Minnir á "Birgi sjálfan."

Roosevelt ráðsmaður, sem vann fyrir ellefu forseta í Hvíta húsinu er dæmi um dyggan og duglegan starfsmann, sem vinnur fyrir fjölda pólitískra yfirmanna, sem verða að sæta duttlungunum í sveiflum stjórnmálanna. 

Stundum er um að ræða ráðuneytisstjóra, sem ná svo miklum og víðtækum tökum á vinnustaðnum og verkefnunum, að þeir þykja oft á tíðum vera orðnir mikilvægari en yfirmennirnir. 

Humpfrey ráðuneytisstjóri í ensku sjónvarpsþáttunum "Já, ráðherra" þótti lýsa einstaklega vel þeirri stöðu, sem ráðuneytisstjórar eða "undirráðherrar" geta komist í þegar þeir verða svo vel að sér í stóru og smáu í ráðuneytunum, að furðu gegnir. 

Við Íslendingar áttum einn slíkan áður en persónan Humpfrey var sköpuð og var hinn íslenski stjóri ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu á miklum sviptingarárum í íslenskum stjórnmálum eftir að hin þausætna Viðreisnarstjórn fór frá völdum 1971. 

Hann hét Birgir Thorlacius. 

Þá hafði Gylfi Þ. Gíslason verið menntamálaráðherra allt frá 1956, eða í 15 ár og því fyrir löngu orðinn öllum hnútum kunnugur á því sviði. 

Meðal margra sem gegndu starfinu eftir það, var það í minnum haft þegar Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku varð óvænt menntamálaráðherra og allir ráðherrarnir í þeirri stjórn héldu blaðamannafundi með útlistunum á verkefnum nýs ráðherra og oftast með léttum vinveitingum á fundunum; varð fundur Vilhjálms bæði vínlaus og yfirlýsing hans sú stysta í sögunni: 

"Ég er búinn að fara um ráðneytið, hitta alla starfsmenn að máli og komast að þeirri niðurstöðu að mín stefna verði sú að vera ekki að flækjast fyrir fólki, sem er að vinna."

Þetta rímar vel við söguna af því þegar maður einn var búinn að gera nokkrar árangurlausar tilraunir til að hitta menntamálaráðherrann. 

Þegar hann bar upp erindið einu sinni enn, svaraði sá ráðuneytisstarfsmaður, sem varð fyrir svörum:   

"Hann er bara því miður alveg upptekinn, en má ekki bjóða þér að tala bara við Birgi sjálfan?"

 


mbl.is Vann fyrir 11 forseta og lést af völdum COVID-19
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband