"Fátt er svo með öllu illt..."

"Fátt er svo með öllu illt, að ei boði gott...".  "Engin vandamál, bara lausnir".  "Neyðin kennir naktri konu að spinna."  "Nú eru góð ráð dýr."

Svona setningar geta oft átt við þegar eitthvað bjátar á og útlitið er svart. 

Stundum birtast lausnir og nýjungar, sem menn hefðu átt að sjá löngu fyrr. 

Corn flakes var fundið upp vegna mistaka í eldhúsi. 

Talskona flugfreyja rifjaði það upp í sjónvarpsfréttum að flugfreyjur hefðu oft veitt Icelandair liðsinni þegar áföll riðu yfir og nefndi sem dæmi gosið í Eyjafjallajökli. 

En þótt gosið ylli mörgum milu búsifjum meðan á því stóð, hefur ekkert eitt hamfaraatvik hér á landi orðið meiri hvalreki efnahagslega meðan á því stóð en þetta gos, sem kom landinu í fyrsta sinn svo rækilega á kortið um allan heim, að nafnið Iceland varð á hvers manns vörum. 

Því hefur áður verið lýst hér á síðunni, að áhrif tveggja metra reglunnar um borð í flugvélum myndi verða reiðarslag fyrir alþjóðaflugið. 

Það yrði í mesta lagi hægt að koma fyrir sextíu farþegum fyrir í 180 sæta vél, og það eitt, auk vandræðanna á leið farþega í gegnum flustöðvarnar í þrengslum ganga og rana. 

Oft þarf að "fara út fyrir kassann" þegar óleysanleg dæmi blasir við, og Sherlock Holmes leysti oft mál með því að fara gaumgæfilega yfir stöðu allra líklegra, og þegar einhver einn var eftir, sem upphaflega var talinn langlíklegastur, hlaut hann að vera sökudólgurinn. 

Þegar litið er yfir farþegarými í flugvélum, sést, að það er ekki hægt að leysa dæmið nema innan þessa rýmis, og að farþegarnir verða að vera langt innan við tvo metra frá hver öðrum. 

Og þá er einfaldlega komið að því, að dæmið verði ekki leyst nema að hægt sé að fylla vélina af farþegum. 

Grímulausn Ryanair byggist á því að það sé hægt og að engin breyting verði gerð á farþegafjölda. 

Svo einfalt er það. 

Flugfélagið Emirates vill setja upp kerfi á flugstöðvum með aðstöðu fyrir sýnatökur, þar sem niðurstöður fáist á tíu mínútum fyrir hvern farþega. 

Og dæmið um starfsmanninn á skiptiborði stórs fyrirtækis í Reykjavík, sem á heima í Þorlákshöfn og hefur farið á hverjum degi fram og til baka frá þeim stað til vinnu. 

Í faraldrinum þurfti hann að fara í sóttkví, og lausnin var að hann leysi starf sitt af hendi heima hjá sér, ekki bara í faraldrinum, heldur gæti hagræðing falist í því til frambúðar að hann haldi áfram að gera það heima hjá sér og sparað með því óþarfa 80 kílómetra akstur á hverjum degi. 

Hliðstæður blasa vafalaust við á mörgum sviðum, sem ekki hefðu orðið til, ef ekki hefði komið til skæð farsótt, sem setti þjóðfélagið úr skorðum.  


mbl.is Nýju reglurnar um borð hjá Ryanair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

75 ára gamalt deiluefni skýtur upp kollinum.

Mismunandi skoðanir hafa alla tíð verið á hernaðarframkvæmdum á Íslandi og öðrum framkvæmdum í sambandi við þær. 

Strax árið 1945 vildi Jónas Jónsson frá Hriflu að Íslendingar samþykktu tilboð Bandaríkjamanna um að þeir fengju að reisa hernaðarmannvirki á Keflavíkurflugvelli, í Skerjafirði og í Hvalfirði, en þá sat svipuð ríkisstjórn og nú situr og Jónas var einn um þessa skoðun á þingi. 

Svonefndur Keflavíkursamningur 1947 um að halda við aðstöðu Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli sprengdi ríkisstjórn Sjálfstæðismanna, Sósíalistaflokksins og Alþýðuflokksins. 

Þegar stríðsgróðinn hvarf 1948 fylgdi kreppuástand sem stóð framundir 1960. 

Koma varnarliðsins til Keflavíkurflugvallar 1951 hafði í fðr með sér talsverðar framkvæmdir þar, sem urðu drjúgur hluti af þjóðartekjum og milduðu kreppuna. 

Ýmsir vildu þó meira og þá varð til stefna, sem nefnd var Aronska eftir aðal forvígismanni hennar. Bandaríkjamenn orðuðu auknar framkvæmdir, meðal annars eflingu aðstöðunnar í Hvalfirði og gerð hraðbrautar frá Suðurnesjum stystu leið upp í Hvalfjarðarbotn um Svínaskarð. 

Einnig var uppi hugmynd um gerð stórs flugvallar nálægt Hellu á Rangárvöllum. 

Á þessum árum voru Framsóknarmenn samfellt í samsteypustjórnum frá 1947-1958 og þegar varnarliðið kom fór nýstofnaður Þjóðvarnarflokkur 1953 að höggva í raðir þeirra. 

Bjarni Benediktsson var mikill áhrifamaður um utanríkismál, og horfði yfir pólitíska sviðið frá víðu sjónarhorni. Í ríkisstjórnasamstarfi Sjálfstæðisflokksins 1947-1956 kom það sér ekki vel ef annar hvor þessara flokka veiklaðist mikið, og kannski hefur það átt þátt í því að Bjarni og fleiri í þessum flokkum lögðust gegn Aronskunni. 

Svo fór samt að Framsóknarflokkurinn fór í forsvar fyrir vinstri stjórn 1956-1958 með hugmyndum um brottför varnarliðsins og aftur 1971-1974. 

Í hvorugt skiptið fór herinn og stór undirskriftarsöfnun, "Varið land", varð til þess 1974, að síðan þá hefur það ekki verið á dagskrá neinnar ríkisstjórnar, hvorki til hægri né vinstri, að láta herinn fara. 

2006 fór hann samt, þrátt fyrir að þáverandi stjórn Sjalla og Framsóknar reyni að fá Bandaríkjamenn ofan af því.  

Í raun hefur Aronskan aldrei horfið alveg af sjónarsviði utanríkismálanna, og nú skjóta upp kollinum gamalkunnug deiluefni um varnarliðsframkvæmdir, bæði beinar og óbeinar 


mbl.is Höfnuðu framkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband