"Að fara að vera - eða ekki fara að vera..."?

Tilhneiging, sem kalla má nafnháttarsýki, ryður sér hratt til rúms í íslensku máli. 

Fyrirsögnin á viðtengdri frétt er dæmi um þetta. Í staðinn fyrir að segja einfaldlega: 

"Við náum ekki í fólkið"

er sagt: 

"Við erum ekki að fara að ná í fólkið." 

Þrettán atkvæði í stað átta. 

Einn íþróttafréttamaður lýsti atviki svona: 

"Hann var ekki að fara að verja þennan bolta"

í stað þess að segja: 

"Hann gat ekki varið þetta skot." 

Þessi breyting málsins felur í sér lengri og klúðurslegri setningar en annars þyrfti. 

Og jafnvel er nafnháttur notaður margsinnis í röð, og gæti því frægasta setning leikbókmenntanna senn orðið svona: 

"Að fara að vera eða fara að vera ekki - það er málið" 

í stað þess að segja: 

"Að vera eða vera ekki - það er málið." 


mbl.is „Við erum ekki að fara að ná í fólkið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Dyngjufjöll" fyrir norðan og dyngjurnar þar jafnvel fleiri en tíu.

Norðan Vatnajökuls er eitthvert fjölbreytilegasta safn dyngjufjalla á jörðinni. Meira að segja heitir fjallabálkurinn norðan og vestan við Öskju Dyngjufjöll og þar eru tvær af þremur stærstu dyngjum landsins, Trölladyngja og Kollóttadynga. Hin þriðja er Skjaldbreiður norðan Þingvalla, og þessar þrjár bera af í dyngjuflóru Íslands. kollottadyngj_her_ubr_-togl_snaefell_1375844

Því miður var Jónas Hallgrímsson ekki í aðstöðu til þess á sinni stuttu ævi til þess að fara um norðurhálendið eins og allir jarðfræðingar hafa getað gert síðan á dögum Þorvaldar Thoroddsens, en dyngjurnar á þessu svæði eru nógu margar og fjölbreyttar að stærð til þess að skapa vanda við að kasta á þær nákvæmri tölu. Varla færri en átta en kannski fleiri en tíu. 

Ef hann hefði getað gert það, er vel líklegt að snilldarljóð um Þjóðarfjallið Herðubreið, Öskju, dyngjurnar stóru og mörgu og fjallasalinn allan hefði orðið til.

Á myndinni hér við hliðina má sjá dyngju fremst, Kollóttadyngja, Herðubreið, móbergsstai, Herðubreiðartögl, gígaröð, og Snæfell í baksýn, stórt eldfjall.   

Að vísu er Hlöðufell hér syðra móbergsstapi eins og Herðubreið, og í nábýli við Skjaldbreið, en fær aðeins fjögur orð í ljóðinu um Skjaldbreið; "...og litlu sunnar Hlöðufell..." 

Þráinsskjöldur og Heiðin há eru dyngjur á Reykjanesskaga en náðu ekki sama ægiþroska og Skjaldbreiður, Trölladyngja og Kollóttadyngja. 

Þessar þrjár dyngjur njóta þess að hafa fengið nægt rými inn á milli annarra fjalla til þess að þroskast til hins ítrasta. 

Því miður myndi hugsanleg dyngja utan í Fagradalsfjalli ekki njóta slíks. En ef hún myndast á annað borð yrði það smá sárabót fyrir skemmdir vegna hraunstrauma að fá að fylgjast með sköpun svona náttúrudjásns. 

Skemmdir á gróðurlendi verða héðan af ekki miklar miðað við þá eyðingu gróðurs og jarðvegs sem búfjárbeit hefur valdið. 

Í laginu "Kóróna landsins" eru margs konar náttúrufyrirbæri nefnd, en það fyrsta er:...

 

Allvíða leynast á Fróni þau firn, 

sem finnast ekki´í öörum löndum: 

Einstæðar dyngjur og gígar og gjár

með glampandi eldanna bröndum.

Við vitum ekki´enn að við eigum í raun 

auðlind í hraunum og söndum, 

sléttum og vinjum og urðum og ám

og afskekktum sæbröttum ströndum..."


mbl.is Tók 30-100 ár fyrir Skjaldbreið að myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurvígvædd þjóð þar allir þurfi að verja sig gegn "hinum."

Athyglisverð umfjöllun var sýnd hér heima í sjónvarpsþættinum 60 mínútum í gær.

Tvennt bar þar hæst. 

Í fyrsta lagi það mat þeirra, sem gerst hafa kynnt sér skotvopnaeign og skotvopnanotkun í Bandaríkjunum, að hún væri nú í fyrsta sinn komin á það stig að enginn væri lengur óhultur fyrir skotárás nokkurs staðar í þessu víðlenda ríki frelsisins. Stag2wi_

Hitt atriðið var eðli skotvopnanna, sem yrðu sífellt mikilvirkari. Var hálfsjálfvirki riffillinn AR-15 tekinn sem dæmi, en hann er í raun borgararaleg útgáfa af herriflum, herriflinum sem hafa eiginleika hríðskotabyssu og geta tæmt úr sér ótal skothylki á metttíma. 

Þessum stórvirku drápstækjum fjölgar sífellt og er áætlað að að um 90 milljón AR-15 séu í borgararlegri eign í Bandaríkjunum.   

Afköstin eru geigvænleg eins og komið hefur í ljós í fjöldamorðum með þessum vopnum. 

Með AR-15 að vopni hefur fjöldamorðingjum tekist, einum og sér í hvert sinn, að drepa allt að 60 manns og slasa 400 í einni árás. 

Kúlurnar þjóta sem skæðadrífa og dæmi eru um að það taki mörg ár að ná öllum brotunum úr sumum sem fyrir þeim verða og lifa naumlega af. Hraði skotanna úr AR-15 er fimm þúsund kílómetrar á klukkustund, meira en sexfaldur þotuhraði.   

Nú nýlega voru Texasbúar að undirbúa það að fella alveg niður skráningarskyldu á skotvopnum og fullkomna þar með það ástand, að í ljósi viðauka í stjórnarskrá Bandaríkjanna varðandi heilagan rétt hvers manns að bera á sér vopn til varnar, geti hver, sem er, eftirlitslaust vígbúist með afkastamestu morðvopnum á borð við AR-15 til þess að geta varið sig gegn "hinum" sem ráðast á fólk með slíkum vopnum. 

Hagsmunasamtökin sem sækja fast aukna sölu og eign skotvopna eru griðarlega sterk í Bandaríkjunum eins og umræðan í Texas ber vitni um, og til þeirra sótti Donald Trump óspart fylgi, og ávarpaði byssueigendurna meira að segja beint í gegnum sjónvarpið í rökræðum við Joe Biden fyrir síðustu kosningar.  


mbl.is Tíu skotárásir yfir helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband