"Útskýringar fást hjá dyraverði."

Á sínum tíma voru alþjóðastofnanir eins og WHO, World Health Organitation, Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, settar á laggirnar til þess að tryggja, að á einum stað væri að finna öll bestu ráðin í einstökum málaflokkum og besta og skilvirkasta útfærslan á alþjóðavísu í hraðvaxandi alþjóðasamskiptum á grunni samskiptaframfara. 

Það fyrsta, sem Íslendingar gerðu á lýðveldisárinu 1944 á þessu sviði, var að gerast sem fullvalda lýðveldi aðili að ICAO, Alþjóða flugmálastofnuninni. Allar þær fullvalda þjóðir, sem voru þar aðilar, afsöluðu sér hluta af valdi sínu til þess að til dæmis væri hægt að skipuleggja alþjóðaflug og flugrekstur eftir samræmdum reglum og koma í veg fyrir ringulreið og öryggisleysi. 

Síðan 1944 höfum við á svipaðan hátt orðið aðilar að ótal alþjóða- og fjölþjóðastofnunum og samstarfi á hinum ýmsu sviðum. 

Bandaríkin voru og hafa verið meðal helstu forystuþjóða í þessum efnum þar til nú, að hótað er af þeirra hálfu að draga sig út úr slíku, ekki bara varðandi WHO, heldur víðar. 

Bandaríkjaforseti hefur haft sérstöðu varðandi COVID-19 faraldurinn að kalla veikina alltaf Kínaveikina, af því að hún fannst þar fyrst að einhverju marki. 

Heimsfaraldurinn sé eingöngu Kínverjum að kenna. 

Með sömu rökum hefði mátt kalla spænsku veikina bandarísku veikina eða frönsku veikina, af því að hún barst í upphafi frá Bandaríkjunum til Frakklands og þaðan til Spánar. 

Og eyðni barst frá Afríku til Bandaríkjanna og annarra landa. 

Á sama tíma og ekki er þreyst á að benda á, að kórónafaraldurinn hafi átt upphaf í Kína og orðið miklu útbreiddari þar en kínversk stjórnvöld vilji enn viðurkenna, kemur frá sömu átt krafa um að WHO hætti að veita Kínverjum leiðbeiningar og aðstoð. WHO leggi alltof mikla áherslu á Kína. 

Kallar þessar mótsagnir ekki á útskýringar? 

Í hugann kemur, að þegar Sumargleðin fór á hverju sumri út á land, var það stundum svo, að grín, sem hafði gert sig í Reykjavík um veturinn, vakti ekki hlátur í dreifbýlinu. 

"Það hlær inni í sér" sagði Raggi Bjarna, og það var að vissu leyti rétt, því að þegar frá leið mundi sveitafólkið eftir margfalt fleiru úr dagskránni en Reykvíkingar. 

Samt voru í gríni æfð upp þau viðbrögð við þessu, að á vakt yrði einn Sumargleðimanna við sviðsbrún, og ef ekki yrði hlegið, gengi þessi vaktmaður fram á mitt sviðið og segði hátt og snjallt yfir salinn: "Útskýringar fást hjá dyraverði." 

Fróðlegt væri stundum að heyra útskýringar hjá dyraverði funda Bandaríkjaforseta. 


mbl.is Trump hótar að stöðva greiðslur til WHO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar eitt smáorð; "...eitt..." breytir merkingu stórfréttar.

Ein helsta frétt íslenskra fjðlmiðla í gær voru þau ummæli, sem höfð voru eftir fjármálaráðherra, að efnahagsáfallið núna væri það stærsta í heila öld. 

Fyrst kom þetta í "helsti", síðan í inngangi að fréttinni en í lok fréttar kom síðan í ljós, að í endursögn hafði eitt fjögurra stafa smáorð verið fellt úr ummælunum, því þá heyrðist loksins skýrt og skorinort, að fjármálaráðherrannn sagði: "..jafnvel eitt af stærstu efnahagsáföllum í heila öld." 

Að sleppa orðinu eitt breytir afar miklu, að ekki sé nú talað um bæði orðin, "jafnvel eitt".

Fjármálaráðherra gat fyllilega staðið við að segja "jafnvel eitt af stærstu efnahagsáföllum í heila öld" en alls ekki fullyrt að áfallið nú yrði það stærsta í heila öld. 

Ástæðan er sú, að áfallið má ekki bara mæla í upphæð þess fjár, sem fer forgörðum, heldur ekki síður að meta hve stór hluti hins tapaða fé væri af heildarveltu fjár eða af þjóðarframleiðslunni og þjóðartekjunum í heild. 

Þjóðarframleiðslan í kreppunni 1966-69 var um það bil þrefalt minni en nú, og 1930-1940 var hún enn ninna hlutfall. 1930 var meirihluti sveitabæja á stórum hluta landsins torfbæir, engir bitastæðir vegir, sími og rafmagn utan þéttbýlis, salerni voru fáséð, engir flugvellir, ekki komið vegasamband milli Akureyrar og Reykjavíkur um Hvalfjörð, Vestfirðir vegalausir o.s.frv. 

Efnahagsáfallið 1930 var álíka og að einstaklingur með 100 þúsund króna tekjur á mánuði á okkar tímum yrði fyrir tekjumissi niður í 70 þúsund. 

Og fyrst á annað borð er verið að tala um efnahagsáföll og kreppur, var kreppan 1916-1919 sú langversta á 20. öldinni og náði metdýpt 1917.  

 


mbl.is Lítil bílaumferð komin í jafnvægi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í sóttkví."

Í SÓTTKVÍ. 

 

Í sóttkví er hver og einn sóttvarnarlæknir; 

að sækja á vágestinn vanræki´ei neinn: 

Sem ráðsnjall drepsóttarræstitæknir 

hann reyni að drepa tímann; helst einn. 


mbl.is Í sóttkví en sparkaði í bíla í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband