"Ég er að horfa á að versla MG." "Aukning í rafbílum".

Sérkennilega orðanotkun og breytta hugsun má sjá í ýmsum ummælum þessa dagana. Orðaval er oft þannig, að illskiljanlegt er hvað verið er að segja eða meina.

Fyrri setninguna hér að ofan mátti sjá í umræðum á facebook. Og sú setning vekur strax spurningar í stað þess að upplýsa eitthvað. 

Er maðurinn að horfa á einhvern, sem er "versla MG."?

MG er heiti á bíltegund og nú er alveg hætt að nota sögnina að kaupa, heldur eru allir að versla eða versla sér eitthvað. 

Þegar textinn var lesinn lengra sést að sá, sem þetta skrifar er ekki að horfa á einhvern annan, heldur er hann að horfa á á sjálfan sig, þ. e. horfa á það hvort hann ætli að kaupa MB rafbíl. 

Hann virðist vera farinn að nota enska orðið look, eða looking um það að íhuga eitthvað. Enn eitt dæmið um sívaxandi ásókn enskrar tungu eða þess að hugsa á ensku. 

Hin setningin; "Aukning á rafbílum" eru hvorki meira né minna en fyrstu orðin í grein um rafbíla á Íslandi. 

Aldeilis kostuleg aðför að hinni ágætu sögn að fjölga, sem fer að verða´í útrýmingarhættu með sama áframhaldi, en í staðinn jafnvel sagt að það það sé aukning í fjölda frekar en að einhverju fjölgi. 

"Það er aukning í fjölda fólks" +

í staðinn fyrir 

"fólki fjölgar."


Síbylja um gagnsleysi og skaðsemi endurnýjanlegra orkugjafa.

Undanfarna daga hefur mátt sjá nokkurs konar síbylju á netinu um það, að rafmagnsleysi í Texas hafi verið kenna notkun endurnýjanlegra orkugjafa eins og vindorku og birtar myndir af ísuðum vindmyllum með þessum fréttum.  

Á þessari síðu hefur reyndar verið bent á langa hefð Texasríkis hvað varðar olíunotkun, en slíkar athygasemdir hafa drukknað í síbyljunni. 

Nú ber svo við, seint og um síðir, að verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti bendir á þær staðreyndir að mestar truflanir urðu í gasleiðslum og raforkulínukerfinu, sem ekki sé hannað með kuldakast í huga og þar að auki sé raforkukerfi Texas einangrað frá öðrum ríkjum Bandaríkjanna.

Rafmagnsleysið sé fyrst og fremst áfellisdómur yfir skipulagi, ekki vindorku. 

Þegar ferðast er um Bandaríkin er víða áberandi hve miklu minna er um það að leggja raflínur í jörðu í íbúðahverfum, en það er hins vegar regla hér á landi. 

Svo mjög virðist hugsun Kananna snúast um olíuna sem hitagjafa, að nokkrir vestra hafa farið flatt á því að setjast inn í bíla sína í gangi inni í bílskúrum til þess að halda hita á sér, en dáið af lofteitrun úr útblásturskerfum bílanna. 

Síbyljan hér um endurnýjanlegu orkugjafanna minnir á svipaða síbylju seint á árinu 2019 þegar slæmar fréttir af rafbílum komu í bunum á tímabili, rafbíll átti að hafa valdið stærsta bílageymslubruna á Norðurlöndum í Noregi, slökkviliðið að vera á neyðaræfingum hér á landi vegna tíðra brauna í rafbílum, rafbílar þyldu ekki frost nema að þeir væru "hafðir í gangi á næturna" og að einn strætisvagn mengaði jafn mikið og 7500 fólksbílar!

Síðastnefnda fullyrðingin var borin hressilega til baka í útvarpsfrétt og þegar til kom eftir sólarhring fullyrðinga um skaðvaldinn í Noregi upplýstist að það var gamall Opel Zafira, sem brann í bílahúsinu; slökkviliðið íslenska var ekki á neinum neyðaræfingum heldur aðeins að aðlaga sig að breyttum bílum í flotanum, enda bílabrunar tífalt fátíðari í rafbílum en bensínbílum af augljósum ástæðum; þeir síðarnefndu er nefnilega knúnir af eldsneyti sem dælt er inn í svonefnd brunahólf eða sprengihólf. 

Ég hef átt rafbíl í rúmlega þrjú ár sem hefur staðið úti allan tímann vandaræðalaust. 


mbl.is Áfellisdómur yfir skipulagi, ekki vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband