Enn er víða beitt á land sem ekki er beitarhæft.

Íslendingar eiga mjög hæfa og reynda sérfræðinga í landgræðslu sem geta borið hróður Íslands í sambandi við uppgræðslu lands víða um lönd. 

Verra er að stór hluti árangurs þeirra er étinn upp á þeim víðlendu svæðum á eldvirka hluta landins þar sem rányrkja í formi búfjárbeitar er stunduð á landi sem er óbeitarhæft að dómi þeirra sömu sérfræðinga sem flaggað er réttilega erlendis fyrir færni og árangur við landbætur. 

Af þeim ótalmörgu sjónvarpsmyndum og þáttum sem sýndar voru á níunda og tíunda áratug síðstu aldar sáust svæði, sem þá voru tvímælalaust talin sæta skelfilegri ofbeit og jarðvegseyðingu, sem var enn betur undirstrikuð og staðfest í stórkostlegri rannsókn Ólafs Arnalds, sem einn Íslendinga hefur fengið Umhverfisveðlaun Norðurlandaráðs.

En gagnstætt því Fiskistofa hefur heimild til við nýtingu fiskimiðanna, hefur Landgræðslan aldrei fegið lagaheimild til þess að stöðva þetta líkt og gert er þegar ólöglegar veiðar eru stundaðar.

Sömu nauðbeittu svæðin og blöstu við í sjónvarpsþáttum og myndum fyrir aldarfjórðungi er langflest enn í hörmulegu ásigkomulagi. 

 


mbl.is Stjórnvöld leggja áherslu á landgræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekar að reyna að stýra hraunrennslinu en að stöðva það.

Í þessri fyrirsögn felst eðlismunurinn á því að reyna að stöðva hraunrennsli og að reyna að stýra því.8c.Ísólfsskáli(2) 

Meðan hraun heldur áfram að koma upp á yfirborðið blasir við að slíkt er ekki hægt að stöðva; það kemur alltaf upp ný og ný hraunkvika. 

Þar með er aðeins einn kostur eftir til að bregðast við meðan á framleiðslu hraunsins stendur, að reyna að stýra því hvert það renni. 

Og einnig að stýra rennsli þess þannig að það renni yfir sem minnstan hluta Suðurstrandarvegarins  

Mikilsvert er að lenda ekki á eftir atburðarásinni, heldur að vera jafnan með ráðstafanir tilbúnar, sem svara öllum mögulegum afbrigðum af vexti hraunsins.

Myndin hér á síðunni var tekin um viku fyrir upphaf gossins á þeim kafla vegarins, þar sem mestar líkur eru til að hraun muni koma að honum og fara yfir hann og eru Nátthagakriki og Nátthagi hægra megin við veginn, séð frá þessu sjónarhorni. 


mbl.is Reyna að stýra leið hraunflæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hluti af stórbrotnu sjónarspili sem nær upp í Skaftárkatla.

Allt svæðið frá Skaftárkötlum uppi í Vatnajökli og niður til sjávar er leiksvið stórbrotins sjónarspils náttúruaflanna á þessu svæði, sem skiptist í stórum dráttum í tvo meginkafla, sandkafla og hraunkafla, sem hvor um sig eru nokkur hundruð ára gamlir og skiptast á. 

Hraunkafli dundi á í stærsta eldgosi á sðgulegum tíma á jörðinni, Eldgjárgosinu 934, þegar hraun rann enn lengra en í Skaftáreldagosinu 1783, eða alla leið niður í Meðalland, langleiðina niður að sjó. 

Þá tók við eins konar sandkafli eða uppgræðslukafli þangað til næsta stórgos varð 1783. Rannsóknir Jóns Jónssonar jarðfræðings bentu til að mun minna gos, sem kenna mætti við bæjarröðina Tólfahring fyrir ofan núverandi byggð í Skaftártungu, hefði orðið um þremur öldum eftir Eldgjargosið. 

Í Skaftáreldagosinu 1783 rann hraun yfir þann sand og þann jarðveg sem orðið hafði til síðan 934.  

Á síðustu öld óx mjög jarðhiti í svonefndum Skaftárkötlum suður af Bárðarbungu, sem hefur brætt ísinn ofan af sér þangað til bræðsluvatnið í þeim var orðið það mikið að það brýst undir jökulinn og fer sem hamfarahlaup niður allan jarðveginn með nokkurra missera millibili. 

Þessum Skaftárhlaupum hefur fylgt gríðarmikill aurframburður sem hefur fyllt stóran hluta af Eldhrauni af sandi. Þetta tímabil, sem nú stendur mætti kenna við sandinn og kalla sandkaflann í hinu tröllaukna sjónarspili sem náttúruöflin á þessu svæði standa fyrir.  

Hið mikla sandmagn hefur skapað gróðureyðingu og smám saman tekið fyrir það vatnsrennsli, sem hefur síast niður í tvo fallega veiðilæki í Landbroti, suðaustur af Kirkjubæjarklaustri. 

Landgræðslan og Vegagerðin hafa reynt að hamla gegn ágangi hlaupanna í Skaftá með gerð varnargarða, en um þessi mál hafa staðið deilur, enda úr vöndu að ráða, hvað sem gert er eða ógert látið.  

Meginmyndin er skýr: Það stendur yfir sandkafli í hinni eilífu átakasögu hrauns og sanda í einhverju stærsta sjónarspili náttúru jarðar sem er þess eðlis, að ömurlegt er að vita til þess að nú skuli vera stefnt að virkjunum í Hverfisfljóti, Skaftá (Búlandsvirkjun) og Hólmsá. 

Og á tímabili var sótt fast að fá að veita Skaftá yfir í Langasjó og fylla þetta dásemlega fagra vatn af auri til þess að skrapa saman 30 megavöttum af raforku í Tungnárkerfinu. 


mbl.is Ellefu kílómetra farvegur Grenlækjar nánast þurr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við lifum ekki lífið af; er það? Eða hvað?"

"Er það? Eða hvað?" Vangaveltur í óendanleikanum." "Tvíræður Starkaðar." 

Þetta er langt heiti á ljóði, sem orðið hefur til við vangaveltur um lífið og tilveruna. 

Það hefst svona:  

 

Þökkum allt, sem guð oss gaf; 

hvern góðan dag 

við söng og skraf. 

Við lifum ekki lífið af; 

er það? 

Eða hvað?

 

Ljóðið er talsvert mikið lengra en látum þetta nægja núna. 


mbl.is Trump og dauðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband