Allar Norðurlandaþjóðirnar lærðu dýrkeypta lexíu.

Sólarlag 8.maí 2020

Í fréttaskýringu í DV í dag kemur fram að Frakkar sæmdu Hermann Jónasson, heiðursorðu fyrir það að hafa sem forsætisráðherra 1939 neitað Þjóðverjum um að reisa flugbækistöðvar hér á landi.

Viðeigandi að setja inn mynd af sólarlagi kvöldsins við flóann þegar minnst er upphaf friðar í Evrópu fyrir 75 árum, sem hefur að mestu leyti enst síðan. 

Höfnun Íslendinga á beiðni Hitlers vakti athygli víða um heim, því að einmitt á þessum tíma skulfu allir í hnjánum þegar Hitler heimtaði eitthvað, og þetta vor lagði hann alla Tékkóslóvakíu undir sig og Mussolini lagði Albaníu undir sig, báðir, án þess að skoti væri hleypt af. 

En það var auðvitað eins og að henda kjötbitum í úlfskjafta og Heimmstyrjöld var skollin á 1. september. 

Það var ekki síður að þakka Agnari Koefoed-Hansen þáverandi flugmálaráðunauti íslensku ríkisstjórnarinnar að hún neitaði Þjóðverjum um aðstöðu. 

Agnar var eini Íslendingurinn á þessum tíma sem vissi allt um evrópsk flugmál eftir að hafa flogið fyrir Lufthansa og í Noregi og orðið kunnugur öllum hnútum hjá Þjóðverjum, Dönum og Norðmönnum.  

Hann gerði Hermanni grein fyrir því að á örfáum árum væri herflugvélafloti stórveldanna að ganga í gegnum hröðustu framfarir á því sviði síðustu tuttugu ár, og að riði á lífi Íslendinga að nýta sér það, að engir flugvellir væru í landinu, og halda flugi hervelda algerlega frá Íslandsströndum.  

Vísasti vegurinn til að dragast strax inn í stríðið væri að lúta fyrir kröfum Hitlers eða neinna annarra. Annars myndi varða barist úm landið strax í upphafi stríðs.  

Agnar var þarna á undan sinni samtíð, því að Norðurlandaþjóðirnar allar stóðu í þeirri trú, að þær myndu geta haldið hlutleysi sínu í styrjöldinni.  

Það var argasta óraunsæi og blekking, sem sést á því að Þjóðverjar réðust á Noreg og Danmörku 9. apríl 1940, Bretar hernámu Ísland 10. maí og Rússar réðust á Finna í desember. 

Svíar sluppu að vísu við beint hernám en voru innikróaðir af Þjóðverjum og bandamönnum þeirra eftir innrás Hitlers í Sovétríkin 22. júní 1940, og urðu til dæmis að neyðast til að leyfa Þjóðverjum að nota járnbraut sína til að flytja herafla frá Noregi yfir til Finnlands og austurvígstöðvanna í Rússlandi. 

Svíar voru aðkrepptir og bjuggu við kröpp kjör á stríðsárunum. Eina þjóðin sem græddi efnahagslega á stríðinu vorum við Íslendingar, en á móti kom missir um 200 manns á hafinu, sem var mikil blóðtaka. 


mbl.is 75 ár síðan nasistar lyftu járnhælnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifasvæðum Covidkreppunnar fjölgar jafnt og þétt; og þau stækka.

Það varð auðvitað strax ljóst í upphafi, að fá lönd myndu verða þegar í stað fyrir eins miklu skelli vegna COVID-19 faraldursins og Ísland, sem er eyja langt úti í höfum og hefur á fáum árum komist í það að byggja stærsta og gjöfulasta atvinnuveg sinn á flugi. 

Þetta stóra áfall hefur þegar skollið yfir, og nú telst það bjartsýni að vonast til að ástandið jafni sig eftir eitt ár. 

Fram að þessu hefur það verið von manna að sjávarútvegurinn myndi sleppa margfalt betur, en nú er að byrja að koma í ljós, að erlendis neyta keppinautar okkar um markaði allra bragða til þess ryðja "óæskilegum erlendum" samkeppnisaðilum frá, og gildir þá einu, að fjórfrelsi ESB gildir bæði um opinn frjálsan markað ásamt frjálsu flæði vinnuafls og fjármagns. 

Rétt eins og í upphafi kreppunnar miklu 1930 er það freisting að hverfa aftur á fullum þunga til helstu atriða búauðgisstefnunnar hér á öldum áður með því að girða heimaframleiðsluna af með verndartollum, innflutningshömlum og beinni stýringu og áróðri fyrir þvi að kaupa ekkert erlent, heldur aðeins innlent. 

Hér heima hefur mátt sjá þær raddir, að það eigi slaka á veiðihömlum og kvótareglum og auka aflann, en þá gleymist, að eftirspurn á erlendum minnkar og það að það muni það leiða til offramleiðslu og birgðasöfnunar, sem getur valdið stórfelldu verðfalli. 

Er dæmalaust verðfall á olíu gott dæmi um slík. Kristallaðist í því ótrúlega ástandi, að framleiðendur borguðu kaupendum fyrir að "kaupa" olíuna á neikvæðu verði!

Það verður að nægu að hyggja fyrir hagfræðinga og stjórnmálamenn að kafa ofan í hinar stórbrotnu hræringar í efnahagsmálum heimsins. 

Of sum viðfangsefnin eru þess eðlis, að lausn þeirra með nýjum viðbrögðum, nýsköpun og frumkvæði við að finna og nýta alveg nýja möguleik getur verið heillandi og notadrjúgt fyrirbæri.  

Enn á ný má sjá glytta í gömlu deilurnar milli hægri og vinstri sinnaðra hagfræðinga og stjórnmálamanna, samanber skrif um það að Harding og Edgar Hoover Bandaríkjaforsetar, sem mestu réðu á árunum 1922-32 hafi ekki verið með lélegustu forsetum BNA, heldur þvert á móti meðal þeirra bestu. 

Einkum hæla þeir sem eru á hægri línunni Harding fyrir það að hafa lækkað skatta um helming, úr 6,5 prósentum niður í rúmlega 3 prósent, og þá einkum með skattalækkunum til hinna efnamestu.   

Roosevelt hafi hins vegar gert hinn mesta óskunda með útþenslu ríkisbáknsins og aðgerðum þess sem stóran hluta af sinni "New Deal" stefnu. 

Og enda þótt vinstri hagfræðingar andmæli þessu kröftuglega og þrátt fyrir að samsetning hagkerfa heims og heimsviðskipti séu allt önnur nú en fyrir 90 árum, eru uppi hinar eilífu deilur um viðbrögð við heimskreppunni sem er hafin og á eftir að berast út í flesta afkima þjóðfélagsins. 


mbl.is Frakkar sagðir sniðganga íslenskar sjávarafurðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíar líklega best útbúnir í byrjun; 290 látnir á hverja milljón - 29 hér á landi.

Í COVID-19 faraldrinum hefur það verið aðaláhyggjuefnið að heilbrigðiskerfi einstakra ríkja; fjöldi sjúkrarúma, vinnufærs heilbrigðisstarfsfólks, öndunarvéla og annarra innviða myndi hrynja við það álag, sem síðar kom á daginn að varð langerfiðasta viðfangsefnið. 

Það var svo sem hægt og hefur verið gert allt til þessa dags, að deila út og suður um alvarleika og smithættu og fjölda sýktra, en myndir úr almennum snjallsímum og ljósmynda- og kvikmyndatökuvélum fjölmiðlafólks, auk þúsunda vitnisburða, sýndu svo átakanlegar og hræðilegar myndir af niðurbroti kerfisins allt frá Wuhan í upphafi í gegnum Ítalíu, Spán og Bandaríkin, að hið hrikalega ástand blasti við, og einkum þar sem innviðir og mannskapur heilbrigðiskerfisins brustu. 

Svíar hafa löngum verið þekktir fyrir afburða gott heilbrigðiskerfi, og hafa því sloppið við þetta, þótt tíðni alvarlegra veikdina og dauðsfalla væri há. 

Nú síðast í bandarísku sjónvarpi í kvöld, í þætti Bill Maher, voru Svíar mærðir mikið. 

En þær tölur, sem segja mest og gefa skásta mynd, er ekki þeim í hag: 290 dánir á hverja milljón íbúa, en tíu sinnum færri hjá okkur, 29. 

Þórólfur gæti því samkvæmt því alveg eins sagt, miðað við þessar tölur, að ef við hefðum farið að eins og Svíar, væru 100 látnir hér á landi en ekki 10. Hæpið er að okkar heilbrigðiskerfi hefði staðist svo heiftarlega árás vágestsins.  

Í kvöld heyrðust í útvarpi ömurlegar frásagnir af því hve illa flestir hefðu farið út úr því að bjargast í öndunarvélum á Reykjalundi. Hefði verið betra ef þeir hefðu verið tíu sinnum fleiri? 


mbl.is 70 hefðu látist með „sænsku leiðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband