Allt upp á hár samkvæmt áætlun; og þó?

Tveir Bandaríkjaforsetar, Donald Trump og Joe Biden, skrifuðu upp á samning Bandaríkjanna og Talibana um að ljúka Afganistastríðinu með skipulögðum brottflutningi Bandaríkjahers. 

Upphaflega var rætt um fjórtán mánaða tíma, sem þetta myndi taka, dagsetningin lok maí kom upp og loks dagsetningin 30. ágúst. 

Nú, að kvöldi þess dags, liggur fyrir að þessi tímaáætlun gekk upp. 

Og þó? Ekki alveg? 

Nei, enda þótt upphafleg ætlun Bandaríkjamanna væri sú að uppræta hryðjuverkasamtök í landinu, gerðu ný hryðjuverkasamtök árás og drápu 13 bandaríska hermenn. 

Annað fór öðruvísi en ætlað var. Frá upphafi var ætlunin sú að her stjórnarinnar í Kabúl fengi nóg af vopnum frá Könunum til að geta varist Talibönum og haldið stríðinu til streitu til enda með sigri. 

En þetta for svoleiðis í vaskinn að Biden klóraði sér í hausnum. Það var ekki hleypt af skoti. Stjórnarherinn mikli leyfði Talibönum að taka völdin og þar með að fá í hendurnar frá Bandaríkjamönnum herbúnað upp á stjarnfræðilega háa upphæð. 

Biden situr uppi með einhvern snautlegasta ósigur sem hugsast getur. Trump og aðdáendur hans segja, að þetta hefði ekki gerst ef hann hefði verið við völd. 

Samt gerði herinn með hann sem yfirmann þessa hlálegu áætlun, sem var einskis virði og verra en það. 

Í augum Afgana er málið nefnilega einfaldara en í augum NATO-hermannanna sem voru í landinu: Eftir 20 ára hersetu eru allir erlendir hermenn farnir! 

Samningarnir við Talibana voru nefnilega ónýtir allan tímann, því að hvort sem stjórnarherinn var vígbúinn i topp eða ekki, var valdataka Talibana tryggð á hvorn veginn sem var. Ef Bandaríkjamenn hefðu vanrækt að vígbúa stjórnarherinn og gera honum kleyft að halda stríðinu við Talibana áfram, hefðu það verið talin svik; erlendi herinn á förum og mikill vopnaskortur hjá stjórnarhernum. 

 


mbl.is Bandaríkin hafa yfirgefið Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvitið er auðlind, mannauðurinn verðmætastur.

Fátt hefur orðað betur gamalgróna vantrú á bókvit og trú á efnisleg gæði en gamla orðtakið "bókvitið verður ekki í askana látið" sem lýsir neikvæðu viðhorfi í garð lista og mennta og annars þess sem ekki er hægt að mæla í þyngd og magni. 

Þetta viðhorf var eðlilegt á þeim öldum Íslandssögunnar þegar þorri þjóðarinnar barðist jafnvel daglega við skort á jafn nauðsynlegum efnislegum gæðum og mat og klæðum, að ekki sé talað um svonefnda innviði, sem eru búnir til úr efnislegum hlutum eins og tré, málmum og tækjum. 

Á síðustu árum hefur hins vegar komið rækilega í ljós hve hugvit og nýsköpun getur orðið stór þáttur í þjóðarbúskap, þjóðarhag og viðskiptavild, auk þess sem velgengni byggð á hugviti og nýsköpun er mikilla peninga virði sem jákvæð kynning á þjóðinni og þeim mannauði, sem er í raun mesta verðmæti, sem hver þjóð á. 

Nýlega mátti sjá yfirlit yfir tekjur Íslendinga og kom þar vel í ljós, hvernig fólk í hinum svonefndu skapandi greinum hefur mörgu hverju tekist að vinna sér og þjóðinni inn ótrúlega mikil fjárhagsleg verðmæti með afurð hugans einni saman. 


mbl.is BBC fjallar um íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er bara að víkka þetta út.

Í borgum um alla Evrópu, einkum syðri hluta, leika reiðhjól og vélknúin hjól stórt hlutverk í því að koma í veg fyrir algert öngþveiti í umferðinni. Hver maður á hjóli losar eitt pláss fyrir bíl í þvögunni.Léttfeti við Gullfoss  

Í raun eru rafhlaupahjól vélhjól, því að þau eru vélknúin þótt rafmagn sé orkugjafinn. 

Léttbifhjól með útskiptanlegum rafhlöðum er líka ný hlið á þessum málum.

Síðuhafi telur sig aldrei hafa eignast betra einkafarartæki en rafknúið léttbifhjól með orkukostnað á aðeins 0,30 krónur á ekinn kílómetra.

Sem sagt; skreppur á Selfoss og til baka fyrir 30 krónur! 

Gullni hringurinn fyrir 200 kall. Náttfari við Engimýri

Þau eru af ýmsum stærðum og gerðum, allt frá vespulaga hjólum með 26 km hámarkshraða upp í hjól með 46, 56, 64-70,  80 og 90 km/klst hámarkshraða. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tvær rafskútur Laugavegi


mbl.is Ótrúlegur vöxtur á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. ágúst 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband