Myndin: "Fegurð hins háa og fegurð hins smáa..."

"MYNDIN" í kvöld. Sjá ljóð fyrir neðan hana. 

Sólarlag 27.9.2020

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

MYNDIN.  

 

Leitaðu´ að fegurð og finndu´ hana,

fjöllin og sólroðnu tindana. 

Fegurð hins háa og fegurð hins smáa,

fangaðu´og reyndu að mynda´hana. 

 

Því stakt, líkt og stuttmynd er jarðarkíf; 

safn augnablika er okkar líf, 

sem ylja og gefa og sorgirnar sefa 

að síðustu verða´okkar von og hlíf.  

 

Leitum að kærleika´og ástaryl, 

eins þótt við þjáumst og finnum til. 

Með bjartsýni´og gleði blöndum þá geði; 

það brúar öll ævinnnar veðraskil. 

 

Já, mundu´eftir bjarma hins bjarta hér; 

blómum sem litskrúði skarta hér.  

Fegurð hins háa og fegurð hins smáa

fangaðu´og geymdu við hjarta þér. 

 

 


mbl.is Ljósmynd gulls ígildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðlæg og mögnuð megineldstöð.

Grímsvötn bera titilinn virkasta eldstöð Íslands.Bárðarbunga 3. 8. 14. nr2

En í raun er svæðið Grímsvötn-Bárðarbunga miðja annars af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar;  hinn er undir Hawai-eyjum á Kyrrahafi. 

Það má tala um öxulinn Bárðarbungu-Grímsvötn og þessar tvær eldstöðvar sem eins konar öxulveldi í eldstöðvakerfi Íslands. 

Eðli Bárðarbungu fór ekki hátt í eldgosaumræðunni fyrr en undir síðustu aldamót, þegar gosið í Gjálp hristi upp í þeim vísindum. DSC00600 

Þá var opinberlega farið að rifja upp, að Bárðarbunga er nokkurs konar miðstöð og aðalstjórandi kerfis, sem nær til suðvesturs til Torfajökuls og Hrafntinnuskers. 

Í aðdraganda Holuhraunsgossins var í fyrstu rætt um að Bárðarbunga væri norðausturendi þessa kerfis.

En með því að segja það og líta á Öskju sem stjórnanda styttra kerfis fyrir norðan Vatnajökul sást mönnum yfir gígaröð norður af Dyngjujökli, sem mikil skjálftahrina í Bárðarbungu hljóp yfir í um mánaðamótin ágúst-september 2014. 

Hún endaði með stærsta hraungosi hér á landi síðan í Skaftáreldum 1783-84. Bárðarbunga,gat

Þar með stimplaði Bárðarbunga sig endanlega inn sem nokkurs konar mafíuforingi íslenskra eldstöðva, miðlæg og mögnuð, en léti aðrar minni vinna stórvirkin fyrir sig á báða bóga. 

Síðustu tvö ár hafa skjálftar í Bárðarbungu virst færast aðeins austar en í upphafi skjálftanna 2014. 

Hvað það þýðir er sennilega erfitt að vita, því að til þess hefði þurft að hafa yfir að ráða sömu mælingatækni og hefur verið notuð síðustu ár. DSC00657

 


mbl.is 4,8 stiga skjálfti í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að fylgjast vel með því hvað er að gerast erlendis.

Það að mikil hætta steðji að íbúum Madridar vegna kórónaveirunnar og að þar stefni í svipað óefni og í fyrstu bylgju faraldursins er dæmi um það hversu miklar og stundum ólíkar sveiflur eru í baráttunni við vágestinn.  

Nú þegar er skilgreint hættuástand á Landsspítalanum hér, og ef ástandið versnar hér svipað og í Madrid, bætist ný hætta við hættuna af dauðsföllum af völdum kórónaveirunnar, hættan á ótímabærum dauðsföllum ef ekki er lengur hægt að anna þörfinni á lífsnauðsynlegum aðgerðum og umönnun varðandi aðra sjúkdóma. 


mbl.is Mikil hætta steðji að íbúum Madrídar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband