Bob Herendeen átti upphaflega að rjúfa hljóðmúrinn.

Chuck Yeager og Bob Herendeen voru tveir af færustu flugmönnum Bandaríkjanna þegar þeir voru valdir ásamt Bob Hoover til þess að fara í fyrsta flugið þar sem hljóðmúrinn yrði rofinn á Bell X-1. pitts_s1ss_promo_pic_600x336_trans

Herendeen átti að gera þetta, en henn, Yaeger og Bob Hoover  æfðu sig jafnmikið, því að mikið var lagt upp úr því að þessi mikilvæga tilraun heppnaðist fullkomlega og forföll settu ekki neinn strik í reikninginn.  

Herendeen hafði gaman af því að fljúga listflug og varð það á, að koma of lágt út úr einni æfingu þannig að flugvél hans straukst harkalega við jörðu þegar hún kom niður úr "lykkju" ("loop") , án þess þó að Bob meiddist. 

Þótti hann sleppa ævintýralega vel, en þetta var talið agabrot og þess vegna varð niðurstaðan að Yaeger færi í þetta fræga flug og valdi hann Bob Hoover til þess að vera fylgdarflugmlaður og til vara. 

Þeir Chuck Yaeger, Bob Hoover voru samherjar í öflugri framvarðasveit bandarískra flugmanna eftir Seinni heimsstyrjöldina, og á sjöunda áratugnum opnaði tvíþekjan Pitt Special möguleika fyrir Herendeen að komast í fremstu röð bandarískra listflugmanna. 

Þá var komið til skjalanna heimsmeistaramót í listflugi þar sem sérsmíðaða tékkneska flugvélin Zlin færði Austur-Evrópumönnum heimsmeistaratitilinn. 

Ein slík flugvél var flutt inn hingað til lands. 

En Herendeen lék hins vegar slíkar listir á hinni smáu en knáu tvíþekju Pitt Special bæði á flugsýningum og í keppni, að Bandaríkjamenn ákváðu að gera atlögu að veldi Sovétmanna á HM. 

Pitt Specialvélin hafði þann kost, að hún var afar smá og léttbyggð og að hægt var að troða í hana mun aflmeiri hreyfli en í Zlin og auk þess gáfu hinir stuttu tvíþekjuvængir henni gríðarlegan veltihraða. 

Á þessum árum og lengi eftir það var talið að Bob Herendeen væri sá flugmaður sem best allra hefði náð tökum á þessari frábæru listflugvél, sem upphaflega hafði ekki verið hönnuð sérstaklega fyrir listflug, heldur sem heppileg flugvél til heimasmíða. 

Á síðustu árum hafa algerlega sérsmíðaðar evrópskar listflugvélar náð lengra en Pitt Special í hinum sérhönnuðu æfingum á meistaramótum í listflugi, en samt heldur Pitt Special furðu vel sínu striki.  

Undanfarin ár hefur Sean Tucker náð einna frábærustu tökunum á þessari afburða flugvél og þrátt fyrir að vera kominn að sextugu haldið sínu með þrotlausum æfingum, jafnvel daglegum þrek og kraftæfingum í líkamsræktarstöð. 

Herendeen lést 1994 en með Chuck Yager er genginn einn af þeim frumherjum, sem leiddu framfarir í flugi á síðustu öld. 

Þeir þekktustu voru upphaflega orrustuflugmenn, sem gerðust reynsluflugmenn, svo sem Bob Hoover, sem sýndi listflugatriði á flugsýningum á klunnalegri tveggja hreyfla Shrike Commander flugvél, sem enginn annar gat sýnt eða hefur getað sýnt. 

Og þetta gerði hann fram til 77 ára aldurs. 

Í viðtali við hann 77 ára gamlan eftir að hafa framkvæmt þetta algerlega einstæða atriði á Sun and Fun flugsýningunni í Florida var hann spurður, hvort hann hefði ekki áhyggjur af því hvernig það færi ef það kæmi að því að honum mistækist. 

Hann svaraði samstundis: "Don´t worry; I will be the first to know."

Síðar þetta ár hætti hann áður en nokkur annar fengið uppgefið hvers vegna. 

Bob Hoover lést 94 ára gamall. Hann, Bob Herendeen og Chuck Yaeger, ógleymanlegir frumherjar í flugi og Hoover talinn einn fremsti flugmaður allra tíma.  

 


mbl.is Chuck Yeager látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtistaður númer eitt í áratugi. Enn vantar rétt lagaðan samkomusal.

Víða um lönd eru skemmtistaðir sem eru blanda af veitingahúsum og samkomusölum með sætum eingöngu. Víðast er hægt að bjóða upp á aðra hvora af þessum tveimur uppstillingum. 

Frægasta dæmið er líklega Rauða myllan í París, þó ekki væri nema fyrir samnefnda kvikmynd og einkennislag hennar sem varð vinsælasta lagið í Evrópu og víðar á meðan myndin var í sýningu. 

Percy Faith samdi og útsetti lagið sem er alltaf jafn fallegt og klassískt. Hér heima söng Alfreð Clausen lagið, sem hét einfaldlega "Lagið úr Rauðu myllunni."

Tímamót urðu í íslensku samkvæmislífi og skemmtanahaldi þegar Gyllti salurinn á Hótel Borg var tekinn í notkun 1930. 

Þar hóf síðuhafi sinn feril 1958. 

Gyllti salurinn hélt velli sem stærsti salurinn af þessu tagi í rúm 30 ár, þangað til aðeins stærri salur var tekinn í notkun í nýju húsi við Skaftahlíð og fékk hinn nýi salur heitið Lídó. 

Báðir salirnir voru einfaldir í laginu, réttir ílangir ferningar með sviði í öðrum endanum. 

Eina samkomuhúsið á landinu sem var þó með "rétt" lag var mun minni salur í Bæjarbíói í Hafnarfirði en þar var ekki gert ráð fyrir aðstöðu til veisluhalds.

Með réttu lagi er átt við það, að salurinn sé mjórri í þann endann þar sem sviðið er, þannig að áhorfendasvæðið sé með vægu blævængslagi og breikki í átt frá sviðiu. 

Á þann hátt nær til dæmis einleikari bestu augnsambandi við samkomugesti og sem fæstir þurfi að horfa á ská á þann, sem er á sviðinu.  

Lídó hélt sessi sínum ekki lengi, því að 1965 tók Hótel Saga til starfa með stærsta skemmtistað/sal landsins, sem fékk heitið Súlnasalur. 

Það var dæmi um gildi stærðarinnar, að tvö fínustu samkvæmin á sjöunda áratugnum voru haldin í Lídó og á Hótel Sögu.

Í Lídó 1964 þegar forsætisráðherra Dana Jens Ottó Kragh var þar heiðursgestur ásamt hinni glæsilegu eiginkonu sinni, leikkonunni Helle Virkner á árshátíð Blaðamannafélags Íslands, en í Súlnasal Hótel Sögu nokkrum árum síðar þegar Edward Heath forsætisráðherra Breta var heiðursgestur á árshátíð blaðamanna.  

Þótt Súlnasalurinn fengi strax sess sem samkvæmissalur númer eitt á landinu, vegna stærðar og góðrar tækni, var það í raun kraftaverk, því að leitun er að sal, þar sem augljósar meginreglur um sali eru jafn þverbrotnar. 

Salurinn er í meginatriðum eins og stafurinn L í laginu, og sá, sem þar kemur fram, stendur þannig, að hann horfir aðeins framan í þriðjung samkomugesta sem sitja í bjúglaga miðju salar, en verður að snúa sér rösklega til vinstri til að sjá gestina í þeirri álmu salarins, en snúa sér enn meira til hægri að sjá hluta af þeim sem sitja í álmunni til hægri. 

Ef húsfylli er, sér hann ekki hluta gestanna þar og gestirnir sjá heldur ekki hann!

Í hvert skipti sem hann snýr sér í átt til annarar álmunnar, snýr hann baki við hinni. 

Tæknilega vandamálið varðandi dansgólf var leyst á snjallan hátt með því að láta hringlaga hluta þess hvíla á lyftuörmum, sem hægt var að tjakka upp og gera að sviði. 

Þessi búnaður er merkur í menningarsögu okkar og ber að varðveita. 

Á áttunda áratug síðustu aldar stóð Ólafur Laufdal af miklum myndarskap fyrir gerð stærri skemmtistaðar með nafninu Broadway og bætti um betur með enn stærri skemmtistað, blöndu af veitingastað og samkomusal með sama nafni á nýju Hótel Íslandi. 

Þar var aðstaða til að láta hóp koma upp úr gólfinu á hluta þess, sem var knúinn lyftubúnaði.  

Þrátt fyrir þá miklu framför sem fólst í Súlnasal og Broadway í Mjódd og síðar á Hótel Íslandi, stóðst enginn þessara sala þá grundvallarkröfu, að beint sjónsvið sé ævinlega á milli sviðs og salar. 

Þegar Victor Borge skemmti á Hótel Íslandi, sneri hann sér fyrst beint fram að þriðjungi gesta, en sneri hliðinni að tveimur þriðju; síðan prófaði hann að snúa sér beint til vinstri og snúa þá til hliðar að þriðjungi gesta og baki að þriðjungi; en að lokum prófaði hann snúa til hægri að þriðjungi gesta, snúa hlið að þriðjungi og baki að fólkinu til vinstri. 

Að þessu loknu valdi hann fyrsta kostinn að nýju, að snúa beint fram að þriðjungi gesta en hafa tvo þriðju á hlið! 

Síðuhafi mun væntanlega ekki lifa það að sjá gerðan stóran skemmtanastað í Reykjavík sem verði jafnoki húsanna á Ólafsvík og í Stykkishólmi hvað varðar það að salurinn standist meginkröfuna um sjónlínu á milli sviðs og gesta, sem áðan var lýst. 

Í báðum þessum húsum eru salirnir blævængslaga líkt og salurinn í Bæjarbíó og gólfinu hallar frá gestum að sviði. 

Í húsunum á Snæfellsnesi er salargólfið í stöllum til að ná fram sem bestu útsýni, en einnig að gefa færi á að hafa þar borð þegar veislur með skemmtiatriðum eru haldnar.  


mbl.is Hótel Saga í nýtt hlutverk?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband