólusetja alla þjóðina á einni viku nú um þessi áramót. 

Þetta er afar ósanngjörn fullyrðing, bæði, að aðeins það aðþetta hefði verið si svona leikur einn, heldur hefði ekki síður gert okkur Íslendinga fræga að endemum meðal þjóða að frekjast sem guðs útvalin yfirburðaþjóð fram fyrir alla í þeim slag, sem nú tekur við af hinum í baráttunni við farsóttina.  


mbl.is Spurt og svarað um væntanlegt bóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband