"Litlu leigubílarnir" sem voru svo duglegir á sjöunda áratugnum.

Kröfur til sætafjölda í bílum af millistærð og "fullri stærð" allt fram á áttunda áratug síðustu aldar fólust meðal annars í því að þeir mættu bera sex manns, þar af þrjá í framsætisbekk. Simca Ariane  

Þetta olli því að bílar allt niður í Ford Consul og Zephyr og Fiat 1800 voru með heila sætisbekki frammi í.  Höfuðástæðan fyrir því að þetta gekk upp var þó hvorki fótarými fyrir þann sem sat í miðjunni með fyrirferðarmikinn gírkassann fyrir framan sig og óþægilegt set, heldur var ekki komin bílbeltaskylda í löggjöfina.  

Mercedes Benz 180, 190 og 220 og Simca Ariane, sem sjá mátti í leigubílaakstri og voru furðu duglegir og rúmgóðir fyrir fimm.Mercedes-Benz_180_B_1961

Dálítið merkilegt því að þótt þeir voru þetta breiðir að innan, voru þeir þó mjórri að utanmáli en smábílar á borð við Yaris eru á okkar tímum. 

Af þessum bílum báru Mercedes Benz "ponton" 190 og Simca Ariane af hvað snert frábæra hönnun, sem skilaði því að rými og set fyrir fjóra á pari við það sem best gerist hjá mun stærri bílum í dag. 

Inn í þetta umhverfi á Íslandi komu síðan tveir bílar úr spánnýrri átt 1965-66, Toyota Crown fólksbíllinn og Landcruiser jeppinn, fyrsti sex strokka jeppinn, sem hægt var að fá á gjafverði á Íslandi 1966 vegna þess hvað hjólhafið, vegalengdin milli fram-og afturöxuls, var stutt.

Eins og yfirleitt er um bíla úr nýrri átt, urðu japanskir bílar fyrir miklum fordómum sem einhvers konar "austrænt drasl" svipað og síðar varð um bíla frá Austur-Evrópu eftir að járntjaldið var löngu fallið en samt talað um "austantjaldsdrasl."

Toyota og aðrir japanskir framleiðendur áttu heldur betur eftir að afsanna hrakspár með því að slá í gegn á vestrænum mörkuðum allt frá Bandaríkjunum til Íslands og ryðja burtu gamalgrónum metsölubílum. Toyota Crown

Toyota Crown var ekki aðeins afar sterkbyggður hjóðlátur og vandaður bíll, heldur hagkvæmur í rekstri og með mjúkri og góðari fjöðrun þótt afturöxullinn væri heil hásing.

Hann var svosem frekar gamaldags og til dæmis byggður á sérsaktri grind en ekki meðgin sjálfberandi byggingu eins og allir keppinautarnir. 

En notagildið, stærðin, endingin og vönduð smíð sáu um að sigurbraut japanskra bíla hófst hér á landi.  

Það er fagnaðarefni að varðveita jafn mikinn tímamótabíl í íslenskri bílasögu og þennan fyrsta Toyotabíl á Íslandi, hinn fyrsta í japönsku byltingunni sem hófst rúmri hálfri öld. 


mbl.is Fyrsti Toyota-bíllinn á Íslandi til umboðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lífið er núna!"

Ofangreind orð eru kjörorð hóps fólks, sem hefur aðstöðu í húsi Krabbameinsfélags Íslands og á það sameiginlegt að hafa orðið að fást við krabbamein og afleiðingar þess. 

Í góðu og mjög athyglisverðu viðtali við Svavar Pétur Eysteinsson sem þekktur er undir listanannsheitinu Prins Póló í Morgunblaðinu í dag er rætt við hann um krabbamein sem hann berst við og í þvi orðar hann þá hugsun þannig að hann hugsi bara um einn dag í einu og að rækta það, sem hann nefnir "núvitund". DSC09509

Tilviljun olli því að síðuhafi átti leið framhjá aðsetri þessa hóps í húsi Krabbameinsfélagsins fyrir þremur árum og rabbaði stuttlega við einn af skjólstæðingum hópsins, sem útskýrði hið mikilvæga gildi kjörorðsins "Lífið er núna" og hugtaksins "núvitund."

Hvort tveggja felur í sér hugsun sem hefur almennt gildi í lífinu og í framhaldinu kviknaði hugmynd að ljóði og lagi um þessa hugsun, sem Svavar Pétur lýsir í viðtalinu í dag.

Lagið og ljóðið hafa verið í rólegri vinnslu síðan 2018, enda er viðfangsefnið vandasamt, en í tilefni af viðtalinu og þökk til Svavars Péturs birtist textinn hér í núverandi mynd, með fyrirvara um frekari breytingar:    

 

LÍFIÐ ER NÚNA. (Með sínu lagi) 

 

Missum ekki´á hammingjuna trúna!

Munum, að lífið er núna!

 

Er andstreymi og áföll okkur þjaka

til úrræða og varna þarf að taka

og þá sést oft, að þetta´er ekki búið; 

þau eiga saman, hamingjan og núið. 

 

Og þótt hamingjan sé ekki alltaf gefin;

og óvissan sé rík og líka efinn

munum er við æviveginn stikum, 

að ævin, hún er safn af augnablikum. 

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver.  

Hvort margir góðir dagar koma´er óvíst enn. 

En fjársjóð geymir fortíðin, 

sem felur í sér vísdóminn: 

"Svo lifir lengi sem lifir" segja menn.  

 

Því sérhver dagur svo einstakur er; 

kemur ei aftur, við verðum hans að njóta; 

að gera gott úr öllu eigum við hér; 

í ást og kærleika framtíðina´að móta. 

 

Er hugrökk örkum að auðnu í lífi hér; 

æðruleysis og þolgæðis skal leita,

en reyna´að breyta því sem breytanlegt er 

í heitri bæn og trú, sem frið munu veita.  

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver. 

Missum ekki´á hamingjuna trúna, 

því fjársjóð geymir fortíðin, 

sem felur í sér vísdóminn: 

Með bæn í hvert sinn sköpum hamingjuna núna!

 

Missum ekki´á hamingjuna trúna!

Lífið er dásamleg gjöf

og lífið er núna!


mbl.is Hugsa um einn dag í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband