Árásin á þinghúsið: Rökrétt framhald sem hefði ekki átt að koma á óvart.

Þegar skoðaðar eru ýmis ummæli af ferli Donalds Trumps hefði nánast ekkert átt að koma á óvart af því sem gerst hefur í dag og hefur raunar verið rakið áður hér á síðunni. 

Í fyrri skrifum sínum hefur hann fullyrt að í fjölda gjaldþrotamála hans á viðskiptaferlinum (og fleiri blasa við) hafi hann unnið frækinn sigur. Í öll skiptin frækinn sigur. 

Til eru ummæli hans frá ýmsum tímum að um hundruð mikilvægustu málaflokka mannkynsins sem hann hefur tilgreint viti hann meira en nokkur annar. Einnig margítrekað að hann sé mikilhæfasti forseti og ofurmenni í sögu Bandaríkjanna síðan Lincoln leið. 

Að gáfnapróf fyrr og síðar hafi hann staðist með vísitölu ofurgreindar. 

Alla tíð hefur hann stutt og ræktað tengsl sín við hin valdamiklu samtök byssueigenda sem vilja veg almennrar vopnaeignar sem mesta og hann hefur hvatt þá til þess að notfæra sér þá grein stjórnarskránnar sem veitir hverjum borgara rétt til að bera vopn. 

Margstagast á þessari lagagrein. 

Hann varði gerðir byssudýrkena og annarra þeirra samtaka sem hafa gengið mest fram gegn minnihlutahópum og notað tákn nasista og Ku Kux Klan og hann varði alla þessa hópa enn í sjónvarpskappræðum við Biden

Í þeim krafði stjórnandinn Biden og hann um skýr svör og Biden svaraði því skýrt til að hann fordæmdi hvers kyns ofbeldi sem beitt væri hjá deiluaðilinum.

En Trump kom sér hjá þessu og sneri sér beint í gegnum myndavélina til þessara hópa og sagði þessum herskáu stuðningsmönnum að bíða rólegir en tilbúnir þegar þörf krefði. 

Það gerðist í dag og nú hefur verið rakið orðrétt að á útifundi Trumps hvatti hann fundarmenn skýrt og skorinort til þess að fara í "göngu til bjargar Bandaríkjunum" inn í húsið og taka þar völdin til að koma í veg að þingið afgreiddi úrslit forsetakosninganna. 

Í framhaldinu lagði hann sitt af mörkum eins lengi og hann gat til þess að koma í veg fyrir að lögreglumenn fengju rönd við reist.  

Hann byrjaði strax í fyrrasumar að stagast á því að kosningarnar framundan yrðu stórkostlegustu svik og prettir í sögu bandarískrar stjórnmála sem hann og stuðningsmen hans myndu berjast gegn með kjafti og klóm, og enn í ávarpi sínu á Twitter í dag var það aðalatriðið í ávarpi hans, hve gott fólk það væri sem risi upp gegn þessu "tröllaukna svindli.

Engar sannanir hefa fengist fyrir þessum ásökunum í fjölda kærumála Trumps og hans manna, enda hefur framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum verið með þróaðasta hætti, sem vestrænt lýðræði hefur yfir að ráða, grunnfyrirkomulagi, sem hefur verið grundvöllur lýðræðisins í meira en 150 ár. 

Mótmælafundurinn í dag var haldinn til þess að koma í veg fyrir það að lögformleg afgreiðsla Bandaríkjaþings á niðurstöðu kjörmanna gæti farið fram. 

Sjálfur lagði Trump hart að Mike Pence varaforseta, sem formlega átti að tilkynna um valdaskiptin 20. janúar, að taka sér í krafti stöðu sinnar gerræðisvald án nokkurrar heimildar í stjórnarskránni til þess að lýsa ógilda formlega afgreiðslu þingsins og breyta þannig lögformlegum valdaskiptum í áframhaldandi völd Trumps. Það hefði verið hreint valdarán.  

Trump atyrti Pence fyrir heigulskap þegar Pence neitaði að brjóta stjórnarskrána og hvatti fundarmenn á mótmælafundinum til dáða með því að ítreka að aldrei skyldi linna látum í baráttunni við þá "sem stálu kosningunum." 

Ef við höldum áfram með að rekja hugsanlegt rökrétt framhald þessarar árásar á þinghúsið mun henni ekki linna núna, heldur mun hún breiðast út og enda með því að valdi verði beitt með öllum ráðum, til þess að koma í veg fyrir valdaskiptin og inntökuathöfnina 20. janúar. 

 

P. S. Síðustu fréttir herma að innan ríkisstjórnarinnar hafi verið rætt um möguleika þess að nota ákvæði í stjórnarskránni til þess að Trump verði vikið frá vegna þess sem nú er komið fram.

Á sama tíma hefur hann hörfað lítillega með því að heita því að valdaskiptin geti farið friðsamlega fram. Samt heldur hann fast við ásakanir sínar og segir að hann muni hann aldrei láta af baráttu sinni gegn þeim "mesta þjófnaði í sögu Bandaríkjanna".

Einn af þeim blaðamönnum sem ítarlega hafa kannað feril Trumps frá upphafi, hefur bent á gegnumgangandi atriði í hegðun hans, sem felst í því að hann fer alltaf eins langt og hann geti mögulega komist upp með og helst lengra. Það kemur til dæmis fram í því að hann hefur verið einkar naskur á að finna út, hverjir geti mögulega staðið helst í vegi fyrir honum í framtíðinni og útskýrir til dæmis, af hverju hann hundelti Barack Obama árum saman til þess að svipta hann möguleikum á að gegna forsetaembættinu. Og einnig hvers vegna hann beitti forseta Úkraínu ótvíræðum hótunum í símtali fyrir tveimur árum til þess að bregða fæti fyrir Joe Biden, en á þeim tíma var Biden siður en svo líklegur til þess að verða forsetaframbjóðandi.  

 


mbl.is „Þetta er komið á annað stig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru "Æ Dí For" og "Æ Dí Þrí" aðlaðandi og óhjávæmileg heiti á bílum?

Í tengdri frétt á mbl.is eru nefnd tegundaheitin MG og Tesla, og fer ekki á milli mála við hvað er átt, einkum heitið Tesla. 

Það heiti er borið eins fram um allan heim og þetta leiðir hugann að því hvernig við Íslendingar berum fram erlend heiti og hugtök. 

Íslendingar hafa borið MG og BMW fram "Emm Gé" og "Bé Emm Vaff" í meira en hálfa öld og þessi heiti hafa bæði verið nógu aðlaðandi í eyrum Íslendinga til þess að þessir bílar seldust jafn vel og verðleikar þeirra hafa stuðlað að. Volkswagen ID.3

En nú eru breyttir tímar. Í útvarpi hljóma auglýsingar fyrir hinn nýja rafbíl Wolkswagen ID.3 þar sem heitið er borið fram "Vólgsvagen Æ Dí Þrí". 

Ef þessu verður ekki breytt er næsta skref að dynja yfir strax á næstu vikum, þegar Volkswagen ID.4 verður kynntur og seldur hér á landi. 

Þar með getur augljóslega stefnt í að aðförinni gegn þýskum framburði á heitum þýskra Volkswagen bíla ljúki með endanlegum sigri enskunnar, sem virðist vera á leið með að verða að aðal tungumáli Íslendinga sem allt verði að vikja fyrir. 

Nú þegar er hinn opinberi framburður á Íslandi á þýska orðinu Volkswagen að verða niðurnegldur í símsvörum umboðsins, þar sem ævinlega er sagt "Vólgsvagen" sem er algengur framburður hjá enskumælandi þjóðum sem segja Munich í staðinn fyrir Munchen, Cologne í staðinn fyrir Köln og Turin í staðinn fyrir Torino. 

Erfitt er að finna aðrar skýringar á þessari ásókn enskunnar en þá að auglýsingastofur og aðrir áhrifavaldar séu svo óskaplega snobbaðir fyrir enskri tungu, að framburður enskumælandi þjóða eigi að hafa algeran forgang fram yfir allar aðrar þjóðtungur. 

Og hér heima var nafn hins fyrrum mikla kappakstursmanns Mikaels Schumachers síðast þegar það var nefnt í sjónvarpi hér á landi borið fram "Mækael Schumacher." 

Síðuhafi átti stutt samtal við sölumann umboðsins í dag til þess að fræðast um hvernig dagskipun auglýsingarinnar ætti að hljóma í munni landsmanna, og frétti af því að fleiri hefðu hringt til að spyrja. 

Augljóslega af eðlilegum ástæðum. Fólk verður jú að vita til hvers er ætlast af því til að það beri þýsk og önnur heiti á erlendum tungum fram hér á landi samkvæmt kröfum enskunnar. 

Þetta verðum við, sauðsvartur almúginn að fá að vita, því að hjá umboðsmönnum BMW sem eru með BMW i3 til sölu, er framburður allra "Bé Emm Vaff i Þrír" en ekki "Bí Emm Dobbeljú Æ Þrí", og borgin með aðalstöðvum BMW heitir Munchen en ekki Munich. 


mbl.is MG og Tesla þeir einu sem juku sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Covid-draugurinn: Dauðadómar af handahófi, gengur aftur erlendis.

Þegar fyrsta bylgja COVID-19 skall yfir af fullum þunga fyrir um tíu mánuðum, mátti sjá á einstaka svæðum nýstárlega og hrollvekjandi sjón, svo sem í Wuhan, Svíþjóð og New York: Heilbrigðiskerfið var sprungið og viðfangsefni heilbrigðisstarfsfólks var að hluta til fólgið í því að kveða upp dauðadóma á stundinni frammi fyrir of mörgum skjólstæðingum; þessi skal deyja - þessi skal lifa - þessi deyja - þessi lifa...

Og siðan bættust við aðrar birtingarmyndir hrollvekjunnar, líkkistur og lík, sem hrönnuðust upp, fljótgrafnar fjöldagrafir, skortur á öndunarvélum o. s. frv. 

Í þriðju bylgju faraldursins hefur þessi draugur, sem kalla má covid-drauginn, byrjað að ganga aftur hér og þar jafnframt því sem kapphlaup um bóluefni kallar á nýjar dramatískar aðstæður. 

Þegar þessar öldur farsóttarinnar rísa æ hærra og víðar erlendis getum við Íslendingar verið þakklátir fyrir það, ef okkur tekst að halda ástandinu öllu skárra hér en víðast annars staðar. 

Að vísu vaxa líkur á því að efnahagskreppan verði bæði dýpri og langvinnari hér á landi en í öðrum löndum, vegna samsetningar þjóðartekna okkar. 

Því að jafnvel þótt okkar land sé litað ljósari litum á alþjóðlegum kortum um ástandið í mismunandi löndum heldur en hin eldrauðu lönd í kringum okkur, erum við að mörgu leyti leiksoppar þess ástands, óháð því hvernig ástandið er hjá okkur. 

Þess vegnar getur kapphlaupið um bóluefni orðið afdrifaríkt. 


mbl.is Kapphlaupið hvergi nærri að baki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband