Hvert er hlutverk opinberrar þjónustu?

Á þessari bloggsíðu hefur oft verið fjallað um hlutverk opinberrar þjónustu og nefnd einstök dæmi. 

Sum slíkra dæma vekja spurningar um það til hvers þjónustan sé. Er hún fyrir þá sem eiga að  njóta þjónustunnar eða fyrir eitthvað allt annað?

Nú hafa bílastæðagjöld verið margfölduð en greinilega ekkert hugað að aðstæðum bílaeigenda sem hafa lág laun og því ekki efni á því að kaupa sér rafbíl. Renault Twizy. 

Nú er bráðum áratugur síðan hér á síðunni var farið að fjalla um möguleika "litla mannsins" til þess að taka þátt í orkuskiptunum í umferðinni og ákveðið að gera samgönguþarfir síðuhafa að tilraunaverkefni.  

Í upphafi fólst þetta í leit að nógu litlum rafbil, sem væri nógu ódýr og einfaldur í rekstri. 

Mörg ljón reyndust í veginum og minnkun kolefnissporsins fólst því í fyrstu í notkun rafreiðhjóls og einstaklega sparneytnu léttbifhjóli sem næði þjóðvegahraða auðveldlega og kæmist um allt land jafnhratt og bíll fyrir brot af þeim kostnaði og kolefnisspori sem bílum fylgir.

Að lokum fannst tveggja manna rafbill í árslok 2017, sem kostaði tvær millur, var með 90 km drægni og náði mesta leyfilega þjóðvegahraða. Tazzari Zero, þessi litli rauði á myndinni hér fyrir neðan við hliðina á Nissan Leaf.  tazzari_og_nissan_leaf

En þá kom upp óvænt vandamál. Svona ódýrir rafbílar eru eru svo léttir og sparneytnir, að þeir eru ekki hannaðir fyrir hraðhleðslu og jafnvel þótt settur væri upp hleðslustaur við blokkina, sem síðuhafi býr í, byði sú lausn ekki upp á möguleika á staur með aðeins 1,7 kílóvattstunda hleðslustraumi, heldur eru svona bílar "litla mannsins" yfirleitt hlaðnir úr innstungu úr heimilisrafmagni og taka álíka straum og hraðsuðuketill. 

Nú sýndust góð ráð dýr en þá kom í ljós nánast ókeypis ráð, að setja þennan örbíl niður á lágan grjótpall upp við húsvegg, en þó innan við gangstétt. 

Á þennan litla pall, sem er jafnstór og bíllinn; 2,88 x 1,56 metrar, hafði enginn stigið fæti né farið um og því var sá litli ekki fyrir nokkrum manni og alveg inni á eignarlóð húsfélagsins. 

Stutta rafleiðslu var hægt að leggja á þann hátt frá bílnum niður með vegg á geymsluinngangi og í venjulega innstungu að það truflaði engan. 

Var svo einfalt að það kostaði engan krónu nema bíleigandann, eitt stykki rafsnúru. 

En Adam var ekki lengi í paradís. Fyrir tæpu ár var skyndilega kominn miði á framrúðu bílsins frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar; 11 þúsund króna sekt! 

Frá talsmanni sjóðsins fékkst afgerandi svar: Nýbúið að setja ný umferðarlög sem gáfu færi á að gera nýja reglugerð, sem heimilaði Bílastæðasjóði að láta fjarlægja alla bíla í borginni, sem stæðu fyrir framan bílskúra hvenær, sem starfsmönnum sjóðsins dytti slíkt í hug! 

Algert bann væri við því fyrir húsfélagið að láta þennan örbíl standa þarna á eignarlóð þess, heldur yrði hann fjarlægður með lögregluvaldi og gerður upptækur samkvæmt nýju reglugerðinni! 

Nú vaknar spurningin: Fyrir hvern er þessi stofnun?  Fyrir fólkið sem hún á að þjóna? Eða eitthvað allt annað?  Greinilega ekki fyrir lausnamiðaða skynsemi og alls ekki fyrir "litla manninn". 


mbl.is Bílastæðakort hækka úr 8.000 í 30.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Ameríku: Stoltur þátttakandi. Á Íslandi: Auðmýking og niðurlæging?

Bandaríkjamenn búa að meira en 140 ára reynslu í tilvist þjóðgarða og hafa nýtt þá löngu reynslu til þess að koma á þjóðgarðastofnun sem stendur fyrir samræmdu aðgöngukerfi í formi nokkurs konar passa. 

Þess er gætt að aðgangaseyririnn sé hóflegur svo að allir, sem hann greiða geti verið fullvissir um  það að þetta framlag sé miklu lægra en nemur þeim kostnaði sem stafar af varðveislu náttúruverðmætanna og viðhaldi og starfrækslu þeirra vinnviða sem nauðsynlegir eru. 

Þótt Bandaríkjamenn telji sig búa í landi frelsis og lýðræðis hefur verið sátt um tilvist hinnar miðstýrðu þjóðgarðastofnunar og letrað á aðgöngupassann: "Stoltur þátttakandi."

Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir þáverandi ferðamálaráðherra orðaði hugmynd um svonefndan náttúrupassa 2014 ætlaði hins vegar allt um koll að keyra hér á landi og voru hafðar uppi upphrópanir á borð við "auðmýking" og "niðurlæging." 

Lítið hefur breyst í þessum efnum síðan en þó eru komin dæmi um nokkra einstaka staði. 

Langt er samt í land eins og sést á þeim hamagangi, sem hafður hefur verið í frammi gegn miðhálendisþjóðgarði. 


mbl.is Ríkið taki gjald við Geysi og á Jökulsárlóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband