Breytingar síðan Huseby var og hét? Næstum allt nema kúlan og hringurinn.

Íslands- og Norðurlandamet Gunnars Huseby var 16,74 metrar. Nýja heimsmetið er 23,37 metrar, 6,63 metrum lengra. Samt er kúlán jafn stór og jafn þung og hún var fyrir 71 ári og hringurinn líka jafn stór. 

En nánast allt annað hefur breyst, sumt smáatriði, en margt smátt gerir eitt stórt. Crouser er næstum 20 sentimetrum hærri en Gunnar og fær að því leyti til forskot.  

Gunnar stóð við brún hringsins og sneri hlið í kaststefnuna og hélt kúlunni uppi á öxlinni uppi við hálsinn, tók síðan eitt hopp á hægri fæti og stutt skref yfir á vinstri fót og spyrnti með honum á eftir skrokk og hægri handlegg, sem henti kúlunni út með únliðshreyfingu sem síðustu fingrasnertingu ú útkastinu og lok á snúningi líkmans um 90 gráður. 

Atrennan var stutt vegna stutts innra þvermáls hringsins em vindingur í skrokknum hjálpaði til; þó takmarkað. 

Gunnar hafði í upphafi ferils síns verið góður spretthlaupari og byggði afrek sín á miklum fótastyrk og handleggjakrafti. En stíllinn, sem hann notaði og hafði reynst vel fram að því, var þegar orðinn úreltur 1950 og í raun afleitur.

Bandarísku heimsmethafarnir sneru baki í kaststefnuna og beygðu sig niður með kúluna í upphafi atrennunnar og gátu því snúið sér um 180 gráður, tvöfalt meira en Gunnar, og rétt úr sér samtímis í útkastinu og bæði lengt á þann hátt leið kúlunnar í kastinu og nýtt fleiri vöðva til að þeyta henni í loftið en Gunnar. 

Nú, sem fyrr, var það smæð hringsins sem hamlaði árangri, og fóru menn í framhaldinu að leita að leiðum til að lengja leið kúlunnar í atrennunni enn meira með því að taka heilan snúning með hana´í hringnum, snúa sér fjórum sinnum lengra en Gunnar hafði gert. 

Til þess að þetta nýttist þurfti miklar framfarir í kasttækni, hraða og snerpu, auk alhliða vöðvaafls alls líkamans.  Tæknihliðin var nánast vísindaleg og krafðist gríðarlegrar samhæfingar og lagni. 

Ofan á allt framansagt fór alhliða framför í mataræði, þjálfunaraðferðum og mælingum eins og byltingarskriða í gegnum allar íþróttir. 

Samhliða lyfjanotkun, sem skóp orðtakið að sá sigraði sem hefði besta lyfjafræðinginn, hefur þessi hlið mála litað mjög alla umræðu og umgerð íþrótta og orðið til þess að hamla gegn misvægi á þessu sviði lyfjanna, meðal annars með heilmiklu regluverki og eftirliti. 

Þegar litið er yfir allt það, sem breyst hefur við það að einn maður henti rúmlega 7 kílóa kúlu út úr lokuðum hring, yfir í það að fara heilan hring með kúluna inni í hringnum í afar flókinni hreyfingu, sést, að samanburður á afreki Husebys og núverandi heimsmethafa er nánast út í hött.  


mbl.is Sló 31 ára gamalt heimsmet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnað atvik í Grafarvogskirkju.

Fyrir um tuttugu árum gerðist það, að góður æskuvinur minn, Davíð Helgason, hné niður við morgunverðarborðið í hjartaáfalli og lést. 

Davíð hafði verið í fremstu röð í körfubolta á yngri árum og fyrir marga kom þetta áfall mjög á óvart. 

Útför Davíðs í Grafarvogskirkju var því mörkuð sárum söknuði, vönduð athöfn og virðuleg.

Þegar kom að því að presturinn stigi fram til að fara með moldunartextann, gerðist það hins vegar, öllum á óvörum, að einn kirkjugesta, sem sat fremst í kirkjunni, féll fram fyrir sig í hjartaáfalli. 

Mínúturnar, sem á eftir fóru, voru ekki aðeins eins og þögn eftir þrumu úr heiðskíru lofti, heldur fann hver kirkjugestur óþyrmilega fyrir smæð sinni og vanmætti, líkt og skilaboð að ofan:  Þú, litli maður, hélst kannski, að þú værir sjálfur óhultur fyrir örlögunum, og að svona gerðist ekki við jarðafararathöfn, en enginn má sköpum renna, mundu það. 

Gamalt orðtak, sem faðir minn heitinn notaði stundum við svipuð tilefni, kom í hugann á meðan athöfnin var stöðvuð, hinn sjúki fékk aðhlynningu og beðið var eftir sjúkrabíl. 

Magnaðri útför var vart hægt að hugsa sér, og á meðan á stöðvun útfararinnar stóð, varð til lítil vísa: 

 

"Feigðin grimm um fjörið krefur. 

Fátt er oft um svör. 

Enginn veit, hver annan grefur; 

örlög ráða för."

 

Vísan sú arna átti eftir að draga dilk á eftir sér, því að smám saman bættist við hana þegar fleiri vinir kvöddu á næstu árum, svo sem Bessi Bjarnason, Flosi Ólafsson, Hermann Gunnarsson og Carl Möller. 

Nú er þetta eins konar sálmur:  

 

SORG OG lÍKN. 

 

"Aaa...söknuðurinn sár. 

Aaa...sorgarkvöl og tár. 

 

Ljúfur Drottinn lífið gefur; 

líka misjöfn kjör

og í sinni hendi hefur 

happ á tæpri skör. 

Feigðin grimm um fjörið krefur; 

fátt er oft um svör. 

Enginn veit, hver annan grefur; 

Örlög ráða för. 

 

Aaa...söknuðurinn sár.

Aaa...sorgarkvöl og tár. 

 

Líkna höfug hryggðartárin; 

hörfar myrkrið svart. 

Látum tímann lækna sárin, 

þótt lögmálið sé hart. 

Valt er lán og vegir hálir; 

víst þó huggun er

það, sem góðar gengnar sálir 

gáfu okkur hér. 

 

Aaa...söknuðurinn sár. 

Aaa...sorgarkvöl og tár. 

 

En ég veit að orðstír lifir, 

ást og kærleiksþel. 

Sá, sem vakir öllu yfir 

æ mun stjórna vel. 

Vítt um geim um lífsins lendur

lofuð séu´hans verk. 

Felum okkur í hans hendur

æðrulaus og sterk.  

 

Aaa...myrkrið dökka dvín. 

Aaa...aftur ljósið skín."

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hjartað sló ekki í 78 mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjörunum yrði því meira misskipt sem aldur fólks lengdist.

"Örlög, þið ráðið okkar næturstað. Enginn má sköpum renna -  og best er það."

Þessi setning er í einu leikritum Shakesfpeares og í henni felst mikið raunsæi og speki.  

Setjum sem svo að hægt yrði að framlengja aldur manna og jarðlífið í formi ævinnar um mörg hundruð ár. 

Afleiðingarnar yrðu skelfilegar, einkum ef öldruhnarhluti mannsævinnar yrði lang lengsti hlutinn. 

Þar að auki myndi dauðsföllum vegna slysfara ekkert fækka og sú misskipting lífgæðanna, sem felst í mislöngu æviskeiði, myndi vaxa stórlega og er þó vart á hana bætandi.

"Þökkum allt, sem guð oss gaf; 

hvern góðan dag

við söng og skraf. 

Við lifum ekki lífið af, 

er það?

Eða hvað?..."

 

..."Lifum með lífinu eins og það er

og unum því, sem verður ei breytt

en breytum því, sem er breytanlegt hér

í bæn og kjarki, sem frið getur veitt. 

 

Hver ævi kemur - og hún fer 

og einn og sér er dagur hver. 

Með bæn í hvert sinn sköpum hamingjuna núna!..."


mbl.is Hvorki hægt að hægja á né snúa við öldrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband