Göngum milli Siglufjarðar og Fljóta var hafnað með Héðinsfjarðargöngum.

Þegar Héðinsfjarðargöng voru ákveðin, var um tvær leiðir að ræða. 

Héðinsfjarðargöng, tvískipt göng, sem tengdu Siglufjörð og Ólafsfjörð innan Norðausturkjördæmis og lægju um botn eyðifjarðarins Héðinsfjarðar 

eða 

"Fljótagöng", sem væru líka tvískipt, annar hlutinn milli Ólafsfjarðar og Fljóta, og hinn hlutinn milli Fljóta og Siglufjarðar. 

Aðalkostur þeirra ganga var tvíþættur: Að tengja Siglufjörð við Fljótin, Skagafjörð og alla leiðina suður til Suðurnesja á tryggan hátt með stystu mögulegu leið. Einnig að gagnast byggðinni í Fljótum og tryggja gildi Héðinsfjarðar sem eina fullstóra eyðifjarðarins á ströndinni á milli Árneshrepps á Ströndum og austur um til Loðmundarfjarðar. 

Ókosturinn var um 15 kílómetrum lengri leið milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar en með Héðinsfjarðargöngum.  

Þingmenn Norðausturkjördæmis þrýstu mjög á að velja Héðinsfjarðargöng, þrátt fyrir að með því væri því fórnað að hafa bestu og stystu tenginguna við allan vesturhluta landsins, allt frá Vestfjörðum til Suðurlands. Einnig sætu menn áfram uppi með hinn langa óveg um Almenninga til Siglufjarðar og það, að þegar sú leið væri ófær, er 69 kílómetrum lengri leið til vesturs og suður um til Reykjavíkur en um Eyjafjörð. 

Notuð var sú aðferð að "reikna Fljótagöng út af borðinu" með því að krefjast þess að gangamunnarnir væru miklu neðar en á öðrum jarðgöngum, en með því móti var hægt að lengja þau svo mikið á teikniborðinu, að þau yrðu dýrari. 

Svipuð aðferð virðist hafa verið notuð við hugmyndina um göng undir Hjallaháls vestra, að hafa vestari gangamunninn alveg niðri í fjöruborði.  

Nú eru Siglfirðingar að vakna upp við vondan draum; þá staðreynd, að leiðin um Almenninga til vestur- og suðurhluta landsins er ekki aðeins lengri en hún þyrfti að vera, heldur er vegarstæðið hrikalegt, ekki bara útlitslega, heldur líka vegna þess að hlíðarnar, sem vegurinn liggur um, eru á einstæðu framskriði, sem kemur í veg fyrir að hægt sé að malbika hann, og getur orðið að risastóru framhlaupi hvenær sem er. 


mbl.is „Hrikalegar“ aðstæður á Siglufjarðarvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturför um 74 ár og margfaldur ferðartími.

Ein fyrsta flugleiðin, sem áætlunarflug var tekið upp á,eftir Seinni heimsstyrjöldina var á milli Reyjavíkur og Vestmannaeyja. 

Bæði íslensku flugfélögin, Loftleiðir og Flugfélag Íslands, tóku upp áætlunarflug á þessari leið, og komst heilmikil samkeppni á í þessu flugi þar til misvitrir stjórnmálamenn skiptu öllu áætlunarflugi innanlands upp á milli félaganna á þann hátt, að 40 ára einokunartími Flugfélagsins var óhjákvæmileg afleiðing. 

En upphaf áætlunarflugs var samgöngubylting fyrir Eyjamenn, innreið nútímans. 

En nú er öldin önnur og stærsta afturför í sögu samgangna við Eyjar blasir við. 

Þrátt fyrir tilvist bæði Þorlákshafnar og Landeyjahafnar lengist ferðatíminn á þessari leið um tvær klukkustundir og fjórfaldast ef Landeyjahöfn er notuð og ferðatíminn lengist um fjórar klukkustundir og áttfaldast ef Þorlákshöfn er notuð.   


mbl.is Áhyggjuefni að flugið leggst af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband