Trump: WHO ber ábyrgð á minnst 95% dauðfalla af völdum COVID-19.

Línur hafa heldur betur skýrst á fundi Bandaríkjaforseta í dag, þar sem hann fór mikinn. 

Samkvæmt frétt dagsins, sem barst á ljósvakann um ellefuleytið að íslenskum tíma, hefur forsetinn komist að því að WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, beri beina ábyrgð á að minnsta kosti 95 prósentum af öllum dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar, ef ekki enn meira, og eigi að sæta ábyrgð fyrir það.

Forsetinn ætlar að láta ríkisstjórn sína stöðva framlög til stofnunarinnar verði á meðan "farið sé yfir það, hvernig stofnunin hafi brugðist í baráttunni gegn kórónuveirunni og reynt að hylma yfir útbreiðslu hennar."

En þarf þess nokkuð, úr því að Trump veit þetta manna best og er meira að segja með útreikninga á því hve mikil ábyrgð WHO sé?

Línurnar virðast heldur betur hafa skýrst ef hinn eini sökudólgur er fundinn og meira að segja búið að reikna út, að WHO hafi margfaldað fjölda látinna minnst tuttugufalt. 

Nú geta forsetinn og ríkisstjórar vestra hætt að karpa um það hvorir hafi ekki staðið sig sem skyldi úr því að allt, eins og það leggur sig, er WHO að kenna. 

Eða eins og þeir Bud Abbott og Lou Costello sögðu í frægu spjalli: "Who´s on first". 

Forsetinn varpaði upp alls konar ágiskunartölum um framleiðslu á sjúkrarúmum og sögum af auðum spítölum og ónotuðu sjúkraskipi og ekki síst var honum hugleikin talan 2,2 milljónir látinna í Bandaríkjunum, sem sett hefði verið fram sem ágisksun varðandi verstu niðurstöðu. 

Hróðugur endurtók hann það, sem virðist eiga að verða veganesti fyrir hahn í kosningabaráttunni á árinu, að hann muni sjálfur persónulega bjarga lífi mörg hundruð þúsunda manna. 

Á þennan hátt stillir hann upp einföldu módeli, sem hafa skuili í huga: WHO beri ábyrgð á  dauða hundruð þúsunda manns, og hann sjálfur muni bjarga lífi hundruð þúsunda manna gott ef ekki hátt á annarri milljón manna. 

Slíkur afreksmaður getur ekki annað en undið stórsigur í kosningum, er það ekki?


mbl.is Trump hjólar í WHO og hótar að stöðva fjárframlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti ástandið á Vestfjörðum verið dýrmætt rannsóknarefni?

Það blikka rauð ljós þegar tölur, svo sem varðandi nýsmit, eru svipaðar á Vestfjörðum og á landinu öllu, utan Vestfjarða, því að á Vestfjörðum búa aðeins 2 prósent þjóðarinnar. 

Þetta ástand fyrir vestan er alvarlegt mál, en að sama skapi vaknar spurning um, hvort þar gæti leynst dýrmætt rannsóknarefni, til dæmis með víðtækum viðbótarmælingum, sem gæti varpað betra ljósi en þegar hefur verið varpað á eðli og útbreiðslu farsóttarinnar. 

 


mbl.is Skimun á Vestfjörðum hefst á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræðið hlýtur að vera yndisleg huggun fyrir marga.

Fyrir aðdáendur Donalds Trumps hér á landi og í öðrum löndum hlýtur það að vera mikil huggun að þessi valdamesti maður heims og mesti yfirburðamaður meðal Bandaríkjaforseta, allt frá dögum Lincolns að eigin sögn, lýsir því yfir og hegðar sér væntanlega í samræmi við þá yfirlýsingu, að samkvæmt fjölda ótilgreindra greina í stjórnarskránni séu völd hans "algjör." 

Ekki hafði hann þó fyrir því, þegar þessi tímamótayfirlýsing var gefin, að vitna í þessar greinar í stjórnarskránni, sem hann hafði unnið eið að að virða þegar hann var settur í embætti. 

En lét fylgja með, að hann myndi þó náðarsamlegast gefa öðrum hlutdeild í þessu einræðisvaldi að eigin vali, ef honum þóknaðist það.  

Aldrei lýstu mikilhæfustu forsetar Bandaríkjanna yfir því að að þeir væru einræðisherrar, svo sem F.T. Roosevelt, sem þvert á móti þreyttist ekki á því til orðs og æðis að fá landa sína til þess að berjast gegn þeirri alræðis- og einræðishugsun, sem þá var rómuð af mörgum af fylgjendum helstu einvalda þeirra tíma í Evrópu. 

Huggun fylgjenda Trumps hlýtur að vera enn meiri en ella við að heyra þessa yfirlýsingu hans, vegna þess, að helsti kostur hans er talinn vera sá að hann framkvæmi það sem hann segir; nokkuð sem amlóðarnir á undan honum gerðu víst alltof sjáldan. 

Að eigin sögn munaði aðeins 10 mínútum, að hann fyrirskipaði allsherjar árás á Íran til að sprengja það land í tætlur. 


mbl.is Trump segir völd sín „algjör“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband