Stöðvaður af lögreglu fyrir að stela eigin bíl.

Júnínótt eina fyrir tveimur áratugum vöknuðum við hjónin við það að þrír unglingspiltar voru að hamast við að komast inn í tvo örlitla Daihatsu Cuore bíla, báða bláa, sem ég átti og stóðu fyrir framan bílskúr í stæði, sem þeir gátu staðið hlið við hlið, vegna þess hve mjóir þeir voru. 

Ég dreif mig í föt og hringdi um leið á lögregluna, en þegar komið var út, var annar bíllinn horfinn og kominn niður á autt malarsvæði við Fjölbrautarskólann við Ármúla, þar sem þjófarnir voru að leika sér að því að spóla honum. 

Ég spurði lögregluna að því hvar hún væri, og þegar hún svaraði því til, að hún kæmi úr vesturátt til að góma piltana, ákvað ég að hoppa upp í hinn Cuore-bílinn og fara austur fyrir skólann og freista þess króa bílinn inni með því að koma að honum úr þeirri átt úr því að lögreglan kæmi úr hinni áttinni. 

En um það bil sem ég kom vestur eftir Ármúlanum og var að verða heitur, kom lögreglubíll á móti mér, setti sírenuna og blikkljós á og stöðvaði mig með því að aka þvert fyrir bíl minn og alveg upp að honum. 

Annar lögregluþjónninn kom út úr lögreglubílnum og gekk ábúðarfullur upp að framhurðinni þar sem ég var búinn að rúlla rúðunni niður og nú hófst skondið samtal, orð löggunnar eru skáletruð með feitu letri: 

"Heyrðu, vinurinn, þú ert á stolnum bíl."

"Hvað, ég? Nei, nei, ég á þennan bíl sjálfur." 

"Ekkert svona, það var verið að tilkynna um að þessum bíl hefði verið stolið." 

"Já, það var ég sem gerði það." 

"Þú, sem gerðir það; að stela eigin bíl? Kanntu annan?"

"Nei, ég á bílinn, sem var stolið." 

"Já, sem þú ert sjálfur á. Þessi er nú með þeim betri. Viltu ekki koma yfir til okkar og blása í blöðru hjá okkur." 

"Nei, ég tilkynnti ykkur að bíllinn væri með einkanúmerinu Streit, en þessi bíll er með númerið A-867." 

"Já, vinurinn, það er ekkert að marka það. Þú platar okkur ekki." 

"Ekkert að marka það? Sérðu ekki númerið?"

"Jú, en við þekkjum það vel, að það fyrsta sem þjófurinn gerir oft, er að skipta um númer. Komdu nú."

Í flýti fálmaði ég eftir skoðunarvottorðinu fyrir bílinn og sýndi löggunni það. 

"Sérðu hérna stendur það, A-867, Daihatsu Cuore árgerð 1987. Það er þessi bíll, sem ég er á núna, en hinn bíllinn er líka blár Cuore, með einkanúmerinu Streit og ég á hann líka."

"Af hverju sagðirðu það ekki strax?"

"Ég sagði ykkur það strax, að það væri búið að stela bílnum mínum, sem væri með númerið STREIT. Og nú eru þjófarnir búnir að fá nægan tíma til þess að láta sig heldur betur hverfa." 

Bíllinn fannst tveimur dögum seinna, gerónýtur í Hafnarfirði. Og lögreglan þar útskýrði fyrir mér, að það væri þekkt tilbrigði við bílþjófnaði að skipta liði og brjótast inn í tvo bíla á stuldarstaðnum og fara í burtu á þeim sem fyrr færi í gang. 

Ég hitti Jón Geir Þórisson yfirlögreglumann á rölti uppi í Útvarpshúsi, sagði honum þessa sögu og spurði hvort hann vissi hvaða lögreglumenn gætu hafa verið þarna á vakt. 

Hann rak upp skellihlátur og svaraði: "Mig grunar það," en vil ekkert um það segja. Er ekki nóg fyrir ykkur sjónvarpsfólkið að hafa ykkar eigin Geir og Grana."

Ég jánkaði því, enda hefði fengist dýrmæt reynsla af þessu atviki sem gæti verið til leiðbeiningar í framtíðinni fyrir bílaeigendur. 

Hann varð eitt spurningarmerki í framan. 

"Hvaða lærdómur er það? spurði hann. 

"Sko, sjáðu til. Ef það er stolið bíl frá þér, skaltu ekki elta þjófana á alveg eins bíl." 

 


mbl.is Sektaður fyrir framan eigin innkeyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra spurningin: Samkeppnistaða Íslands meðal landa heims eftir faraldur?

Ferðaþjónustan er lömuð, hótelin, veitingastaðirnir og allt annað tómt. En við eigum áfram öllu hótelin og aðrar eignir tengdar ferðaþjónustuni, þannig að ef sá dagur kæmi að engin hætta væri á farsótt og kórónuveirutímanum lokið, og nægt starfsfólk fæst, væri tæknilega hægt að byrja að nýju við að ná fyrri styrk. 

Þá er stóra spurningin, hver samkeppnistaða Íslands sem ferðamannalands verður. Vegna samdráttar á efnahagssviðinu verður fjarlægð landsins kannski dragbítur, en á hinn bóginn er það, sem við höfum helst að selja, upplifun, fámenni, víðerni og dreifbýli jákvæð og örvandi atriði.  


mbl.is Er ekkert að fara til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband