Nefnd tvö "möguleg" alvarleg slys. Bætum tveimur raunverulegum við.

Í viðtengdri frétt er greint frá því, að hvernig ökumanni bifhjóls tókst að koma í veg fyrir tvö "möguleg" alvarleg slys á þjóðvegi fyrir austan fjall, vegna þess hvernig ökumenn eru gjarnir á að vera að lesa á snjallsíma sína undir stýri. Geirsnef reiðhjól

Saga þessa bifhjólamanns er áreiðanlega rétt miðað við reynslu síðuhafa á síðustu sex árum, sem eru liðin síðan breytt var yfir í það að hámarka not rafknúinna farartækja og eiga þrjú hjól til mismunandi ferða í samræmi við lengd ferðaleiðir og hraða. 

Í óteljandi skipti hefur mátt sjá af hjólinu í návígi við gatnamót hvernig margir bílstjórar hafa verið niðursokknir við að grúfa sig yfir snjallsíma í akstrinum. 

Og það, sem meira er: Síðuhafi hefur tvívegis lent í beinbrotsslysum á rafreiðhjóli vegna hliðstæðrar hegðunar. Náttfari við gangstétt

Í fyrra skiptið vegna þess að ökumaður bíls var að hægja á bíl sínum til þess að hleypa mér á rafreiðhjólinu Náttfara eftir gangbraut yfir aðrein að Miklubraut. 

Hann leit snöggt til hliðar og sá útundan sér að ef hann gæfi hressilega inn, gæti hann smollið inn í autt bil á milli bíla á Miklubrautinni. Hann gaf því inn þótt hann væri á þessu augnabliki blindaður af lágri kvöldsól og sæi því ekki rafreiðhjólið sem var þá komið hálfa leið yfir aðreinina. 

Ég var kominn það langt að ég sá hann ekki þegar hann ók harkalega aftast á hjólið hjá mér og henti mér og hjólinu upp á framgluggann, sem hlífðarhjálmurinn braut í högginu. 

Þá snarhemlaði hann, en við það hélt flug hjólsins og knapans áfram upp á þak og í glæsilegum boga yfir húddið til árekstar við gatnakerfi Reykjavíkur. 

Afleiðingin varð slæm lemstrun á báðum ökklum, báðum hnjám, öðrum olnboganum og öxlinni. 

Í fyrstu leit út fyrir að ég hefði beinbrotnað á öllum sex stöðunum, en sem betur fór var aðeins hægri ökklinn.

Hitt beinbrotsslysið vegna aflestrar ökumanns á farartæki varð á hjólastígnum á Geirsnefinu, því að ökumaðurinn, sem horfði niður fyrir sig og var að lesa, var á rafreiðhjóli!

Það var hálfrökkur og hann var að reyna að sjá á orkumælinum, hve mikið rafmagn væri eftir. 

Þegar hann horfði niður á mælinn sá hann móta dauft fyrir hvítu merkingunum á hjólabrautinni sem hjólinu var hjólað meðfram

Á mynd efst á síðunni er nýbúið að mála línurnar á honum, en vegna viðhaldsleysis á þessum línum árum saman, voru þær horfnar á köflum þegar slysið varð í ársbyrjun 2019, svo að hann varð að gera aðra tilraun þegar línurnar komu aftur í ljós. 

En þá gerðist aftur það sama, að línurna hurfu, en í þetta sinn var auði kaflinn mun lengri en áður svo að hann sveigði óvart yfir á rangan stígshelming í veg fyrir mig, sem gat með engu móti varast hann, heldur skullu ystu hlutar stýranna á hjólunum saman með þeim afleiðingum að þau steyptust bæði í kollhnísum til jarðar. 

Lesandi hjólreiðamaðurinn slapp við beinbrot, en ég fékk slæmt axlarbrot. 

Eftir þessi tvö slys spurði einn vinur minn hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta að nota hjólin. 

Svarið var einfalt: Málið snýst um ökumenn, sem sjá sér ekkert ekki fram fyrir sig við stýrið. 

Það er allt vaðandi af þeim í umferðinni og oft engin leið að varast þá eða sleppa við það að lenda í árekstri. 

Ef ég á að velja um það á rafreiðhjólinu að lenda í áresktri við annan mann á reiðhjóli á 20 km hraða - eða - að vera undir stýri á bíl og lenda framan á öðrum bíl á 80 km hraða,-  þá vel ég manninn á rafreiðhjolinu.  


mbl.is Kom í veg fyrir tvö mögulega alvarleg slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskan útlæg í móttöku topphótels. Hugsað á ensku, sem "lúrar okkur inn."

Er hugsanlegt að í móttöku topphótela í Frakklandi eða Þýskalandi væri bara hægt að nota ensku?

En þessi er orðin raunin hér á landi. Samt er móttakan í hverju fyrirtæki og stofnun andlit þess. Eftirminninnilegt þegar síðuhafi var vinsamlega skipað að tala ensku við manninn í móttökunni í einu af fínasta hótelinu í miðborg Reykjavíkur.

Alveg nýtt dæmi úr fréttum er dæmigert um aðra leið, sem enskan fer inn í mál okkar. Það lýsir sér í því ástandi, að það er orðið erfitt, jafnvel fyrir fjölmiðlafólk að hugsa á móðurmáli sínu. 

Fréttamaðurinn var að segja frá golfkeppni og sagði að á ákveðinni holu undir lokin hefði orðið til "snúningspunktur" í keppninni. 

Vesalings fréttamaðurinn neyðist til að þýða hrátt úr enskunni "turning point".    

Hann virðist ekki hafa hugmynd um að í íslensku hafa verið til og eru ennþá til mörg orð um þetta fyrirbæri, svo sem þáttaskil, kaflaskil, vatnaskil, umskipti, tímamót, kúvending, vendipunktur... o. s. frv.  

Kannski hefur hann haldið að það þyrfti íslenskt nýyrði til þess að komast hjá því að nota orðið "turning point". 

Í undanhaldinu undan enskunni er kannski það fyrirbæri varasamast sem lýsir sér í því að við erum í vaxandi mæli þess ekki megnuð að hugsa á íslensku, heldur að bjarga okkur í horn með því að grípa beint eða óbeint til enskunnar. 

Í íþróttum er það þekkt bragð að leiða andstæðinga í gildru, "lokka þá inn" eða "pretta" en nú orðið er það alsiða að segja að verið sé "að lúra þá inn" og að þeir séu "lúraðir inn."

Þarna er á ferðinni aulaleg þýðing á ensku sögninni "to lure" en íslensku orðin að lúra eða nafnorðið lúr þýða allt annað. 


mbl.is Íslenskan er á undanhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spor í snjó geta orðið torkennileg á Hornströndum.

Á árunum 1977 til 1978 fór síðuhafi fljúgandi í gerð sjónvarpsmyndarinnar Eyðibyggð í nokkrar kvikmyndatökuferðir til Hornstranda og voru notaðar tveggja sæta og fjögurra sæta flugvélar af gerðunum Piper PA-12 Super Cub og Cessna 172 Skyhawk tll þess að lenda á mprgum stöðum í fjörum og á öðrum stöðum, jafnvel uppi á Straumnesfjalli og á Þórishorni við Hlöðuvik. 

Nokkrum sinnum var gegið fram á spor í sköflum, bæði að vetrarlagi og öðrum árstímum og var þar langoftast um refaspor að ræða. 

Eitt sinn virtust sporin miklu stærri en eftir ref, en enginn sást hvítabjörninn. 

Þessi spor virðast hafa aflagast og stækkað við hitabreytingar og hugsanlega sólbráð, svona eftir á að hyggja, og tilvist þeirra því ekki tilkynnt til yfirvalda. 

Í ljósi þess að þetta gátu líka verið afmynduð spor eftir stóra gæs eða svan

En teknar voru myndir af orunum fyrir sjónvarpsmyndina og í henni sjást þau auðvitað enn og sömuleiðis þær vangaveltur sem þá voru hafðar uppi um þau. 


mbl.is Töldu ummerki vera um hvítabjörn á Hornströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband