Sagan frá 1941 og 1812 situr enn í Rússum.

Á ferð norrænna bílablaðamanna á nýjum Volvobílum frá Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk 1978 var fróðlegt að bera saman kjör og sýn Rússa á svipaðri breiddargráðu og Ísland saman við íslenska sýn og veruleika. 

Götumyndin í Murmansk 1978 minnti á götumyndina í Reykjavík 1948. Ófullgerðar malargötur, gamlir vörubílar með verkakarla standandi á pöllunum, biðraðir vegna vöruskorts í verslunum og illa frágengin hús. 

Murmansk á svipuðu stigi og Reykjavík 30 árum fyrr og sovéskt alræði með ritskoðun allsráðandi í landi, sem lokaði þegna sína svo mjög inni, að þrjú þúsund manns voru á biðlistum eftir skipsrúmi í hverjum verksmiðjutogara til þess að komast út á sjó, jafnvel án þess  að sjá til lands vikum saman. 

Mikil þrá ríkti til að finna fyrir viðurkenningu norrænu gestanna á því sem þeim var sýnt, og minnti það óneitanlega svolítið á svolítið á fyrirbærið "how do you like Iceland?" heima á Íslandi. 

Rússarnir urðu daprir og hissa þegar við vorum ekki hrifnir, en þó var þar undantekning á, hvað varðaði söfnin í þessari norðlægu hafnarborg. 

Þau fengu Íslendinginn til þess að fyllast minnimáttarkennd í samanburðinum við söfnin og safnaleysið heima. 

Sýn Rússanna á sögu sambúðar þeirra við erlend stórveldi var og er enn sláandi sterk og umhugsunarverð þegar kom að útlistun þeirra á styrjöldum fyrri alda, sem fengu mjög flotta meðhöndlun í þessum söfnum í Murmansk. 

Hugtakið Seinni heimsstyrjöldin sást hvergi nefnt og því síður ártöl hennar, 1939-1945, heldur hét hún "Föðurlandsstyrjöldin mikla 1941-1945."

Afar vel var útfært hvernig Vesturveldin notuðu árin 1939 til 1941 til þess að gera þjóðir Austur-Evrópu að hernaðarlegum bandalagsþjóðum með tilheyrandi þýsku herliði plöntuðu niður í hverju landi. 

Og 22.júní 1941 rufu Þjóðverjar griðasamning sinn við Sovétríkin í stærstu hernaðarinnrás mannkynssögunnar þar sem megin markmiðið var að ná yfirráðum yfir Úkraínu og olíulindum, kornforðabúi og öðrum auðlindum þar og í Kákasuslýðveldunum við Kaspíahaf. 

1978 var auðvelt að hamra á þessari sögu í Rússlandi og er það gert enn ótæpilega, enda enn um yfirráð yfir sömu slóðum og 1941 til 1945 að tefla. 

Fyrir réttum 80 árum, sumarið 1942, stóð yfir stórsókn Öxulveldanna um Ukraínu austur til Bakú. 

Og enn eru slóðir innrásar Napóleons 1812 sýndar skilmerkilega ásamt því að fjalla um helstu orrustur þeirrar innrásar.  

 


mbl.is Vesturlönd ætli að ráðast á Rússland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir þrjátíu árum skorti rannsóknir á banaskotum hvala.

 

Ætli það séu ekki um þrjátíu ár síðan málaferli voru vegna þeirrar aflífunaraðferðar sem notuð er á hvolum hjá Íslendingum. 

Þeir sem sóttu málið héldu því fram að hvalir stæðu ekkert síður nálægt mönnum um líkamsgerð og tilfinningalíf en aðrar skyldustu spendýrategundir, og að svona drápsaðferðir stæðust ekki dýraverndunarlög. 

Eftir mjög athyglisverð réttarhöld og yfirheyrslur kom sá úrskurður, að gögn skorti um það, hve miklum sársauka ríkjandi drápsaðferð ylli og varð málareksturinn því ekkert lengri í það sinn, heldur héldu hvalveiðarnar áfram með óbreyttri aðferð sem hefur verið notuð síðan. 

Eitt af því sem málsaðilar litu ólíkt á var sú staða hvalanna í fæðukeðjunni að þeir þyrftu ekki að óttast það í eðlilegu umhverfi að önnur dýr réðust á þá og ætu. 

Komu tvö sjónarmið þar fram. Annars vegar að maðurinn væri að því leyti aðskotadýr í dýraríkinu að ofsækja hvalina og drepa þá, en það væri sérlega óeðlilegt. Hins vegar, að það væri ekkert óeðlilegt við það að hvalirnir þyrftu að óttast eins og önnur dýr, og að þar gengndi maðurinn því eðlilegu hlutverki. 

Einu sinni bauðst Íslendingum að selja Arabaþjóðum tugþúsundir kinda til þess að aflífa þær með arabísku aðferðinni að stinga þær neðan við nnakkann. Bent var á að þessi aðferð væri svipuð og gamla hefðbundna aðferðin hefði verið hér á öldum áður.

En hugmyndin var samt kveðin niður hér heima vegna þess að þessi arabíska aðferð væri verri en banaskotið. 

Jón Kristjánsson dýralæknir var eitt sinn spurður að því hverng aflífunaraðferðir Arabaþjóða við kindaslátrun væru verri; ómannúðlegri en banaskotið hjá okkur. 

Jón svaraði: "Ég get ekki svarað þessu, því að ég hef aldrei prófað að vera kind, sem er aflífuð með báðum aðferðunum." 


mbl.is Banaskot hvala rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband