Vegið að vistkerfum og landslagsheildum, oftast óafturkræft.

Fyrir rúmum tuttugu árum hafði síðuhafi gert þáttaraðir um náttúrufar og landsnýtingu í ýmsum löndum í Norður-Ameríku og á Norðurlöndum, og í lokaþættinum var svolítil samantekt eftir kvikmyndatökur í um þrjátíu þjóðgörðum og friðuðum svæðum og átján virkjanasvæðum. 

Í þættinum var varpað á skjáinn þremur grundvallaratriðum, sem þyrfti að hafa í heiðri þegar teknar væru ákvarðanir um landnotkun og meðferð náttúruverðmæti:  

1. Vistkerfi. 

2. Landslagsheildir. 

3. Afturkræfni. 

Þótt engin andmæli gegn þessu kæmu fram þá, má segja, að einmitt þessi þrjú atriði hafi verið fótumtroðin samfellt síðan, rétt eins og líka var gert áður. 

Mjög oft felst það í öllu þessu þrennu, vistkerfum og landslagsheildum umturnað á óafturkræfan hátt. 

Sveinn Runólfsson og Andrés Arnalds taka eitt atriði af mörgum fyrir í blaðagrein, en það er sú harða sértrúarstefna hjá mörgu skógræktarfólki, sem annars er alls góðs maklegt fyrir eldmóð og dugnað, að setja ágengar og framandi erlendar skógartegundir í hásæti í íslenskri náttúru, hvar sem því verður við komið. 

Ofan á þetta bætist síðan jafnvel enn harðari og ástríðufyllri sókn í því að planta lúpínu hvar sem því verði við komið, mjög oft án þess að hið minnsta sé hugað að þeim vistkerfum, sem umturnað er oft á tíðum. 

Engu er líkara en tilfinningin fyrir varðveislu vistkerfa landslagsheilda sé víðsfjarri á mörgum stöðum. 

Til eru ótrúleg dæmi um þetta.

Eitt þeirra:  Síðan fólk flutti af Hornströndum fyrir um 75 árum, komst þar sjálfkrafa á dásemleg endurheimt fyrri landgæða, þar sem þetta fyrrum hrjóstruga svæði hefur síðan vafist í dásamlegum alííslenskum gróðri.  

En þá hefur komið í ljós að til virðist sértrúarsöfnuður, sem telur lúpínu æðri öllum íslenskum gróðri, sama í hvaða ástandi landið er. 

Landeigendur á svæðinu þurfa sem sagt að standa í því að reyta upp lúpínu, sem lúpínudýrkendur hafa fyrir að fara með til Hornstranda til þess að valda usla í eðlilegri flóru svæðisins. 

Annað dæmi má sjá í Stefholtstungum þar sem afar fallegir klettaröðlar og lág klettabelti hafa glatt augu vegfarenda á Þjóðvegi eitt þar sem þessi klettabelti hafa risið yfir algróið land í kring. 

En nú er svo komið að mestallir þessir klettaröðlar eru að hverfa á kaf í hávaxinn skóg sem mun drekkja þeim hverjum af öðrum. 

Á svæðinu er nóg rými til þess að stunda skógrækt án þess að ganga svona nærri vistkerfi og landslagsheild, en það virðist vera keppikefli að troða því upp á alla vegfarendur sem allra fyrst, hvað það sé miklu göfugra að láta ekkert sjást frá veginum nema skóg. 

Og víðast eru það aspir, stafafurur og sitkagreni sem eru í mestum hávegum höfð. 

Þriðja dæmið vekur svo mikla undrun útlendinga, sem flogið er með, að þeir biðja um að floginn sé annar hringur til að sjá hvort þetta geti verið satt. 

Sandey í Þingvallavatni er eldgígur í vatninu og afar sérstæður og verðmætur sem hluti af hinni ómetanlegu landslagsheild, sem vatnið, þjóðgarðurinn og eldfjallasvæðið er, þar sem snilldarljóð Jónasar Hallgrímssonar um fjallið Skjaldbreið er viðbót við náttúrugildið. 

En, viti menn, meira að segja Sandey hefur ekki verið þyrmt, heldur var gróðusettur skógur með hávöxnum barrtjám ofan í gignum!


Tævan; í forystu á ýmsum sviðum.

Tævan, sem áður bar nafnið Formósa, hefur verið bitbein stórvelda Asíu, var undir yfirráðum Japana áður en Kínverjar hrepptu eyjuna í lok Heimsstyrjaldarinnar síðai. 

Þegar kommúnistar unnu sigur á þjóðernissinnum Chang Kai Shek 1949, flóði her þjóðernissinna út til Formósu, og undir breyttu heiti, Tævan, hefur eyjan verið sjálfstætt ríki undir verndarhlíf Bandaríkjamanna. 

Það kemur á óvart þegar farið er að kynna sér þetta ríki, hve framarlega það stendur á tæknisviðinu í mörgum greinum. 

Í hugum flestra hafa til dæmis Japanir verið í fremgst röð í smíði vélhjóla á borð við Honda og Yamaha, kannski líka Kawasaki, en við nánari athugun standa tævönsk hjól á borð við Kymco og SYM þeim fyllilega á sporði. 

Svo góð eru þessi hjól, að þegar Kawasaki ætlaði að taka þátt í herðri samkeppni í flokki svonefndra sofascooters eða maxiscooters, stórra vespulaga léttbifhjóla, varð niðurstaðan sú að sema við Kymco um að fá að taka Kymco Downtown traustataki, og framleiða það lítt breytt sem Kawasaki J300.  

Og á einu sviði hafa Tævanir algera forystu á heimsvísu, en það er hið þróaða samgöngukerfi rafknúinna léttbifhjóla, Gogoro, sem spannar 757 umhleðslustöðvar í Tæpei fyrir rafhjól með útskiptanlegum rafhlöðum. 

Frá því hefur verið sagt hér áður á síðunni. 

Volkswagen verksmiðjurnar ætla nú að taka þetta kerfi á hærra plan í Barcelona með svipuðu kerfi fyrir tveggja manna rafbíla með útskiptalegum rafhlöðum. 


mbl.is 38 kínverskar herþotur í lofthelgi Taívans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nóg að gert í óafturkræfum neikvæðum umhverfisáhrifum?

Á svæðinu milli Trölladyngju og Keilis er búið að valda slæmum óaftukræfum neikvæðum umhverfisspjöllum með því að gera borplan og virkjanaveg á versta stað við mynni hins stórkostlega gils, Soganna. 

Þar liðast volgur lækur út úr Sogunum framhjá fallegum grónum gíg og var þar fögur gönguleið. 

Ákveðið var að sarga 3000 fermetra borplan inn í gróna hlíð á þann hátt að sem mest umhverfisspjöll yrðu, og í staðinn fyrir að leggja virkjanaveg að því hæfilega fjarri gönguleiðinni, var hann látinn fylgja Sogalæknum og valda mestu mögulegum umhverfisspjöllum. 

Nú er órói á þessu svæði og það fyrsta sem mönnum virðist detta í hug, er að honum muni fylgja vel þegin og mikil jarðhitavirkni og möguleikar á víðtækum virkjunum. 

Því er bætt við að jarðhitavirkni sé á öllum Reykjanesskaganum og því eftir miklu að slægjast. 

Þegar skyggnst hefur verið í gögn um slíkt hefur sést að lítil orka hefur fundist við  Trölladyngju, en hins vegar er skráð uppselt afl við Krýsuvík 500 megavött, eða tvöfalt meiri orka en Hellisheiðarvirkjun gefur. 

Það er augljóslega að minnsta kosti tíu sinnum meira afl en getur verið sjálfbært. 

Þótt ljóst sé að hrein rányrkja er stunduð í öllum gufuaflsvirkjunum á Reyknanesskaga og að eldgosið við Fagradalsfjall sé´á skásta  mögulega stað, virðast margir fá glýju í augun af hrifningu yfir möguleikunum á sem mestri eldvirkni og þar með sem mestu tjóni vegna hraunrennslis, bara vegna þess að draumahrópið "virkja, virkja, virkja!" hljómi sem hæst. 


mbl.is Skjálftarnir gætu aukið jarðhitavirkni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband