Er flughermir Icelandair dýrmætasta eign flugfélagsins?

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umfjöllun í erlendum fjölmiðlum um þann vanda, sem Boeing verksmiðjurnar og flugfélögin, sem keyptu þær vélar, glíma við.  

Atburðarásin síðan vélarnar voru kyrrsettar er athyglisverð og boðar ekki gott, því að allt frá byrjun, hefur hver fresturinn á einstökum atriðum lausnar vandans rekið annan, og er sumt af því kunnuglegt frá því í Boeing 787 Dreamliner baslinu á sínum tíma. 

Listi einstakra aðgerða og áfanga við að leysa Max-vandann er óralangur, og kemur þar margt til, sem ókunnugir átta sig ekki á, svosem sú mikla töf sem kyrrstaða 787 nýrra Max þotna; 387, sem þegar voru komnar í notkun og 400, sem voru framleiddar eftir að flotinn var kyrrsettur. 

Farþegaþotur eru flókin samgöngutæki, sem eru hönnuð til að vera sífellt í notkun en ekki að standa mánuðum eða jafnvel árum saman kyrrar. 

Aðalástæða Max-vandans var upphaflega sú einbeitta stefna Boeing að ekki þyrfti að kosta til dýrrar auka þjálfunar flugmanna vegna MCAS-búnaðarins, og jafnvel að sleppa við hann að mestu. 

Sífelldar seinkanir á gangi endurræsingar þotnanna stafa meðal annars af því, að verksmiðjan þráast sem mest hún má til að ná upphaflega markmiðinu.  

Einn hluti vandans, sem verður þrautin þyngri að leysa, er fyrirsjáanleg notkun á flughermi fyrir þoturnar. Flughermar eru rándýr tæki og merkilega fá flugfélög fóru út í það að kaupa sér slíka, heldur trúðu því að þeirra væri lítil eða engin þörf til að hægt væri að fljúga með hinn "fullkomna" galdra tölvubúnað um borð. 

Er ljóst að miklar tafir eiga um síðir eftir að verða við að þjálfa flugmenn, sem er og verður aðal verkefnið og að þau flugfélög, sem eiga herma, eiga eftir að mala gull með þeim. 

Eitt af hinum fáu flugfélögum, sem nefnt er sem eigandi slíks hermis í erlendum umfjöllunum, er Icelandair. 

Það gæti verið skýringin á því, að þegar síðuhafi ákvað að láta slag standa og nota flugmiða með Boeing 737 Max í síðasta farþegaflugi hennar, fékk hann þær upplýsingar frá yfirflugstjóranum, að flugstjórar Icelandair væru svo vel þjálfaðir í notkun MCAS, að ekkert væri að óttast. 

Ekki er víst að aðalatriðinu í öllum viðskiptum verði samt fullnægt þegar og ef MAX þoturnar fá að fljúga á ný. 

Þetta grundvallaratriði snýr að því að eftirspurn verði eftir því að fljúga með þeim. 

Skoðanakönnun í Bandaríkjunum sýnir nefnilega að 70 prósent aðspurðra, segjast aldrei munu vilja fljúga með þessum vélum.  


mbl.is Ríkisábyrgð veiti „óverðskuldað framhaldslíf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segir það ekkert að Reykjalundur annar ekki endurhæfingu?

Að undanförnu hafa þeir, sem telja COVID-19 smávægilega flensu, krafist þess að birtar séu tölur, sem sanni, að margir glími við slæm eftirköst veikinnar mánuðum saman. 

Meðan þessar tölur séu ekki birtar, sé ekkert sem bendir til þess að hægt sé að nota orðið "margir".  

Í lítilli frétt í gær var sagt frá því, að biðlisti væri eftir endurhæfingu á Reykjalundi fyrir umrætt fólk. 

Segir það ekki eitthvað?  


mbl.is „Þetta er ógeðslega erfitt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef spurningin er um keppinauta, hvað þá?

Svæðið sem innifelur Þórsmörk og aðliggjandi svæði, Almenninga og Goðaland,  milli Suðurjökla og Markarfljóts, er vafalaust meðal fegursta svæða á Íslandi. Í fjalllendi Skaftafells og Lónsöræfa og við Langasjó má þó finna verðuga keppinauta og einnig hér og þar í fjallendi annars staðar í heiminum. DSC00661

En tveir staðir á Íalandi eru þess eðlis að þeir eiga engar hliðstæður í veröldinni og þar með enga beina keppinauta, Grímsvötn og Kverkfjöll, vegna samspils eldvirkni, íss og jökla. 

Kverkfjöll hafa það fram yfir Grímsvötn, að þar er fegurðin sífelld og varanleg, en fegurð Grímsvatna er einkum fyrst eftir eldgos, áður en íshella Vatnajökuls nær að hylja hinar fögru og einstæðu eldstöðvar.DSC00561 

Í flugi frá Reykjavík austur á Brúaröræfi í síðustu viku bar nokkur fyrirbæri fyrir augu, sem gætu verið keppinautar, og kannski verða myndir úr þessu flugi settar hér í rólegheitum inn á síðuna. 

Svo sem hið einstæða fjallavatn Langasjó, sem er girt með tveimur nánast þráðbeinum, tvöföldum gígaröðum eða móbergshryggjum, en það fyrirbæri finnst hvergi annars staðar á þurrlendi jarðar nema hér á landi.  


mbl.is Fallegasti staður á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband