Saga úr vestfirskum grunnskóla.

Fyrir aldamót heyrði síðuhafi litla sögu úr gunnskóla á Vestfjörðum þar sem kennarinn var að kenna eins konar blöndu af því, sem var gallað átthagafræði hér í den.  

Þarna fór fram umræður milli hans og nemendanna og flugu spurningar á víxl.  

Ein spurning kennarans var þessi: 

"Hvað er það dýrmætasta og mikilvægasta sem Ísland á?"

Fyrst var drjúg þögn, en svo rétti stúlka aftarlega í bekknum upp höndina. 

"Jæja," sagði kennarinn, "ert þú með svarið við því hvað sé það dýrmætasta og mikilvægasta, sem Ísland á?"

"Já," svaraði stúlkan.. 

"Og hvað er það?" 

Svarið kom um hæl, stutt og laggott. 

"Pólverjarnir."

Þetta gerðist um svipað leyti og það var skyndilega svo komið fyrir vestan þegar komið var niður að höfninni í sumum þorpunum, að enginn sem vann utan húss við hafnirnar talaði íslensku.  


mbl.is „Þessi umræða fór aðeins of langt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við öndum öll að okkur sama loftinu..."

Síðasta minnisverða setningin af mörgum, sem John F. Kennedy Bandaríkjaforseti mælti í ræðunum, sem hann hélt á forsetatíð sinni, var sögð aðeins nokkrum vikum fyrir dauða hans 1963 og var greinilega sögð að gefnu tilefni eftir að mannkynið hafði staðið á brún gereyðingarstríðs í Kúbudeilunni haustið áður. 

"Við lifum öll á sömu jörðinni, öndum að okkur úr sama lofthjúpnum, er öllum annt um afkomendur okkar og erum öll dauðleg."

Þetta eru fjögur dramatísk atriði, ekki síst það síðasta. Snæfellsjökull sólarlag 28.apríl 2021

En orðin um lofthjúpinn hafa kannski orðið mest áberandi síðustu ár, því að hlýnun lofthjúpsins og mengun hans hefur verið eitt aðalviðfangsefni heimsstjórnmálanna.  

Kjarnorkuslysið í Chernobyl átti 35 ára afmæli á dögunum, en það sýndi á sínum tíma á dramatískan hátt hve víða banvæn áhrif aðeins eins slyss sem varðar örlítið brot af kjarnorku heimsins geta borist. 

Þeir fyrstu, sem fyrst mældu þessa mengun, voru í norðanverðri Skandinavíu í meira en tvö þúsund kílómetra frá slysstaðnum. 

Nú er mikið þurramistur yfir landinu eins og sést á mynd sem tekin var við sólsetur í gærkvöldi, en veðrið í gær var eins og veðrið í fyrradag, heiðskírt, en samt sást Snæfellsjökull ekki yfir flóann í gær, en hafði hins vegar skinið í skærum, hvítum snævarljóma í fyrradag. 

Það var aðeins þegar sólin var að renna á bak við hann, sem útlínurnar birtust í nokkrar mínútur. 

Sú ágiskun að þetta mistur komi frá Evrópu sýnist líklegust, því að hlýir loftmassar hafa sótt hingað undanfarnar vikur til stefnumóts við kalda massa úr norðri.  

Í einum af bloggpistlum dagsins er undrast, af hverju við Íslendingar ættum að hafa neinar áhyggjur af hlýnun lofthjúpsins og gefið í skyn, að þvert á móti ættum við að fagna henni, af því að hlýrra yrði hér á klakanaum og við losnuðum við jöklana. 

Slík sjónarmið lýsa mikilli þröngsýni. Það hefur hlýnað nóg nú þegar hjá okkur og afleiðingar vaxandi hlýnunar á heimsvísu munu berast til okkar ekkert síður en um kjarnorkuslys væri að ræða. 

Með minnkun jöklanna mun tíðni eldgosa aukast og fiskistofnar gætu færst frá okkur. 

Í nær öllum rannsóknum á því atferli mannkyns að fara nú að fikta á stórhrikalegan hátt í samsetningu lofthjúpsins, sem hefur verið það jöfn og stöðug í ellefu þúsund ár, að þau ár hafa verið einstaklega hagstæð fyrir mannlíf og menningu jarðarbúa, er niðurstaðan sú að áhrif þessa inngrips kunni að verða stórfelld kólnun á svæðinu fyrir suðvestan Ísland þótt hlýnunin verði gríðarleg yfir mestalla jörðina.  

Síðast en ekki síst mun rányrkja óendurnýjanlegra auðlinda jarðar valda miklum orkuvanda og öðrum vandræðum sem snerta alla jarðarbúa. 


mbl.is Óútskýrt mistur yfir landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband