Konurnar áttu kvöldið.

Það má segja að konurnar hafi átt kvöldið í valinu um Íþróttamann ársins, með lið ársins, þjálfara ársins og íþróttamann ársins í efstu sætum. 

Einkum var þetta kvöld Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, sem hlaut hinn eftirsótta titil í annað sinn, líklega fyrsta konan, sem það afrekar, og þar að auki með fullt hús stiga í atkvæðagreiðslunni og hæsta stigafjöldann í 65 ár. 

Það var til marks um víðsýni að Haukur Gunnarsson hlaut þann verðskuldaða heiður að vera tekinn inn í Frægðahöll ÍSÍ. 

Til hamingju!  


mbl.is Sara Björk er íþróttamaður ársins 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Messilykt" af marki Gylfa.

Alveg frá því að mark Gylfa Þórs Sigurðssonar var sýnt í sjónvarpi hefur síðuhafi gerst svo djarfur að segja, að það hafi verið ákveðin "Messi-lykt" af því. 

Nú hefur það verið skoðað betur af fróðum mönnum og skilgreint í hverju snilld Gylfa var fólgin, ekki síst skynbragð á stöðu og tíma sem skapar hárfínt en þröngt færi, sem hann nýtir 100 prósent. 


mbl.is Völlurinn: Mark Gylfa krufið til mergjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorrablótin eftir páska?

Ef þorrablótum yrði frestað, hve löng gæti sú töf orðið?  Þótt fljótlega berist athyglin að páskunum og að vitað sé að jólin séu upphaflega heiðin hátíð á Norðurlöndum, er spurning hvort það sé ekki full bratt að vera með þorrablót á hinni grónu kristnu hátíð. 

Þegar litið er á aðstæður kemur í ljós að meðalhiti í apríl er aðeins 2,9 stig í Reykjavík og að þess vegna gæti komið til greina að þorrablótin yrðu eftir páska, sem lýkur 5. apríl. 

Þá er enn er vetur á almanakinu og þau gætu staðið fram að 1. maí og jafnvel fram undir mæðradaginn, sem er 9. maí.  

Að vísu verður mun meiri og bjartari sólargangur í lok vetrar en er í febrúar, en aldrei verður á alveg allt kosið við svona tilfærslu, og í lok janúar er hvort eð er víða haldið hátíðlegt að sólin fari hækkandi. 

Síðan má athuga hvort hægt sé að dreifa þorrablótunum yfir fjóra mánuði og fara afar varlega af stað en sæta færis við að auka fjörið, en þó ætíð í samræmi við aðstæður í sóttvarnarmálum. 


mbl.is Verða þorrablótin haldin í apríl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endastöð "sænsku leiðarinnar"?

Í níu mánuði hefur "sænska leiðin" í sóttvörnum verið áberandi í fréttum víða um heim, vegna þess hve mun lausbeislaðri varnirnar hafa verið þar en í öðrum löndum. 

Nú kemur endanlega í ljós sú útskýring á setningu nýrra sóttvarnarlaga, að stórlega hafi skort lagaheimildir til nægilegra aðgerða, en í upphafi var aðallega talað um að orsökin væri önnur sýn sænskra sóttvarnaryfirvalda á viðfangsefnið en hjá öðrum þjóðum.

Með nýjum og stórum skýrari og róttækari heimildum í nýju lögunum, sýnast þau merkja endastöð sænsku leiðarinnar eftir að ókostir hennar blöstu við. 

Það hefur kostað mörg mannslíf, því miður, næstum tíu sinnum fleiri en hjá okkur, miðað við höfðatölu, en ljós punktur er kannski sá lærdómur sem af því má draga.  


mbl.is Auknar heimildir til lokana í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband