Einn smitaður í vísitölufjölskyldunni er einum of mikið, en...

Alls konar tölur eru ær og kýr þeirra, sem velta fyrir sér helstu staðreyndunum varðandi COVID-19, og sýnast margar þessara talna þannig, svo sem fjöldi tilfella á hverja milljón íbúa, vera ansi flóknar og stórar. 

Vegna þess hve veikin er smitandi, varða sumar tölurnar ansi háar, þótt upphaflega smitið í smitrakningunni sé aðeins fólgið einni smittölu, tölunni einn. 

Svo eru aðrar tölur, svo sem varðandi margumrætt fyrirbrigði, "að deila heimili", sem til dæmis getur falist í hinni gömlu og grónu "vísitölufjölskyldu", þar sem talan er í kringum fjóra, þar sem tveir eru foreldrar og tveir eru börn, sem deila einu heimili. 

Þá gilda þessi sannindi: 

"Einn smitaður er einum of mikið, en þrír ósmitaðir er einum of lítið."  Þeir þyrftu að vera fjórir.


mbl.is Kórónuveirusmit hjá Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og rafhlaða, sem þarf níu klukkustunda hleðslu?

Allir skilja hvað átt er við þegar gefið er upp að ákveðin rafhlaða, til dæmis í rafbíl, þurfi níu klukkustunda rafhleðslu til þess að búa yfir því afli og úthaldi sem þarf í framhaldinu. 

Það er samt eins og að við vitum minna um hvað við þurfum sjálf til þess að halda fullri heilsu og afköstum.  En 8-10 klukkustundir eru oft nefndir. 

Einnig var því einnig haldið fram fyrir mörgum áratugum eftir rannsóknir á svefni og svefnþörf, að þriðja talan, 14 klukkustundir, ætti við ef um það væri að ræða að ná sér til fulls eftir langvarandi svefnleysi eða vökur, allt upp í nokkra daga. 

Gefnar voru upp tvær megin aðferðir til þess að ná sér alveg eftir slíkt, 

Annað hvort að sofa fullan svefn tvær nætur í röð, en hins vegar að sofa heila fjórtán tíma í einu. 

Sem fróðleiksmoli fylgdi með, að sumir þyrftu helst alltaf svo mikinn tíma; til dæmis hefði Albert Einstein helst þurft 14 tíma. 

Í flestum athugunum á heilsu og svefni er þeirri fullyrðingu andmælt að sumir þurfi bara fimm klukkustundir, og hafa Margrét Thatcher og Albert Guðmundsson verið nefnd í því sambandi. 

Í sambandi við slíkt hefur það verið dregið fram að sumir hafi vanið sig á að fá sér lúr eða síestu upp úr hádegi.   

Ólafur Jóhannesson, Winston Churchill og Konrad Adenauer hafa verið nefndir, en þess reyndar getið að þetta hafi Adenauer tekið upp á síðustu valdaárunum sínum, en hann var kanslari Vestur-Þýskalands til 87 ára aldurs. 

Megin þættir sem nefndir eru, eru þeir, að góður svefn skiptist í tvo 3-5 stunda langa kafla, þar sem fólk fellur í svonefndan djúpsvefn í hvorri lotu um sig. 

Ekkert geti komið í staðinn fyrir þennan djúpsvefn, til dæmis alls ekki að leggja sig í eina eða tvær klukkustundir í viðbót. 

Og svipuð fyrirbæri um nauðsyn rólegrar djúphleðslu rafhlaðna með ákveðnu lágmarks millibili eru nefnd í rafbílafræðum.  Hraðhleðslur eingöngu séu ófullnægjandi til lengdar. 

Hvað snertir rafbíl síðuhafa er mælt með því að hann sé hlaðinn rólega í 14-16 tíma á tveggja vikna fresti.   


mbl.is Rúmlega þriðjungur fullorðinna sefur 6 tíma eða minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga: Elliðavatnsvegur = Flóttamannaleið.

Fyrir um hálfri öld valdi almenningur nokkur heiti á staði og vegi á höfuðborgarsvæðinu, sem voru skemmtileg og lýsandi fyrir aðstæður og höfðu sagnfræðilegt gildi.  

Dæmi:  Klambratún, Flóttamannaleið og Hallærisplanið. Og Höfðatún var réttnefni á götu, sem lá þráðbein í áttina að hinu sögufræga húsi Höfða. 

Síðan gerðist það að þessum heitum var útrýmt af mismunandi ástæðum, en eitt þeirra hefur þó, sem betur fer, fengið aftur sitt gamla heiti; Klambratún. 

Heitið Miklatún, sem klesst var á túnið, stóð engan veginn undir nafnið, þótt Miklabrautin gerði það frekar sem stærsta gata bæjarins þegar hún var lögð. 

Með því að taka það upp, var afmáð sú grípandi saga sem var á bak við Klambratún, túninu sem Klambrar, eitt af ótrúlega mörgum smábýlum í Reykjavík, stóð á, en varð síðar að víkja. 

Þegar Hótel Ísland, sem stóð á gatnamótum Austurstrætis og Aðalstrætis, brann 1944, var húsgrunnurinn malbikaður og gerður að bílastæði, sem í fyrstu gegndi heitinu "Hótel Íslands planið". 

Þegar bílaeign jókst og myndaðist svonefndur Rúntur, Lækjargata-Austurstræti-Aðalstræti-Kirkjustræti-Skólabrú, og unga fólkið gerði að hálfgerðum samkomustað blöndu af bílum og gangandi fólki, varð það hluti af samkvæmis- og hjónabandsmarkaði þess tíma. 

Á Hótel Íslands planinu safnaðist þá oft saman ungt fólk, og þar varð til einn af stefnumótastöðum Rúntsins. 

Fékk þessi staður þá hið skemmtilega heiti "Hallærisplanið" í munni margra, heiti, sem sagði skemmtilega samtíðarsögu. 

Án þess að leggja til nafnbreytingu á Ingólfstorgi má hugsa sér að sett verði upp skilti þarna, sem segir söguna af Hallærisplaninu og fornri tíð. 

Þá er komið að "Flóttamannaleiðinni" sem nú heitir Elliðavatnsvegur. 

Á bak við heitið Flóttamannaleið er sagan af hernámi Íslands 1940. 

Þegar Bretar bjuggu um sig, urðu þeir að hafa í huga eitt af höfuðatriðum hernaðar; samgöngur og flutninga. 

Þótt þeim skorta á öryggi í flutningi liðs, hergagna og varnings á hinum mjóa malarvegi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og gengust því fyrir lagningu nýs ofanbyggðavegar allt frá Elliðavatni suður til Kaldárselsvegar. 

Þegar þessu var hrundið í framkvæmd voru Bretar alls staðar á flótta í Heimsstyrjöldinni, á Balkanskaga, í Norður-Afríku og Suðaustur-Asíu. 

Tóku íslenskir gárungar því upp á því í hálfkæringi og gálgahúmor að kalla nýja ofanbyggðaveginn "Flóttamannaleið" af því að í samræmi við vígstöðuna alls staðar, væri honum ætlað það hlutverk að auðvelda flótta Bretanna hér á landi, ef til átaka kæmi. 

Vel mætti hugsa sér að setja upp upplýsingaskilti um heitið Flóttamannaleið, þótt nafninu Elliðavatnsvegur verði ekki breytt úr þessu. 

Og þó? Það fékkst þó fram breyting á nafninu Miklatún.  

 


mbl.is Vífilstaðavegur malbikaður á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski verðmætustu fermetrar Íslands. Þarf hagkvæmisathugun á varðveislu?

Síðustu áratugi hefur verið óttast um tilvist Kolbeinseyjar, langnyrsta útvörð Íslands, vegna þess, að meðan eyjan er enn ofan sjávar, fylgir henni auka landhelgi upp á tugþúsundir ferkílómetra.  

Til að gera eitthvað í málinu og einnig til að sýna fram á eitthvert notagildi eyjarinnar var að lokum steyptur styrkur þyrlupallur á hana.  

Miðað við það hve mjög Kínverjar hamast við að byggja upp svipaða staði í Kínahafi, væri ágætt að gera hagkvæmnisathugun á því að viðhalda Kolbeinsey. 

Ef það á að takast til frambúðar þarf að kosta nokkru fjármagni til, því að líkast til þyrfti að gera heilmikla járnbenta steinsteypusmíð ofan á og utan um Kolbeinsey sem stæðist öll áhlaup Atlantshafsins. 

Og þá vaknar spurningin hvort það myndi borga sig að gera þetta og þess vegna er hagkvæmnisathugun brýn. 


mbl.is Youtube-stjarna kannaði tilvist Kolbeinseyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband