74 á milljón látnir í Þýskalandi, 36 hér á landi.

Ríflega tvöfalt fleiri hafa dáið úr COVID-19 í Þýskalandi á hverja milljón íbúa heldur en hér á landi.

Hér á landi er talan 32 á hverja milljón íbúa, en 74 í Þýskalandi. 

Ef miðað er við þessar tölur einar, erum við Íslendingar mun betur á vegi staddir en Þjóðverjar og því ætti ekki að vera eins mikil hætta á slæmu bakslagi hér á landi og þar, ef slakað verður á ráðstöfunum gegn veirunni.  

 


mbl.is Smitum fjölgar eftir tilslakanir í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalvandinn hefur blasað við frá upphafi.

Ansi margir hafa orðið til þess frá upphafi til þessa dags að boða þá almennu leið í sambandi við Covid-faraldurinn, að sem minnst sé gert til að sporna við honum og afleiðingum hans, heldur komi best út að lokum, að sem flestir smitist, svo að það skapist hjarðónæmi. 

Snjallsímamyndir, sem bárust frá Kína í upphafi faraldursins þar, sýndu hins vegar allri heimsbyggðinni vel, líka forseta Bandaríkjanna, hvílíkt hörmulegt öngþveiti örvæntingar,  örmögnunar og dauða slíkt leiddi yfir fólkið í heilbrigðisstéttunum og aðra, svo sem útfararstofur, líkbrennslufyrirtæki og lögreglumenn. 

Ástandi sem olli algeru hruni alls þjóðlífsins. 

Kínverjar misstu fljótt lækninn, sem fyrstur kallaði á tafarlaus viðbrögð, og nú hefur svipað gerst í New York. 

Það fráfall sýnir líka þá hlið málsins, sem skautað er hjá í hinum köldu útreikningum, að hið andlega áfall fjölda fólks í hremmingum drepsóttarfaraldurs getur ekki síður tekið á sig ógnvænlegan toll en drepsóttin sjálf. 

Einnig er nú að koma í ljós hvílík fásinna það var í upphafi hjá sumum þjóðum að slá svo slöku við skimun, að margfalt fleiri voru sýktir en tölur sýndu, til dæmis hjá Bandaríkjamönnum og Bretum. 

Meðmælendur eftirsóknar eftir hjarðónæmi mæla nú margir með því að áhrifin á þjóðlífið fái meðferð í þeim anda með því að "spara stórfellda fjármuni" á þann hátt að veita atvinnulífinu enga styrki, heldur aflétta öllum takmörkunum og lofa veikinni að hafa sinn gang og lofa þeim fyrirtækjum að fara á hausinn, sem eigi það skilið hvort eð er. 

Með slíku er því alveg sleppt úr sparnaðarreikningnum hvaða áhrif á efnahagslífið stórfellt atvinnuleysi og tekjuleysi atvinnulífsins hefur í beinhörðum peningum og tapi. 

 


mbl.is Þekktur læknir í New York látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögðin við "kaldhæðninni" líka kaldhæðnisleg. Hvað með segularmböndin?

Ef ummæli Trumps um malaríulyf með "terrific" lækningarmátt og notkun þess, sótthreinsivökva og annarra galdrameðala hafa að hans sögn verið sögð sem kaldhæðni, eru áhrif þessara ummæla það ekki síður. 

Þau felast í slíkri sölusprengingu á malaríulyfinu, að fádæmi teljast, og ekki minnkar kaldhæðnin við það að sumir, sem þurfa nauðsynlega að nota þau á viðurkenndan hátt við ákveðnum kvillum, fá ekki lengur sín nauðsynlegu lyf. 

Allt þetta mál minnir á ákveðið æði, sem gekk hér á landi í kringum 1964 og fólst í svokölluðum segularmböndum, sem áttu að hafa einstæðan lækningamátt og seldust eins og heitar lummur. 

Í tilefni af því voru settar inn í texta lagsins Limbó-rokk-tvist eftirfarandi línur um notagildi þessa þessa fyrirbrigðis: 

 

"...Það eflir hreysti um allt land

    og hefur einkum lækningamátt, 

    sé það dansað með segularmband

    í segulnorðurátt!..."  

 

Þessi kaldhæðni 1964 hafði engin áhrif eða afleiðingar, en öðru máli gefnir um kaldhæðni Trumps, sem setur allt á annan endann. 

En svona er nú munurinn á því að vera mesta ofurmenni í forsetasögu Bandaríkjanna eða bara ótíndur strákbjáni norður á útskeri við heimskautsbaug. 

 

 

 


mbl.is Ummæli um sótthreinsivökva voru kaldhæðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband