Vindmyllur geta verið bæði tækifæri og ógn.

Halldór Magnússon skrifa grein um vindmyllur í Morgunblaðinu og finnur að því að umhverfisverndar- og náttúruverndarfólk láti sér ógn af þeim sér í léttu rúmi liggja. 

Ekki getur síðuhafi tekið það til sín. 

Hér á síðunni hefur margsinnis undanfarin ár verið fjallað um vindmylluæðið, sem nú hefur blossað upp eins og faraldur hér á landi, og í blaðagrein í Fréttablaðinu skrifað síðuhafi grein um aðsteðjandi ógn að náttúru landsins undir heitinu "Tíu vegvísar og heilög vé." 

Þessir vegvísar eru reyndar orðnir 15 nú, og felast allir í yfirlýsingum helstu valdamanna landsins undanfarin ár um þá brýnu þörf "til að vinna gegn orkuskorti íslenskra heimila og fyrirtækja" að fjórfalda eða jafnvel fimmfalda núverandi orkuvinnslu og leggja tvo sæstrengi hið minnsta milli Íslands og Evrópu. 

Myndu íslensk heimili og fyrirtæki þá væntanlega fá til sín 5 prósent þessarar orku en stóriðjan og / eða orkumarkaður Evrópu 95 prósent. 

Fimmtándi vegvísirinn var að detta inn í gær í formi málaferla og mótmæla fjárfestanna gegn því að vindorkan falli undir Rammaáætlun, og skuli vindorkan undanþegin, einfaldlega vegna þess að aðeins vatnsorka og gufuaflsorka sé nefnd í áætluninni. 

Eitt atriði er aldrei nefnt í umræðunni um vindorkuna, en það er sú staðreynd, að í viðhorfskönnun hjá erlendu ferðafólki, hefur það sagt, að háspennulnur og vindmyllur trufli mest og skemmi fyrir upplifun þess af því, sem langflest þeirra eru komin til að njóta; einstæð og ósnortin náttúra Íslands. 

Við þetta má einnig bæta sögufrægustu byggðum Íslands, svo sem sagnaflestu sýslunni, Dalabyggð. 

Þar hafa fjárfestar sýnt einbeittan vilja til að reisa risavaxin vindorkukver við Búðardal og á Laxárdalsheiði. 

Vindorkugarðurinn við Búðardal myndi blasa við frá nær öllu sögusviði Laxdæla sögu, og á þeim forsendum hefur síðuhafi lagst gegn slíku orkuveri þar, nema færð yrðu rök fyrir því að þarna væru bestu aðstæður landsins til að reisa slíkt risamannvirki. Sem er þó er strax hægt að fullyrða, að er ekki raunin.  

Áður en vaðið væri í að umturna öllu útsýni og ásýnd Dalabyggðar væri nauðsynlegt að drífa í því að afmá þá skammarlegu vanrækslu sem falist hefur í því að láta ár og áratugi líða án þess að gera neitt marktækt í því að skoða, hvaða áhrif orkuvinnsla, sem þakið gæti allt landið frá hálendinu og út í sjó, gæti haft. 

Nú kunna einhverjir að segja að það sé alltaf sama sagan, að náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk sé "á móti öllu," "á móti rafmagni" og vilji að þjóðin fari aftur inn í torfkofana." 

En það þarf ekki annað en að fara einn hring um landið til að sjá, að af þeim virkjunum, sem reistar hafa verið, eru tæplega 30 stórar virkjanir, sem þetta voðalega fólk samþykkti, allt frá Sogsvirkjununum til Búðarhálsvirkjunar og stækkunar Búrfellsvirkjunar. 

Vindorkan hefur ýmsa kosti, svo sem að framleiða hreina og endurnýjanlega orku og að mannvirkin eru að mestu afturkræf. 

Sú þögn, sem Halldór Magnússon kvartar yfir, er vegna þess að nauðsynleg vinna við mat á umhverfisárhrifum 34 stórvirjana upp á næstum fimm Kárahnjúkavirkjanir hefur alveg verið vanrækt. 

Byrja þyrfti á því að ákveða, á hvaða svæðum vindorkuverin valda minnstum umhverfisáhrifum og hvar þau valda mestum umhverfisáhrifum. 

 

 


"Þau voru við." "Milljón er tala."

Allt þetta fólk.

Enginn er eins og neinn annar.

Öll þessi líf.

Allar þær sálir, sem endalaus fjölbreytni skannar. 

 

7,7 milljarðar núlifandi jarðarbúa falla undir ofangreinda lýsingu. 

Á þessu ári verða rétt 70 ár, síðan flugvélin Geysir fórst á Bárðarbungu og fór í spað. 

Um borð voru sex manns og á nokkrum dögum urðu nöfn þeirra þjóðþekkt á þann hátt, að fyrir marga,sem þessa daga muna, eru þau öll enn í minni og slysið og einstæðir eftirmálar þess ljóslifandi. 

Björgun bandarísku skíðaflugvélarinnar ofan af jöklinum er eitt af tíu atriðum, sem bandaríska tímaritið Readers Digest birti og taldi vera þau merkustu í sögu flugvélar, sem Eisenhower hershöfðingi nefndi sem eitt af helstu tækjunum, sem bandamenn notuðu til að vinna sigur í Heimsstyrjöldinni. 

Nefna má eitt atriði í sögunni af Geysisslysinu, sem breyttist úr miklu áfalli í það að verða hluti af svonefndu Loftleiðaævintýri, sem einnig varð einstakt í þjóðarsögunni á sinn hátt.

Hugsanlega hefði Geysisslysið ekki greypst á jafn árhifaríkan hátt í þjóðarvitundina, ef hundruð manna hefðu verið um borð.

Ein ástæðan, burtséð frá óvenjulegum aðstæðum, gæti verið sú, að þau voru hæfilega mörg; sex að tölu. Þar með gátu allir tengt sig við þau persónulega; "þau voru við" eins og sagt er í COVID-19 grein um hina dánu í þeim faraldri. 

Þessi orð eru höfð eftir Jósep Stalín:  "Að drepa einn mann er morð. Að drepa milljón manns er tala."

Grimmileg orð en lýsa því fyrirbæri þegar ógnarhá tala verður að persónulausum massa. 

Hliðstæða þess, að þegar myndirnar birtust eftir stríðið af hrikalegum haugum fórnarlamba Helfararinnar, voru þær áhrifamiklar. 

En þegar gerð var sjónvarpsþáttaröð þremur áratugum síðar um eina fjölskyldu, sem lenti í helförinni varð hún miklu áhrifameiri. 

"Þau voru við."  


mbl.is Listi yfir látna á forsíðu: „Ólýsanlegur missir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband