Tugþúsundir lífeyrisþega langt innan við hálfdrættingar meðaljóna.

Tugþúsundir lífeyrisþega og öryrkja eru með mánaðartekjur, sem eru á bilinu 25-35 prósent af þeim meðaltekjum, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is. 

Slefa yfir 200 þúsund á mánuði. 

Þúsundir lifa við skort ásamt þúsundum barna. Stjórnmálamenn landins hafa nær linnulaust á þessari öld sótt í að skerða lífsviðurværi þessa stóra hluta þjóðarinnar og hafa allir flokkar, sem átt hafa ráðherra í ríkisstjórnum þessara ára, tekið þátt í því.

Þetta er til skammar og magnað, að talsmenn ellilífeyrisþega skuli telja sig knúna til að leita réttar síns fyrir erlendum dómstólum.  

Á hátíðarstundum ræða ráðamenn samt fjálglega um það hve mikið fyrirmyndar velferðarríki Ísland sé.  


mbl.is Helmingur með 533 til 859 þúsund í laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skurðlækningaþjónustan er kannski viðkvæmasta töfin.

Afleiðingar heimsfaraldursins birtast helst í ótal töfum á starfsemi og hindrunum. 

En þær eru misjafnlega alvarlegar. 

Líklega er versta töfin fólgin í skurðlækningaþjónustunni því að þar er svo oft um líf eða dauða að tefla. 

Þetta verður að hafa í huga þegar kvartað er yfir of hörðum sóttvarnaraðgerðum. 

Það er mikið til vinnandi að sú þjónusta lendi ekki í svipuðum vandræðum og gerðist svo víða í upphafi faraldurins á útmánuðum.  


mbl.is Veiran hefur áhrif á starfsemi í skurðlækningaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

60 ár frá mótmælum Alis. Nú er hann farinn en ástandið ekki.

Muhammad Ali ólst upp í Lousville í Kentucky og var, vegna kjaftháttar og orðheppni kallaður "the Louisville lip." 

Þegar hann varð Ólympíumeistari í hnefaleikum 1960 í Róm en gramdist svo misréttið heima að þar, sem hann stóð á brú einni, henti hann Ólympíugullinu á ána. 

Það var fyrir miklu að berjast. 

Þegar hinn hörundsdökki Jesse Owens vann einhver frægustu afrek íþróttasögunnar á ÓL í Berlín 1936 fyrir framan nefið á Adolf Hitler fékk hann samt að gista á sama hóteli og fara í sömu sturtu og hvítir menn á hótelinu, þar sem hann gisti.  Það fékk hann ekki í heimalandi sínu, ekki einu sinni á ferð með landsliðinu eða félögum sínum í íþróttum. 

Roosevelt forseti vék frá venju varðandi heimboð afreksfólks í Hvíta húsið og bauð ekki Owens. 

Í New York fékk hann ekki að fara inn aðaldyramegin á stóra samkomu varðandi Ólympíuleikana, heldur var niðurlægður með því að þurfa að fara bakdyramegin. 

Ali var í fremstu röð baráttufólks gegn kynþáttamisrétti í heiminum og gegn Vietnamstríðinu, sem þvinga átti hann til að berjast í hinum megin á hnettinum. 

"Hví skyldi ég, svartur maður, fara yfir þveran hnöttinn til að drepa gulan mann fyrir hvítan mann, sem rændi landinu af rauðum manni?" var spurning, sem honum var eignuð. 

"Ég á ekkert sökótt við Viet Cong. Enginn þeirra hefur kallað mig niggara" sagði Ali. 

Hann var dæmdur í fangelsi og sviptur heimsmeistaratitli og öllum réttindum til að stunda íþrótt sína í hátt í fjögur ár á þeim tíma sem hann var á besta aldri. 

Hann þurfti að berjast harðri baráttu fyrir því að fá að breyta "þrælsnafni" sínu, Cassius Clay, í Muhammad Ali. 

Þrátt fyrir að vera rændur bestu árum ævi sinnar til íþróttaiðkunar, afrekaði hann það að eignast feril, sem gerði hann að "the greatest", og verða eini íþróttamaðurinn í hópi þeirra mestu snillinga 20. aldarinnar, sem Time útnefndi um síðustu aldamót. 

Hæstiréttur sneri dómi undirréttar við á þeim forsendum, að það meginatriði múslimatrúar að ástunda frið án ofbeldis og manndrápa, væri gild ástæða Alis til að neita að gegna herþjónustu. 

Ali ástundaði það atriði trúar sinnar og boðaði af kostgæfni alla tíð.  

Persónulega fékk hann þá uppreisn, að vera falið að tendra Ólympíueldinn í Atlanta 1996 með skjálfandi höndum.   

En fréttirnar frá Louisville 60 árum eftir táknræna athöfn hins 18 ára gamla blökkumanns, þá með þrælsnafnið Cassius Clay, eru þess eðlis, að það er eins og að ekkert hafi breyst. 

Ali er farinn, en ástandið ekki. 

 


mbl.is Kröfðust réttlætis í Louisville
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband