Alvotech, gott dæmi um "eitthvað annað."

21. öldin byrjaði á Íslandi með því að deilt var um í hverju væri best að fjárfesta. 

Þá komu fram hugmyndir um að reisa sex risa álver og virkja alla virkjanlega orku á landinu fyrir þau. 

Þegar bent var á það, að flestar þær þjóðir, sem lengst væru komnar í efnahagslegu og velferðarlegu tilliti, hefðu nýtt sér mannauð, hugvit, tækni, listir og menningu til þess að byggja upp öflugustu þjóðfélög okkar tíma. 

Gott dæmi væru Danir þar sem nær enga orku væri að finna né verðmæt hráefni önnur er jarðargróður, en samt væri þar mikil og traust velmegun. 

Við þessu fussuðu stóriðju- og áltrúarmenn og töluðu með fyrirlitningu um "eitthvað annað", og "fjallagrasatínslu." 

Þegar á móti var bent á, að jafnvel þótt ofangreindri stóriðjustefnu yrði hrint í framkvæmd, myndu innan við 2 prósent vinnuaflsins verða í stóriðjunni, og varla meira en 4 prósent, ef tínd yrðu til öll svonefnd "afleidd störf."  

Auðlindarentan yrði langt fyrir neðan allt velsæmi, og störfin, sem sköpuð yrðu, þau lang, lang dýrustu, sem hægt væri að skapa. 

Risa álverin yrðu í erlendri eigu, og miðað við það að Alcoa hefur verið algerlega tekjuskattsfrítt, yrði framlegðin til þjóðarbúskaparins langtum minni og til minna að vinna fyrir fjárfestingu en í flestu öðru. 

Fórnað yrði öðrum af tveimur þáttum, mesta verðmæti landsins, einstæðri náttúru þess, og láta hinn þáttinn, mannauðinn, vera sem afgangsstærð.  

Nú má sjá í tengdri frétt dæmi um fjárfestingu í einu fyrirtæki án nokkurra slíkra fórna, sem eigi að skapa 5 prósent af vergri þjóðarframleiðslu. 

Og auðlindin, sem að baki stendur, verður "eitthvað annað", íslenskur mannauður og hugvit.  


mbl.is Ætla að skapa 20% af gjaldeyristekjum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldar líka á Íslandi? Merkilegt skógareldasafn í Yellowstone.

Risastórir skógar- og kjarreldar erlendis virðast órafjarri okkar landi, en stöðvun rekstrar hjólhýsasvæðis á Laugarvatni sýnir, að hér á landi þarf að huga vel að breyttum aðstæðum, bæði hvað snertir skóglendi og viði vaxið land, sem hefur vaxið mjög víða um land, og einnig hvað varðar breyttar og auknar kröfur um aðstæður, sem hafa orðið síðustu áratugi. 

Laugarvatn er ekki einasta svæðið þar sem slíkt hefur gerst. 

Gríðarlegir sinueldar á Mýrum 2007, sem stóðu í marga daga, urðu til þess, að menn hrukku upp 

við vondan draum, og nefna má svæði eins og Skorradal, þar sem hætta er á að menn séu ekki nógu vakandi varðandi vaxandi hættu á eldum í skógum, sem hafa margfaldast undanfarna áratugi og er þannig í laginu, að hætta er á að margir bústaðir geti orðið innilokaðir.  

Í Yellowstone í Bandaríkjunum kviknuðu gríðarmiklir eldar 1988, sem menn þar vestra lærðu mikið af. 

Í ljós kom, að aldur skógarins skiptir miklu máli og ástand trjánna. Á þeim svæðum, sem brunnu, voru trén eldri en annars staðar, orðin fúin, þurr og feysknari en yngri skógar með safaríkum og frískum trjám, sem voru lakari eldsmatur. 

Ákveðið var að takmarka sem mest afskipti af eldunum, en setja þeim mun kraft í að koma í veg fyrir eyðileggingu húsa og hliðstæðra verðmæta.  

Á ferðum um þessi svæði 1998 og 2008 var fróðlegt að sjá hina náttúrulegu þróun í uppvexti nýs skógar og eiga kost á að skoða merkilegt skógareldasafn, sem útskýrir eðli náttúrulegra elda, sem gegna þýðingarmiklu hlutverki í endurnýjun og kynslóðaskiptum í skógunum. 

Ljóst virðist hins vegar, að hinir tröllauknu eldar nú á vesturströnd Bandaríkjanna og gríðarlegir og langvinnir hitar og þurrkar eru langt umfram það, sem áður hefur þekkst.  

 


mbl.is Hjólhýsasvæðinu á Laugarvatni verður lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband